The Age of the Sturlungs

002 Sturlunga old

 

 

 

 

 

 

 

 

Fyrirlestraröð Miðaldastofu Háskóla Íslands 2015–2016

Miðaldastofa Háskóla Íslands efnir í vetur til fyrirlestraraðar um Sturlungaöld. Innlendir og erlendir fræðimenn fjalla þar um ýmsa þætti mannlífs á Sturlungaöld (í nokkuð víðum skilningi) frá sjónarhóli ólíkra fræðigreina, svo sem sagnfræði, bókmenntafræði, málfræði og minnisfræði.

Fyrirlestrarnir verða haldnir í stofu 132 í Öskju í Háskóla Íslands (við hlið Norræna hússins; sjá kort af háskólasvæðinukl. 16.30 annan hvern fimmtudag. Oftast eru haldnir tveir fyrirlestrar á hverjum fundi. Hvor fyrirlesari talar í um tuttugu mínútur og svo eru umræður á eftir. Hver fundur tekur um klukkustund.

Dagskráin hefst fimmtudaginn 1. október með fyrirlestri Guðna Th. Jóhannessonar og lýkur með fyrirlestri Guðrúnar Nordal fimmtudaginn 28. apríl.

Aðgangur er ókeypis og allir eru velkomnir á meðan húsrúm leyfir.

—o—

1. október 2015

Guðni Th. Jóhannesson

Sundrung og svik

Sturlungaöldin sem vopn í stjórnmálabaráttu okkar daga

Guðni Th. Jóhannesson
Guðni Th. Jóhannesson

Í erindinu rek ég hvernig menn vitna gjarnan í atburði Sturlungaaldar í pólitískum átökum, máli sínu til stuðnings. Ég horfi einkum til áranna frá lýðveldisstofnun til samtímans og legg áherslu á tvo meginþætti.

Fyrst ræði ég hvernig valdhafar hafa hvatt til samstöðu með því að segja að sundrung landsmanna á Sturlungaöld hafi kallað aldalanga ógæfu yfir þjóðina. Síðan sýni ég hvernig „svikin“ árið 1262 hafa verið rifjuð upp í deilum um utanríkismál og alþjóðasamninga. Þá beini ég sjónum helst að þátttöku Íslands í Atlantshafsbandalaginu, þorskastríðunum, Icesave-deilunni og hugsanlegri aðild að Evrópusambandinu. Með þessum hætti sýni ég hvernig saga Sturlungaaldar hefur verið notuð — eða misnotuð.

Í seinni hluta erindisins ræði ég svo almennt hvernig valdhafar og stjórnmálamenn freistast til þess að beita sögunni sem vopni í sinni pólitísku baráttu. Því næst vek ég máls á því að á okkar dögum vilja fræðimenn ekki lengur taka þátt í slíkum hasar, ólíkt því sem áður var þegar þeir stóðu þétt að baki ráðamönnum í baráttunni fyrir sjálfstæði frá Dönum.

Að lokum velti ég því fyrir mér hvort fræðasamfélagið þurfi ekki að reyna að segja stjórnmálamönnunum betur frá nýjustu rannsóknum á Sturlungaöldinni svo að þeir hætti að sjá hana í úreltu ljósi liðinnar sjálfstæðisbaráttu, misskilinnar sundrungar og meintra svika.

Guðni Th. Jóhannesson er dósent í sagnfræði við Háskóla Íslands, doktor frá Queen Mary, University of London. Guðni rannsakar einkum samtímasögu Íslands og hefur skrifað fjölda greina og bóka á því sviði.

—o—

15. október 2015

Sverrir Jakobsson

Gissur, Hrafn og Brandur

Konungstaka Íslendinga 1262–1264

Sverrir Jakobsson
Sverrir Jakobsson

Þrír Íslendingar voru í lykilhlutverki þegar Íslendingar gengust undir vald Noregskonunga á árunum 1262–1264. Einn var Gissur Þorvaldsson sem fékk bændur í þeim landshlutum sem þegar höfðu gengist undir vald konungs, á Norðurlandi og í Árnesþingi, til þess að fallast á að greiða honum skatt. Það gerði Gissur þó ekki fyrr en honum var orðið það ljóst að konungur myndi styðja aðra höfðingja gegn honum ef hann efndi ekki það sem konungur taldi hann hafa heitið sér. Annar var Hrafn Oddsson sem gerðist konungsfulltrúi árið 1261 án mikils aðdraganda. Ekki einungis var stuðningur konungs við Hrafn til þess að þrýsta á Gissur heldur réð Hrafn úrslitum um það að bændur í Vestfirðingafjórðungi játuðust undir konung. Þriðji maðurinn var Brandur Jónsson biskup sem fékk frændur sína á Austfjörðum til að játast undir konungsvald árin 1263–1264. Í þessu erindi verður hlutur hvers og eins veginn og metinn.

