Mánaðarskipt færslusafn fyrir: nóvember 2013

Klausturmenning á Íslandi og Norðurlöndum á miðöldum

Haraldur Bernharðsson

Norsk máláhrif og kirkja og klaustur á Íslandi

Fimmtudaginn 28. nóvember 2013 kl. 16.30
Árnagarði 423

Haraldur Bernharðsson
Haraldur Bernharðsson

Á síðari hluta þrettándu aldar og á fjórtándu öld má sjá aukin norsk áhrif á stafsetningu og málfar í íslenskum handritum. Þessi áhrif haldast í hendur við aukin norsk áhrif á menningu og stjórnarfar hér á landi og verður að teljast líklegt að kirkja og klaustur hafi átt drjúgan þátt í þeim, meðal annars í gegnum norska biskupa og reglubræður hér á landi. Margt er óljóst um hve djúpt þessi norsku áhrif ristu. Margir þættir virðast hafa horfið furðuhratt á öndverðri fimmtándu öld en aðrir entust lengur. Norsk áhrif á skrift og stafsetningu hafa þó greinilega verið bæði útbreiddari og endingarbetri en norsk máláhrif, enda hafa kirkja og klaustur verið áhrifamiklar stofnarnir í kennslu og bókagerð. Hafi norsk skriftar- og ritvenja verið í hávegum höfð þar hefur hún haft mótandi áhrif á allan þorra þeirra er lærðu skrift og bókagerð á þrettándu og fjórtándu öld. Áhrif kirkju og klaustra á tungumálið hafa aftur á móti fyrst og fremst verið bundin við orðaforða en áhrif á kerfislega þætti í máli landsmanna hafa verið takmörkuð. Norsk máleinkenni í íslenskum handritum frá þrettándu og fjórtándu öld eru sjaldnast mjög regluleg og birtast jafnan við hlið samsvarandi íslenskra einkenna. Líklegt má því teljast að þessi norsku máleinkenni hafi haft takmarkaða fótfestu í mæltu máli og fyrst og fremst verið ritmálsviðmið sem skrifararnir leituðust við að fylgja.

Haraldur Bernharðsson er málfræðingur og dósent við Íslensku- og menningardeild Háskóla Íslands. Rannsóknir hans lúta einkum að íslenskri málsögu, meðal annars breytileika í íslensku máli á 14. öld.

Strengleikar

Chris Callow, University of Birmingham

Iceland and the viking diaspora, c. 900—c. 1400

Fimmtudaginn 21. nóvember 2013 kl. 16.30
Árnagarði 423

Christopher Callow
Chris Callow

Iceland’s relations with the wider Scandinavian world in the middle ages were diverse and multi-faceted. This paper aims to explore some aspects of the research which form part of a broader project on ‘the viking diaspora’ which will be published as a book. Iceland is at the heart of the study, especially the latter half of it, because of its later medieval literary texts which preserve varied perspectives on the Old Norse-Icelandic-speaking world. After considering some methodological and historiographical issues the paper will look briefly at  Iceland’s relationship with Norway.

Chris Callow er lektor í miðaldasögu við Birmingham-háskóla. Doktorsverkefni hans fjallaði um miðaldasögu Íslands. Hann hefur m.a. rannsakað lífsferil manna á miðöldum og viðhorf Landnámabókar til landnámskvenna.

Klausturmenning á Íslandi og Norðurlöndum á miðöldum

14. nóvember 2013

Guðlaugur Rúnar Guðmundsson

Skólastarf í íslenskum klaustrum

Gudlaugur Runar Gudmundsson
Guðlaugur Rúnar Guðmundsson

Sigur kristindóms í Evrópu leiddi til mikilla þáttaskila. Kirkjan tók að sér uppeldis- og skólamál. Klausturskólar, dómskólar og síðar háskólar risu upp til styrktar kristnum heimi. Tengsl hins lenda manns í Noregi, Gissurar hvíta, máttu sín mikils og honum tókst að senda Ísleif son sinn í klausturskólann í Herford (Herfurðu) í Saxlandi þar sem væntanlegir höfðingjar hins nýja siðar lærðu fræðin. Ísleifur Gissurarson og Rúðólfur (Hróðólfur) biskup eru komnir til landsins árið 1030, m.a. með karlungaletrið og septem artes liberales skólakerfið.  Rúðólfur stofnar klaustur í Bæ í Borgarfirði og starfar þar um 20 ár (1030–1049) og Ísleifur sest að í Skálholti. Ísleifur var vígður biskup 1056. Þá er hann þegar búinn að undirbúa fyrstu kynslóð presta í landinu.

