Monthly Archives: December 2015

The Age of the Sturlungs

07 Sturlunga Arni og Kristin.002

Árni Einarsson

Lesið á milli lína

Táknmál í ritum Sturlungaaldar

Fimmtudaginn 7. janúar 2016 kl. 16.30
Öskju 132

Árni Einarsson
Árni Einarsson

Lærðir rithöfundar á miðöldum notuðu staðlað táknmál til að leiða lesendur á æðri vitsmunastigu, venjulega til að rækta trú þeirra. Lærðir menn á Íslandi kunnu táknmálið og í ýmsum ritum Sturlungaaldar, m.a. í Sturlungu sjálfri, má greina markvissa notkun táknmynda í þessum tilgangi. Með greiningu á notkun táknmáls í fornum texta fæst innsýn í hugarheim höfundarins og meta má heimildagildi textans. Í fornritunum birtast táknhlaðnir textar gjarnan sem frekar stuttir kaflar þar sem hægt er á atburðarásinni svo að tóm gefst til að lýsa þeim smáatriðum sem táknmálið krefst. Spyrja má um samhengi táknhlöðnu kaflanna við sögurnar sem innihalda þá, en það atriði hefur enn ekki verið krufið til mergjar. Í fyrirlestrinum verður stutt kynning á einkennum og uppruna táknmáls miðalda og þeirri heimsmynd sem það byggðist á og dæmi tekin úr íslenskum ritum, m.a. Hrafns sögu Sveinbjarnarsonar og Ólafs sögu helga.

Árni Einarsson er dýravistfræðingur, forstöðumaður Náttúrurannsóknastöðvarinnar við Mývatn og gestaprófessor við Líf- og umhverfisvísindadeild Háskóla Íslands. Hann lauk doktorsprófi frá Aberdeenháskóla í Skotlandi 1975 með rannsóknum á árlegu landnámi fugla á varpstöðvum. Árni hefur unnið að ýmsum rannsóknum á vistfræði Mývatns. Einnig hefur hann stundað rannsóknir á sviði fornvistfræði og tengdum greinum, m.a. á fornaldargarðlögum og öðrum minjum í Þingeyjarsýslum og túlkun fornrita.

—o—

Kristín Bjarnadóttir

Ritgerðin Algorismus

Texti um indóarabíska talnaritun í Hauksbók

Fimmtudaginn 7. janúar 2016 kl. 16.30
Öskju 132

Kristín Bjarnadóttir
Kristín Bjarnadóttir

Fornan texta, Algorismus, er að finna í nokkrum íslenskum handritum. Textinn fjallar um indóarabíska talnaritun. Kunnast handritanna er Hauksbók. Talið er að sá hluti Hauksbókar sem Algorismus er í hafi verið ritaður á tímabilinu 1302–1310. Algorismus er þýðing á latnesku skólaljóði, Carmen de Algorismo, eftir Alexander de Villa Dei, franskan námsefnishöfund sem uppi var um 1200.

Í Algorismus er gerð grein fyrir talnaritun með sætiskerfi þar sem grunntalan er tíu og er sú list eignuð Indverjum. Þar er umfjöllun um jafnar tölur og oddatölur og alls sjö reikniaðgerðir. Þótt meginmál Algorismuss sé næsta orðrétt þýðing á Carmen de Algorismo er nokkuð um að bætt hafi verið talnadæmum til skýringar inn í íslenska textann, sérstaklega framan af, og einstaka hlutar Carmen hafa rýrnað í þýðingunni. Lokakafla Algorismuss er ekki að finna í fyrirmyndinni. Þar eru hugleiðingar um tölugildi jarðar og elds, loft og vatns og hlutföllin á milli þeirra. Talið er að þessi kafli sé eini vitnisburðurinn um þekkingu á Tímaíos eftir Platon á Norðurlöndum.

Ræddar verða reikniaðferðir þær sem settar eru fram í Algorismus. Á meðal þeirra er dráttur teningsrótar. Hann er ekki að finna í latneskum þýðingum á arabískum ritum og er teningsrót talin hafa komið fyrst fram á latínu í Carmen de Algorismo. Enn fremur verða raktar þær rannsóknir sem gerðar hafa verið á uppruna texta Algorismuss og rædd tilgáta um að ritið hafi verið þýtt og skráð í Viðeyjarklaustri um eða fyrir miðja 13. öld.

Kristín Bjarnadóttir er prófessor emeritus í stærðfræðimenntun við Menntavísindasvið Háskóla Íslands. Hún lauk BA-prófi í eðlisfræði og stærðfræði frá Háskóla Íslands árið 1968, MSc-prófi frá Háskólanum í Oregon árið 1983 og PhD-prófi í stærðfræðimenntun á sviði sögu stærðfræðimenntunar við Háskólann í Hróarskeldu árið 2006.  Kristín hefur kennt stærðfræði og eðlisfræði á unglingastigi grunnskóla og við Fjölbrautaskólann í Garðabæ og stærðfræði og kennslufræði stærðfræði við Menntavísindasvið.