Sverrir Jakobsson er prófessor í miðaldasögu við Háskóla Íslands. Hann hefur m.a. rannsakað heimsmynd og íslenskt þjóðerni, friðarviðleitni kirkjunnar og valdamiðstöðvar, m.a. í Breiðafirði.

—o—

15. október 2015

Gunnar Karlsson

Átti Noregskonungur sök á Sturlungaöld?

Gunnar Karlsson
Gunnar Karlsson

Fram yfir miðja 20. öld héldu fræðimenn að afstaðan til Noregskonungs hefði verið meiri háttar ágreiningsefni meðal Íslendinga 13. aldar og vilji konungs til að auka Íslandi við ríki sitt hefði átt stóran þátt í ófriði Sturlungaaldar. Gegn þessu réðst Sigurðar Líndal árið 1964 í eftirminnilegri grein um utanríkisstefnu Íslendinga á 13. öld. Aðalatriði Sigurðar var að hugmyndin um fullveldi ríkja hefði verið lítt eða ekki kunn á þessum tíma og því ástæðulaust að ætla að Íslendingar hefðu litið á sjálfstæði þjóðarinnar sem keppikefli. Síðan hefur ríkt sterk tilhneiging meðal sagnfræðinga Vesturlanda til að gera sem minnst úr pólitískri þjóðernishyggju á fyrri öldum. Sú tilhneiging hefur náð vel til Íslands, en þetta mál hefur verið lítið rætt og ógert er að kanna skipulega hvaða vitnisburðir eru í heimildum um andúð Íslendinga á að gerast og vera þegnar Noregskonungs og hvað er réttast að lesa úr þeim.

Fyrirlesturinn verður ágripskennd aðför að þessu efni og niðurstaðan væntanlega sú að víst hafi Íslendingar verið tregir að gangast undir konungsvald; það tók Noregskonung meira en 40 ár að fá þá til að taka við sér sem þjóðhöfðingja. En af hverju stafaði tregða Íslendinga? Sjálfstæðisvilja þjóðarinnar? Nísku á skattgreiðslu til konungs? Vantrú á að konungsveldi væri betra stjórnarform en íslenska goða- og smáhöfðingjaveldið? Við þetta verður glímt í fyrirlestrinum og í framhaldi af því leitast við að svara því hvort ásælni konungs hafi átt þátt í að magna ófrið Sturlungaaldar — eða hefta hann og stöðva.

Gunnar Karlsson, prófessor emeritus, er upphaflega íslenskufræðingur með Íslandssögu sem kjörsvið. Hann var lektor í sagnfræði við Háskóla Íslands 1976–80 og prófessor í sömu grein til starfsloka 2009. Hann hefur skrifað margt um Íslandssögu, meðal annars íslenska miðaldasögu, og vinnur nú að bók um landnám Íslands.

—o—

29. október 2015

Helgi Þorláksson

Friður, völd og vandræði

Helgi Þorláksson
Helgi Þorláksson

Fyrirlesari fer yfir kenningar og tilgátur sem settar hafa verið fram um valdasamþjöppun á þjóðveldistíma, hvenær hún muni hafa byrjað og náð hámarki. Hann fer líka orðum um ástæður sem dregnar hafa verið fram fyrir þessari þróun og til hvers hún leiddi að mati fræðimanna. Meginatriðið er að kynna eigin kenningu um þetta en hún snýst um að ósk eftir friði og hugmynd um að „sterkir menn“ gætu tryggt hann hafi átt hljómgrunn í kringum 1200. Dæmi um þetta verða rakin og grafist fyrir um ástæður, ekki síst áhrif kirkjunnar og vandræði sem tengdust fæðardeilum. Loks verður fjallað um það af hverju valdasamþjöppun leiddi ekki til aukins friðar heldur þvert á móti.