Upphaf skólastarfs á Íslandi má rekja til fyrirkomulags ytri skóla (schola exterior) klaustursins í Herford. Þar lærðu brautryðjendurnir, Ísleifur og Gissur fræðin og þær aðferðir sem kaþólska kirkjan tók upp til að festa sig í sessi og ætlaðar voru þeim höfðingasonum sem áttu að taka við eftir sigur kristninnar. Rætur skólastarfsins í íslensku klaustrunum má að mestu rekja til Þýskalands þótt ensk áhrif væru áberandi á fyrstu árum elleftu aldar. Menntun yfirstéttarinnar á Íslandi á 11. öld og allt fram að siðskiptum tengist beint klaustrum og dómskólum Evrópu.

Karl mikli keisari hins heilaga rómverska ríkis hafði mælt svo fyrir um 789 að í hverju biskupsdæmi og í hverju klaustri skyldu kenndir Davíðssálmar, nótnalestur, söngur, reikningslist og málfræði. Skólastarfið innan íslensku klaustranna áttu einna drýgstan þátt í þeirri menningarbyltingu sem hófst á Íslandi á 11. öld og þar vegur kennslan og iðkun fræðanna, bæði í ytri og innri skólum klaustranna, einna þyngst.

Guðlaugur Rúnar Guðmundsson er sjálfstætt starfandi sagnfræðingur. Rannsóknir hans lúta einkum að skólasögu fyrri alda á Íslandi og nafnfræði höfuðborgarsvæðisins.

Strengleikar

Tarrin Wills, University of Aberdeen

The electronic representation of the Old Norse world

Þriðjudaginn 12. nóvember 2013 kl. 16.30
Árnagarði 423

Tarrin_Wills 02
Tarrin Wills

This paper presents the work of the Skaldic Project in the context of developments in the use of the Internet. The last decade has seen enormous changes to the way in which we share data on the Internet, with user-provided content becoming ubiquitous in the form of ‘social media’. Social media allow users to create structured and linked content, comment on the content of other users, and restrict access according to various rules and networks. Their success derives from the way they mirror the processes of human networks and sharing information in the ‘real world’. Many of these processes are seen in the production of scholarly work in collaborative settings, meaning that these techniques can be used to promote data sharing in our own small field of Old Norse studies. In Old Norse we have a number of digitisation projects working to produce reliable data on the texts, manuscripts and other phenomena of early Scandinavia. What is currently lacking is the ability to share and link common reference points — people, places, manuscripts, bibliographic items, texts and poetry — between the many projects that encompass and refer to them. Additionally, these projects often go unnoticed as legitimate research outputs because of unstable publishing on the web and informal peer review processes. The Skaldic Database has provided solutions to many of these problems for various projects; this paper will further elaborate on solutions to the remaining issues, and the possibilities they offer our field.

Tarrin Wills is Senior Lecturer in the Department of History at the University of Aberdeen. He is a long-standing member of the Skaldic Project and has recently joined the research project Pre-Christian Religions of the North.

Strengleikar

Íslenskar miðaldakirkjur í nýju ljósi

Fimmtudaginn 7. nóvember 2013 kl. 16.30
Lögbergi 101

Tveir fyrirlestrar um íslenskrar miðaldakirkjur verða haldnir í miðaldamálstofu fimmtudaginn 7. nóvember kl. 16.30. Þorsteinn Gunnarsson fjallar um Halldórukirkju og Péturskirkju á Hólum og Gunnar Harðarson segir frá nýjum hugmyndum um Gíslakirkju og Klængskirkju í Skálholti:

Þorsteinn Gunnarsson

Halldórukirkja og Péturskirkja á Hólum í nýju ljósi

ÞG 3
Þorsteinn Gunnarsson

Í erindinu er fjallað um tvær eldri Hóladómkirkjur, stærð þeirra og gerð, út frá skriflegum heimildum. Til eru tvær heimildir frá 18. öld um stærð Halldórukirkju (reist 1627, rifin 1759). Þeim ber ekki saman og hefur verið ályktað að önnur þeirra sé ótraust. Hér er sýnt fram á að mælingarnar voru gerðar hvor með sínum hætti, og færð rök að því að báðar heimildirnar séu traustar. Á grundvelli þeirra og lýsinga úttekta eru gerðir uppdrættir af Halldórukirkju.

