Mánaðarskipt færslusafn fyrir: febrúar 2016

Sturlungaöld

torfivesteinn

3. mars 2016

Torfi Tulinius

Áföll, minningar og skáldskapur

Um samband ofbeldis og sagnaritunar á Sturlungaöld

Fimmtudaginn 3. mars 2016 kl. 16:30

Askja 132

Torfi H Tulinius 2Í erindi mínu mun ég leitast við að varpa ljósi á það hvernig stormasöm samtíð höfunda Íslendingasagna hafði áhrif á sagnaritun þeirra. Fræðileg hugtök verða sótt til minnis- og áfallafræða, ekki síst þeirra sem vinna úr arfleifð Freuds. Dæmin verða meðal annars tekin úr Brennu-Njáls sögu og Íslendingasögu Sturlu Þórðarsonar.

 

Torfi H. Tulinius er prófessor í íslenskum miðaldafræðum við Íslensku- og menningardeild Háskóla Íslands. Í rannsóknum sínum hefur Torfi fengist við franskar miðalda- og nútímabókmenntir, en einkum þó við íslenskar miðaldabókmenntir, sem hann leitast við að skilja út frá því samfélagi sem ól þær af sér og með aðstoð ýmiss konar fræðikenninga. Hann hefur ritað tvær bækur um efnið, aðra um fornaldarsögur Norðurlanda (The Matter of the North. The Rise of Literary Fiction in Thirteenty Century Iceland, 2002) og hina um Egils sögu (Skáldið í skriftinni. Snorri Sturluson og Egils saga, 2004).

—o—

3. mars 2016

Vésteinn Ólason

Enn um Íslendingasögur og Sturlungaöld

Fimmtudaginn 3. mars 2016 kl. 16:30

Askja 132

vesteinnÍ umræðunni um upphaf og aldur Íslendingasagna er stundum farið nokkuð hratt yfir sögu og ályktanir á köflum byggðar á veikum grunni. Í fyrirlestrinum verður fyrst rætt stuttlega um aðferðafræði sögulegra rannsókna á sviðum þar sönnunum verður ekki við komið. Þá verður vikið að textafræðilegum rökum fyrir því að allmargar sögur hafi verið skrifaðar á 13. öld. Síðan verður fjallað um almennari rök sem beitt hefur verið til að setja fram tilgátu um upphaf og þróun Íslendingasagna og lúta einkum að rótum sagnaritunarinnar í þjóðfélagsgerð og þjóðfélagsaðstæðum. Bent verður á almennar líkur til þess að upphaf og  blómaskeið ritunar Íslendingasagna sé á 13. öld og eigi rætur í þeim breytingum sem þá voru að verða á samfélaginu. Þetta er ekki ný tilgáta, en þeir sem hafna henni þurfa að hrekja forsendur hennar og setja fram aðra betur rökstudda.

 

Vésteinn Ólason er prófessor emeritus við Háskóla Íslands og fyrrverandi forstöðumaður Árnastofnunar. Helstu rannsóknasvið hans eru sagnadansar og íslenskar miðaldabókmenntir, einkum Íslendingasögur og eddukvæði. Meðal rita hans má nefna Samræður við söguöld. Frásagnarlist Íslendingasagna og fortíðamynd, 1998, og Eddukvæði I-II, útg. ásamt Jónasi Kristjánssyni, 2014.

Sturlungaöld

armannadalheidur

18. febrúar 2016

Ármann Jakobsson

Ferð án fyrirheits

Upphaf Íslendingasagnaritunar og endalok þjóðveldisins

Fimmtudaginn 18. febrúar 2016 kl. 16:30

Oddi 101

Ármann Jakobsson
Ármann Jakobsson

Það hefur verið haft fyrir satt undanfarna áratugi að Sturlungaöldin sé jafnframt sagnaritunaröld og sem kunnugt er lýsti Sigurður Nordal þróun Íslendingasagna­ritunar í fimm þrepum þar sem 13. öldin var í aðalhlutverki en aðeins ódæmi­gerðar sögur ritaðar eftir 1300. En hversu öruggar eru þær niðurstöður og hvaða máli skiptir fyrir hugmyndir okkar um Íslendingasögur hvort drjúgur hluti þeirra var ritaður í þjóðveldi eða í konungsríki? Í erindinu verður farið yfir þessa umræðu frá Sigurði Nordal til okkar daga og sjónum sérstaklega beint að elstu Íslendingasögunum og hugmyndum um uppruna þeirra.
Ármann Jakobsson lauk doktorsprófi í íslenskum bókmenntum frá Háskóla Íslands árið 2003. Hann er nú prófessor í íslenskum bókmenntum fyrri alda við Háskóla Íslands. Meðal nýlegra bóka eftir hann eru Nine Saga Studies: The Critical Interpretation of the Icelandic Sagas (2013), Íslendingaþættir: saga hugmyndar (2014) og A Sense of Belonging: Morkinskinna and the Icelandic Identity c. 1220 (2014).