Helgi Þorláksson er prófessor emeritus í sagnfræði við Sagnfræði- og heimspekideild Háskóla Íslands.

—o—

29. október 2015

Jan Alexander van Nahl

Mun engi maðr öðrum þyrma

Thoughts on Universality and Contingency in Heimskringla

Jan Alexander van Nahl
Jan Alexander van Nahl

One of the most significant concepts in Gylfaginning and Ynglinga saga is the idea of a kraptr fylgjandi, distinguishing successful rulers in a mythical era. In the context of the intensive use of kraptr in Old Norse theological treatises, mostly serving as a translation of Latin virtus, the depiction of these early rulers can be read as contributing to a Christian theology of history. This idea of a divine predetermination allows for the establishment of a meaningful history of mankind, but also restrains people from questioning the world order.

In Heimskringla, this order is closely linked to kingship, and the numerous genealogies are a hint towards the idea of a continuity of history, too. However, quite often, this royal descent is displayed both as stirring heavy quarrel among relatives and confederates and as being affected by mere coincidence. In these cases, the idea of a meaningful continuity of history competes against more rational explanations of historical development, centring on disruption. In other words: history is experienced as contingent, and its alleged unity and universal meaning thus have to prove itself over and over again.

Given Heimskringla’s composition during Sturlungaöld, this fundamental questioning of traditional orders can be interpreted as a new stage in Northern historiography, arising from and contributing to societal and political agitation in 13th-century Iceland. The close reading of important passages in Heimskringla sheds further light on this thesis which contributes to a new understanding of possible intentions behind the Kings’ sagas.

Jan Alexander van Nahl studied in Bonn and Uppsala, and holds a Dr. phil. from the university of Munich. He is currently a postdoctoral fellow at the University of Iceland and the Árni Magnússon Institute for Icelandic Studies. Jan has published on Old Norse literature, History of Science, Theology, Modern Literature, and the Digital Humanities.

—o—

12. nóvember 2015

Hjalti Hugason

Guðmundur Arason — áhrifavaldur í aðdraganda Sturlungaaldar

Hjalti Hugason
Hjalti Hugason

Guðmundur Arason Hólabiskup var umdeildur kirkjuleiðtogi og hefur löngum verið gagnrýndur í söguritun og sagnfræðirannsóknum. Guðmundur var mikilvægur áhrifavaldur í kirkjunni og samfélaginu við upphaf Sturlungaaldar.

Guðmundur virðist snemma hafa orðið andlegur leiðtogi fjölda fólks og áhrifamaður í kirkjunni víða um land en ekki aðeins í Hólabiskupsdæmi. Hlutverk hans í þessu efni er athyglisvert miðað við veika stöðu hans í upphafi prestsskapar en hann var prestur í rýrum þingum og mætti jafnvel andstöðu biskups. Sem heimilisprestur eins af helstu höfðingjum Norðlendinga styrktist staða hans og varð hann tvímælalaust áhrifamesti trúarleiðtogi landsins þegar fyrir biskupskjör sitt.

Biskupskjör Guðmundar braut í bága við ríkjandi hefð og fljótlega komst hann í mikla andstöðu við helstu stuðningsmenn sína. Stóðu deilur hans og höfðingja út biskupstíð hans. Þetta jók á þá ólgu sem einkenndi Sturlungaöldina og hefur því verið haldið fram að Guðmundur beri öðrum fremur ábyrgð á þeim atburðum sem urðu við lok hennar er landið komst undir erlend yfirráð. Óhætt er því að fullyrða að Guðmundur hafi verið einn af helstu áhrifavöldunum í íslensku samfélagi í aðdraganda og við upphaf Sturlungaldar.

Í fyrirlestrinum verður leitast við að gera grein fyrir helstu áhrifum Guðmundar á samtíð sína og skýra stefnumál hans, atferli og háttarlag. Beitt verður kirkjusögulegri aðferð, sem og persónusögulegri nálgun þar sem tekið er tillit til uppeldis og þroskaferlis Guðmundar. Leitast verður við að sýna fram á að persónuleg, traumatísk reynsla hans kunni að hafa valdið miklu um það „ofstæki“ sem honum hefur verið ætlað.

