Monthly Archives: April 2019

Centre for Medieval Studies Lectures

Jón Viðar Sigurðsson

Sturlungaöld og aðrar borgarastyrjaldir að fornu og nýju

Thursday, April 11, 2019, at 16.30
Lögberg 101

Jón Viðar Sigurðsson

Í fyrri hluti fyrirlestursins verður fjallað um rannsóknarverkefnið The Nordic ‘Civil Wars’ in the High Middle Ages from a cross-disciplinary and comparative perspective. Til að öðlast ný sjónarhorn á borgarastyrjaldir á Norðurlöndum á tímabilinu um 1130–1260 beindum við augum okkar annars vegar að umræðunni um hin „nýju stríð“ og hins vegar um borgarastyrjaldir sem átt hafa sér stað undafarin tuttugu ár, einkanlega í Gíneu-Bissá og Afganistan.

Síðari hluti fyrirlestursins fjallar um Sturlungaöldina, blóðugasta tímabil Íslandssögunnar. Í þessum hluta verður augunum beint að tveimur megineinkennum þessara átaka: hinni óljósu óvinamynd og erlendum áhrifum, þ.e.a.s. norska konungsvaldinu. Vinir og frændur tókust á. Það gat því verið erfitt að finna einhvern til að berjast við í vopnaviðskiptum Sturlungaaldar. Til að leysa þetta vandmál söfnuðu goðarnir sekum mönnum og gerðu að sínum fylgdarmönnum. Þessir útlagar, sem voru réttdræpir og áttu því vernd goðanna lífi sínu að þakka, urðu mikilvægasti hlekkurinn í „herjum“ þeirra.

Þátttaka erlendra aðila er ein meginástaða þess að margar af borgarastyrjöldum líðandi stundar virðast engan enda hafa. Átök Sturlungaaldar, eins og þekkt er, má að miklu leyti rekja til hlutdeilni norska konungsvaldsins. Hún kom þessum deilum af stað og þegar búið var að ryðja eina andstæðingi hennar úr vegi, Ásbirningum,  datt næstum allt í dúnalogn og Íslendingar gengu konungsvaldinu á hendur á árunum 1262, 1263 og 1264. Það var því norska konungsvaldið sem olli þessum átökum og batt jafnframt enda á þau. Norsk afskiptasemi af íslenskum stjórnmálum varð þess valdandi að það kerfi sem notað var til að leysa deilur milli höfðingja, að setja þær í gerð, — sem gert hafði Ísland að friðsælasta samfélagi miðalda — brotnaði niður.

Jón Viðar Sigurðsson er prófessor í miðaldasögu við Óslóarháskóla. Rannsóknir hans tengjast einkanlega norskri og íslenskri sögu tímabilsins um 800–1500. Hann hefur meðal annars gefið út: Skandinavia i vikingtiden (2017), Viking Friendship (2017), Norse-Gaelic Contacts in a Viking World ásamt Colman Etchingham, Máire Ní Mhaonaigh og Elizabeth Ashman Rowe (2019) og ritstýrt ásamt Bjørn Poulsen og Helle Vogt Nordic Elites in Transformation, c. 1050–1250. Volume I: Material Resources (2019).

The talk will be delivered in Icelandic. All are welcome to attend.

—o—