18. febrúar 2016

Aðalheiður Guðmundsdóttir

Um sagnamenningu, miðlun og frumskeið fornaldarsagna

Fimmtudaginn 18. febrúar 2016 kl. 16:30

Oddi 101

Aðalheiður Guðmundsdóttir
Aðalheiður Guðmundsdóttir

Í fyrirlestrinum verður varðveisla fornaldarsagnaefnis á munnlegu stigi skoðuð og gerð verður grein fyrir elstu heimildum um sagnaskemmtun þar sem fornaldarsögur eða skyldar sögur ber á góma. Áhersla verður þó einkum lögð á frásögn Þorgils sögu og Hafliða af þeim Hrólfi frá Skálmarnesi og Ingimundi presti Einarssyni, en báðir skemmtu þeir með sögum og kvæðum í hinu fræga Reykjahólabrúðkaupi árið 1119. Í tengslum við þetta verður rætt um hugtakið „söguminni“, sem í samhengi þess efniviðar sem hér um ræðir má segja að feli í sér tvennt: sögulegar minningar og „sameiginlegt“ minni, sem ber þá vott um almenna þekkingu á efniviði sagnanna og sameiginlegri heimsmynd þeirra.

Í framhaldinu verður rætt um eðli fornaldarsagnaefnis og hlutverk þess í samfélaginu. Að sumu leyti einkennist það af endurliti og er þar með eins konar arfur sem rekja má til fyrstu alda Íslandsbyggðar. Með tímanum verður efniviðurinn svo að skriflegum sögum, bókmenntum, sem færa fólkinu minningar úr fortíðinni og um fortíðina, og tengingar aftur í tímann. Á sama tíma tilheyra sögurnar þó einnig sjálfsmyndarsköpun hins unga samfélags, og birtingarmyndir þeirra á hverjum tíma fyrir sig eru því ekki eingöngu háðar fortíðinni heldur ekki síður hlutverki þeirra í samtímanum.

Að lokum verður litið til skráningar sagnanna og á hvern hátt sagnaritarar fornaldarsagna skera sig frá þeim sagnariturum sem leituðust við að skrá sögulegan fróðleik eða „sagnfræði“. Hvorir tveggju voru lærðir menn en viðhorf þeirra til sagnaefnisins og hinna baklægu munnmælasagna var engu að síður með ólíku sniði.

Aðalheiður Guðmundsdóttir er dósent í íslenskum bókmenntum fyrri alda við Háskóla Íslands. Í rannsóknum sínum hefur hún einkum fengist við miðaldabókmenntir með áherslu á fornaldarsögur Norðurlanda og tengingu þeirra við samevrópska sagnamenningu, munnlega hefð, rímur og fornminjar. Hún var áður dósent í þjóðfræði við sama háskóla.

Strengleikar

jkfaugl

Jóhanna Katrín Friðriksdóttir

„Bækr nem þú blíðliga“: Konungs skuggsjá, konur og handrit frá síðmiðöldum

Þriðjudaginn 9. febrúar 2016 kl. 16.30
Lögbergi 101

Jóhanna Katrín Friðriksdóttir
Jóhanna Katrín Friðriksdóttir

Konungs skuggsjá, norskt rit sem samið var um miðja 13. öld við hirð Hákonar Hákonarsonar, naut mikilla vinsælda á Íslandi á 15. og 16. öld eftir fjölda handrita að dæma. Hægt er að rekja mörg handritanna til valdaætta í Eyjafirði og virðist Konungs skuggsjá hafa notið meiri vinsælda þar en annars staðar á landinu. Nokkur þessara handrita voru pöntuð af eða rituð fyrir konur og sömuleiðis gengu þau sum í erfðir í kvenlegg allt þar til Árni Magnússon komst yfir þau. Í fyrirlestrinum verða þessi handrit skoðuð nánar og ég mun gera grein fyrir uppruna þeirra, eigendasögu, efnislegum einkennum og öðrum textum í þeim eftir því sem efni standa til. Af þessum upplýsingum er hægt að draga ýmsar ályktanir og ég mun leitast við að svara því, hvað þessi áhugi á Konungs skuggsjá og handritin hennar getur sagt okkur um bókmenntir og menningu í efri stéttum Íslands á síðmiðöldum, sérstaklega um viðhorf til erlendrar hirðmenningar og konungsvalds, en einnig til trúar og góðra dyggða. Í þessu samhengi mun ég einnig velta upp spurningum um hlutverk kvenna í bókmenningu sem og menntun barna. Þannig mun ég skoða íslenska menningu og sögu síðmiðalda í víðara samhengi út frá einum texta sem er ekki venjulega tengdur við Ísland á þessum tíma.

Jóhanna Katrín Friðriksdóttir er Marie Curie styrkþegi á Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum og stundar þar rannsóknir á bókmenntum og handritamenningu síðmiðalda. Hún lauk doktorsprófi frá Oxford árið 2010 og fjallaði doktorsritgerð hennar um konur og vald í norrænum fornbókmenntum. Jóhanna hefur birt ýmsar greinar um miðaldabókmenntir og ritstýrt bæði tímaritinu Griplu og greinasafninu Góssið hans Árna.