Hjalti Hugason lauk doktorsprófi í almennri og norrænni kirkjusögu frá Uppsalaháskóla 1983. Doktorsritgerð hans fjallaði um Bessastaðaskóla og íslensku prestastéttina 1805–1846. Hjalti er prófessor í kirkjusögu við Guðfræði- og trúarbragðafræðideild Háskóla Íslands. Hann var ritstjóri Kristni á Íslandi (Rvík 2000) og aðalhöfundur fyrsta bindis um kristnitökuna og upphaf kristni.

—o—

12. nóvember 2015

Árni Hjartarson

Guðmundur góði Arason og brunnar hans

Árni Hjartarson
Árni Hjartarson

Guðmundur biskup Arason hefur verið nefndur þjóðardýrlingur Íslendinga. Til eru af honum fleiri kraftaverkasögur en nokkrum öðrum og gildir þá einu hvort um er að ræða fornritin eða þjóðsögur skráðar á seinni öldum. Örnefni tengd honum eru til um allt land jafnt á brunnum, lindum, laugum, lækjum, steinum, vöðum, hlíðum eða hálsum. Fyrirlesturinn fjallar um Gvendarbrunna og aðrar lindir og laugar, læki og vötn sem Guðmundur góði vígði eða á að hafa vígt. Alls er vitað um hátt í 230 Gvendarbrunna á landinu. Landfræðileg dreifing þeirra verður skoðuð og vatnafræðilegir þættir, s.s. uppkomustaðir, rennsli, hiti, nafngiftir o.fl. Einnig verður fjallað um þær kröfur sem menn gerðu til brunna varðandi vatnsgæði, aðkomu og aðra umhverfisþætti. Rætt verður um hvort Guðmundur hafi í raun vígt alla þessa brunna eða hvort þeim hafi haldið áfram að fjölga eftir hans dag. Guðmundur ferðaðist vítt og breitt um landið á langri og stormasamri ævi sinni ýmist sem vinsæll höfðingi og aufúsugestur hvar sem hann fór eða sem hrakningsmaður á flótta undan óvinum sínum og hvergi velkominn. En hvernig sem á stóð var hann ólatur við vatnsvígslur og yfirsöngva. Sýnd verða kort með farleiðum Guðmundar um landið og hvernig Gvendarbrunnar virðast víða varða þær leiðir. Að lokum verður getið um sögur og sagnir sem tengjast brunnunum og átrúnað sem enn helst á lækningamætti vatnsins.

Árni Hjartarson er jarðfræðingur með doktorspróf frá Hafnarháskóla. Hann sinnir kortagerð og rannsóknum á jarðhita og grunnvatni hjá Íslenskum orkurannsóknum. Hann er virkur í hagsmunasamtökum náttúrufræðinga og er formaður Hins íslenska náttúrufræðifélags. Hann hefur ritað bækur og greinar um fræði sín og fléttar oft saman jarðfræðirannsóknum og sagnfræði.

—o—

26. nóvember 2015

Guðlaugur Rúnar Guðmundsson

Fræðsla og skólastarf á Íslandi á Sturlungaöld

Gudlaugur Runar Gudmundsson
Guðlaugur Rúnar Guðmundsson

Fræðsla á Íslandi fyrir árið þúsund snerist mest um þá þekkingu sem þurfti að vera fyrir hendi til að halda uppi lagaríki. Fræðslustarfið var að mestu munnlegt og gengu embætti, sem lagakunnáttu þurfti til að sinna, oftast í arf til niðja goðanna sem sáu um að viðhalda og stjórna regluveldinu. Með innleiðingu hinnar karólínsku endurreisnar og menningarbyltingar kaþólsku kirkjunnar á Íslandi á 11. öld fékk íslensk höfðingjastétt einstakt tækifæri til að tileinka sér fræðslukerfi sem miðaði að því treysta vald og stöðu þeirra höfðingja sem skyldu taka við af goðunum. Fræðslukerfi kirkjunnar átti sér rætur í hámenningu Rómverja og Grikkja og kippti þeim höfðingjasonum, sem fyrstir urðu þeirrar náðar aðnjótandi að læra til prests, inn í mennta- og fræðsluheim kaþólsku kirkjunnar.

