Monthly Archives: December 2013

Cloisters and Culture in Iceland and the North 
in the Middle Ages

Guðrún Harðardóttir

Hvað segja innsiglin? Myndheimur íslenskra klausturinnsigla

Fimmtudaginn 9. janúar  2014 kl. 16.30
Árnagarði 423

Gudrun Hardardottir
Guðrún Harðardóttir

Innsigli voru mikilvægur þáttur í menningu miðalda og sem slík heimild um sjónmenningu þessa tíma. Ætla má að myndefni innsigla sé að stórum hluta táknrænt og í því felist einhver tjáning á sjálfsmynd eigenda þeirra. Í fyrirlestrinum verður sjónum beint að íslenskum klausturinnsiglum. Skoðað verður hvort áberandi munur sé milli innsigla klausturreglnanna tveggja sem störfuðu á Íslandi, benediktína og ágústína. Einnig hvort myndirnar birta almennar hefðir viðkomandi klausturreglu eða hvort um einhver „séríslensk“ afbrigði sé að ræða. Til að sjá íslensku innsiglin í skýrara ljósi er nauðsynlegt að skoða þau í samhengi hinnar alþjóðlegu miðaldakirkju, einkum innan Niðarósserkibiskupsdæmis, eftir því sem tök eru á.

Guðrún Harðardóttir er sérfræðingur við húsasafn Þjóðminjasafns Íslands. Rannsóknir hennar lúta einkum að kirkjubyggingum miðalda og ýmsum öðrum þáttum byggingararfsins.

Cloisters and Culture in Iceland and the North 
in the Middle Ages

Jón Viðar Sigurðsson

„Atburðr á Finnmǫrk“: Samvinna erkibiskups, biskupa og ábóta á Íslandi

Fimmtudaginn 12. desember  2013 kl. 16.30
Odda 106

Jon Vidar Sigurdsson
Jón Viðar Sigurðsson

Um 1360 réð prestur einn af Hálogalandi sig á skip með kaupmönnum sem sigldu til Finnmarkar. Þar upplifði hann kraftaverk. Presturinn skrifaði til erkibiskups í Niðarósi og greindi frá þessum atburði. Erkibiskup lét opinbera hann í dómkirkjunni. Einn af klerkum erkibiskups skrifaði síðan niður þessa atburði á latínu og sendi bréf til tveggja bræðra á Möðruvöllum. Þeir fóru með það til Einars Hafliðasonar, officialis við Hólakirkju, sem „sneri í norrænumál“. Í fyrirlestri mínum nota ég þessa frásögn til að fjalla um þýðingar á gögnum erkibiskups og ræða hvort íslensku biskupsstólarnir hafi gegnt hlutverki sem skjalaþýðendur hans.

Jón Viðar Sigurðsson er prófessor í sagnfræði við Oslóarháskóla. Rannsóknir hans lúta einkum að stjórnmála- og kirkjusögu á Íslandi og í Noregi á miðöldum.

Strengleikar

Adolf Friðriksson

Kringum kuml

Táknmál og staðhættir á járnöld

Fimmtudaginn 5. desember 2013 kl. 16.30
Odda 101

Adolf Fridriksson copy
Adolf Friðriksson

Á síðustu árum hafa verið gerðar rannsóknir á staðsetningu greftrunarstaða úr heiðni. Hin hefðbundna skoðun var að staðir til greftrunar hafi verið valdir af handahófi. Skráning og kortlagning þekktra kumlfunda hefur þvert á móti leitt í ljós að kumlum hefur verið valinn staður eftir fastmótuðum hugmyndum. Algengt er að þau finnist á útjaðri landareigna og við gamlar leiðir.

Í erindinu verður fjallað um heimildagildi kumla um greftrun og samfélag. Sagt verður frá kortlagningu þekktra kumla hringinn í kringum landið og tilraunum til að finna áður óþekktar grafir eftir þeim vísbendingum sem lesa má úr staðháttum. Greint verður frá nokkrum túlkunarmöguleikum, m.a. um þróun samfélagsgerðar á fyrstu öldum Íslandsbyggðar, og nýjum rannsóknartækifærum sem felast í kumlafræðum.

Erindið er kynning á doktorsritgerðinni La place du mort. Les tombes vikings dans le paysage culturel islandais er höfundur varði nýlega við Sorbonne-háskóla og fjallar um staðarval og greftrun í samfélagi víkingaaldar.

Adolf Friðriksson er fornleifafræðingur hjá Fornleifastofnun Íslands ses. Hann lauk nýlega doktorsprófi við Sorbonne-háskóla og vinnur m.a. við rannsóknir á kumlum og menningarlandslagi.

— o —