Áður hefur verið álitið að Péturskirkja (reist 1395, fauk 1624) hafi verið 84 álna löng. Hér eru leidd að því rök að sú skoðun byggist á mistúlkun á heimild frá 16. öld, sem segi þvert á móti að kirkjan hafi verið 67 álna löng. Þessu til staðfestingar eru tilfærðar tvær heimildir sjónarvotta, önnur um fjölda þaksperra, hin um samanburð á kirkjunum tveimur. Miðað við þessa lengd kirkjunnar eru gerðar tilgátuteikningar af Péturskirkju (1395).

Þorsteinn Gunnarsson er arkitekt frá Arkitektaskóla konunglega danska listaháskólans og stundaði einnig nám í byggingarfornleifafræði við Franska fornleifaskólann í Aþenu. Hann er ritstjóri ritraðarinnar Kirkjur Íslands.

Gunnar Harðarson

Nýjar hugmyndir um Gíslakirkju og Klængskirkju í Skálholti

gunnar_agust_hardarson618596282_90x120
Gunnar Harðarson

Á miðöldum voru þrjár dómkirkjur byggðar í Skálholti: Gissurarkirkja (1082), Klængskirkja (1153) og  Árnakirkja (1311), og tvær voru reistar á siðbreytingartímanum: Ögmundarkirkja (1527) og Gíslakirkja (1570). Almennt er talið að þær hafi verið hver annarri líkar og hinar síðari reistar á grunni hinna fyrri. Vitað er að Gísli biskup Jónsson hafði uppi áform um að smíða minni kirkju í stað Ögmundarkirkju, en ekki hefur verið unnt að sýna fram á að kirkjan sem hann reisti hafi verið minni en fyrirrennari hennar. Í erindinu eru ritaðar heimildir um áform Gísla biskups endurmetnar og komist að þeirri niðurstöðu að samkvæmt þeim hljóti hann að hafa minnkað kirkjuna. En hvernig kemur sú niðurstaða heim og saman við vitnisburð fornleifarannsóknarinnar sem er undirstaðan undir öllum tilgátum um gerð og stærð Skálholtskirkna? Og hvað getur hann sagt okkur um fagurfræði Klængskirkju?

Gunnar Harðarson er prófessor við Sagnfræði- og heimspekideild og umsjónarmaður meistaranáms í miðaldafræðum.

Klausturmenning á Íslandi og Norðurlöndum á miðöldum

Sverrir Jakobsson

Frá Helgafellsklaustri til Stapaumboðs: Góss í íslensku og breiðfirsku samhengi

Fimmtudaginn 5. nóvember 2013 kl. 16.30
Árnagarði 423

Sverrir Jakobsson

Flestar rannsóknir á eignarhaldi og stéttaskiptingu á Íslandi hafa beinst að því að skoða landið í heild og draga af því almennar niðurstöður. Með því glatast hins vegar vitund um héraðsbundinn mun. Hins vegar er ástæða til að rannsaka betur ólík form eignarhalds og atvinnuhátta á milli landsvæða. Einnig gefa staðbundnar rannsóknir möguleika á að fylgjast betur með þróun í einstökum héruðum þó að heimildir skorti um önnur héruð á sama tíma. Við Breiðafjörð var gósseign í vexti á 14. öld og í heimildum sést glögglega að einstaklingar og staðir á borð við Helgafellsklaustur leituðust við að koma sér upp safni jarðeigna á afmörkuðum svæði. Gósseign Helgafellsklausturs myndaðist þannig tiltölulega hratt á fáeinum áratugum skömmu eftir miðja 14. öld. Á 15. öld varð svo enn meiri samþjöppun jarðeigna og höfðingjar áttu þá miklar jarðeignir í mörgum héruðum. Til varð stétt landeigenda sem hafði iðulega allt landið undir og ríkti sú efnahagsskipan án mikilla breytinga fram á 18. öld. Mikil staðbundin jarðeign Helgafellsklausturs er hins vegar leif frá þróun 14. aldar þar sem eignir klaustursins voru mjög samþjappaðar á Snæfellsnesi. Á 16. öld urðu þessar eignir að Stapaumboði en höfðingjar gátu nýtt sér forræði yfir því til að öðlast sterka héraðsbundna stöðu við Breiðafjörðinn. Í fyrirlestrinum verður rætt hvaða máli eignir Helgafellsklausturs skiptu fyrir gang siðaskiptanna við Breiðafjörð og hvort tilvist Stapaumboðs á síðari öldum hafi mótast af þessum uppruna.

Sverrir Jakobsson er lektor í miðaldasögu við Háskóla Íslands. Hann hefur m.a. rannsakað heimsmynd og íslenskt þjóðerni, friðarviðleitni kirkjunnar og valdamiðstöðvar, m.a. í Breiðafirði.