Lénskt furstaveldi miðalda, byggt á kristnum gildum, átti sér blómaskeið á 13. öld í Norður-Evrópu. Svo virðist sem þessi menningarbylting hafi verið í mestum blóma hér á landi á Sturlungaöld þegar valdabarátta höfðingjanna stóð sem hæst. Fjölbreytni var mikil í fræðslu- og skólastarfi á Sturlungaöld. Einkaskólar blómstruðu og flestir þeirra höfðu það hlutverk að búa menn undir prestsnám sem fór aðallega fram í klaustrum og dómskólum. Má einkum nefna einkaskólana í Haukadal, Odda, Reykholti og Stafholti. Sambærilegir skólar í Norður-Evrópu á 13. öld voru nefndir hirðskólar. Vígslustig, tíðasöngur og verkleg fræðsla mótuðu námið í klausturskólunum. Í dómskólunum í Skálholti og á Hólum fór fram hið hefðbundna nám til prests og fræðslukerfi hinn sjö frjálsu lista var ráðandi.

Guðlaugur Rúnar Guðmundsson er sjálfstætt starfandi sagnfræðingur. Rannsóknir hans lúta einkum að skólasögu fyrri alda á Íslandi og nafnfræði höfuðborgarsvæðisins.

—o—

26. nóvember 2015

Helgi Skúli Kjartansson

Hver gekk í skóla á Sturlungaöld?

Helgi Skuli Kjartansson
Helgi Skúli Kjartansson

Á Sturlungaöld sjálfri segja heimildir fátt um skóla á Íslandi, þó einum bregði fyrir í Stafholti. Meginheimildir um skólasögu miðalda eru biskupasögur, einkum þó um 12. öld og aftur kringum 1300, og má hugsa sér þróunarlínu þar á milli. En varast ber að lesa of mikið í frásagnir þeirra, hvað þá að telja það sjálfgefið að biskupsstólum hafi alla tíð fylgt prestaskóli (sbr meint afmælisár stólskólanna 2006). Hin fjölmenna prestastétt miðalda hefur að miklu leyti aflað sér menntunar í læri hjá starfandi prestum, í eins konar „meistarakerfi“ sem hefur verið miðaldamönnum nærtækt. Skólahald biskupa með launuðum kennurum hefur verið stopult fremur en samfellt, stefnt að því að tryggja biskupi aðgang að fámennum kjarna vel menntaðra klerka. Menntun bókhneigðra pilta — og hugsanlega stúlkna — af vel megandi heimilum hefur líka að takmörkuðu leyti fengið form sem kalla mætti skólahald. Jafnvel eftir siðaskipti, þegar prestaskólahald verður sjálfsagt og varanlegt, má sjá sveiflur í jafnvæginu milli heimamenntunar og skólagöngu sem gefa vísbendingu um gang mála á miðöldum.

Helgi Skúli Kjartansson er cand.mag. í sagnfræði frá Háskóla Íslands, nú prófessor (í hlutastarfi) við Menntavísindasvið Háskóla Íslands og doktorsnemi í íslenskum bókmenntum (fornri bragfræði) við sama skóla. Rannsóknir hans tengjast ýmsum sviðum Íslandssögu og íslenskra fræða, m.a. Grágás og fleiri fornmálstextum.

—o—

10. desember 2015

Guðrún Harðardóttir

Stofur á Sturlungaöld

Stofur og notkun þeirra út frá vitnisburði Sturlungu og biskupasagna

Gudrun Hardardottir
Guðrún Harðardóttir

Í frásögnum eins og í Sturlungusafninu og biskupasögum er bakgrunnurinn jafnáhugaverður og framvinda sagnanna. Þar kemur fram mikilvæg innsýn í híbýli og lifnaðarhætti samtímans.

Í þessum fyrirlestri er ætlunin að skoða sérstaklega hvernig stofur birtast í frásögnum Sturlungu og biskupasagna. Vegna eðlis miðilsins eru einkum möguleikar á að skoða notkun þessara rýma en minna er um upplýsingar um byggingarlag. Í sumum tilvikum má þó ráða einhverjar upplýsingar um innréttingar, svo sem í frásögninni um Flugumýrarbrennu. Þar sem eitthvað má ráða af sögunum um byggingarlag verður það dregið fram sérstaklega.

Athugaðar verða mismunandi gerðir stofu, svo sem litlu stofur, biskupsstofur, ábótastofur og almannastofur, svo einhver dæmi séu nefnd. Meginmarkmið fyrirlestursins verður einkum að draga stofugerðirnar fram og kynna fjölbreytnina. Einnig að greina hugsanlegan notkunarmun eftir því um hvers konar stofu er að ræða. Notkun höfðingja á litlu stofum verður skoðuð sérstaklega og kannað verður á hvers konar bæjum slíkar stofur eru nefndar og hvað fer fram í þeim.

Reynt verður eftir föngum að bera þetta íslenska efni saman við það sem þekkt er um stofur í Noregi og notkun þeirra. M.a. verður horft til veislusiða norsku hirðarinnar í því efni. Einnig verða borin saman íslensku og norsku stofuhugtökin.

Guðrún Harðardóttir er sérfræðingur við húsasafn Þjóðminjasafns Íslands. Rannsóknir hennar lúta einkum að kirkjubyggingum miðalda og ýmsum öðrum þáttum byggingararfsins.

—o—

10. desember 2015

Guðvarður Már Gunnlaugsson

Handrit og skrift á Sturlungaöld

GMG
Guðvarður Már Gunnlaugsson

Fyrsta málfræðiritgerðin er talin vera samin um miðja 12. öld. Höfundur hennar nefnir lög, áttvísi þýðingar helgar og þau hin spaklegu fræði, er Ari Þorgilsson hafi á bækur sett af skynsamlegu viti, sem dæmi um bókmenntir sem voru til á hans dögum.

Í Hungurvöku og Jóns sögu helga eru nefndir nokkrir góðir ritarar svo sem Þorvarður knappur, Klængur biskup og Þorgeir prestur á Hólum. Í Heimskringlu er sagt frá því að Eiríkur Oddsson hafi ritið bók þá er Hryggjarstykki heitir og í Sturlungu segir frá því að Ingimundur Þorgeirsson prestur hafi þurrkað bækur sínar eftir að hafa misst bókakistu sína fyrir borð. Í máldögum eru bækur oft taldar upp meðal eigna kirkna en hver kirkja varð að eiga messubækur.

Í þessum fyrirlestri verður fjallað um heimildir um bókagerð, bréfaskriftir og bókmenntaiðkun á Íslandi frá 11. öld fram til loka Sturlungaaldar. Þessi menningarstarfsemi verður sett í samhengi við varðveitt íslensk handrit frá 12. og 13. öld — jafnt á norrænu sem latínu — fjölda þeirra og hvernig þau skiptast á milli bókmenntagreina. Sérstök áhersla verður lögð á hlutverk kirkjunnar í bókagerð.

Guðvarður Már Gunnlaugsson er handritafræðingur og rannsóknardósent við Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum. Rannsóknir hans lúta einkum að íslenskum handritum, aldri þeirra og uppruna, þróun skrifleturs á Íslandi og greiningu rithanda.

—o—

7. janúar 2016

Árni Einarsson

Lesið á milli lína

Táknmál í ritum Sturlungaaldar

Árni Einarsson
Árni Einarsson

Lærðir rithöfundar á miðöldum notuðu staðlað táknmál til að leiða lesendur á æðri vitsmunastigu, venjulega til að rækta trú þeirra. Lærðir menn á Íslandi kunnu táknmálið og í ýmsum ritum Sturlungaaldar, m.a. í Sturlungu sjálfri, má greina markvissa notkun táknmynda í þessum tilgangi. Með greiningu á notkun táknmáls í fornum texta fæst innsýn í hugarheim höfundarins og meta má heimildagildi textans. Í fornritunum birtast táknhlaðnir textar gjarnan sem frekar stuttir kaflar þar sem hægt er á atburðarásinni svo að tóm gefst til að lýsa þeim smáatriðum sem táknmálið krefst. Spyrja má um samhengi táknhlöðnu kaflanna við sögurnar sem innihalda þá, en það atriði hefur enn ekki verið krufið til mergjar. Í fyrirlestrinum verður stutt kynning á einkennum og uppruna táknmáls miðalda og þeirri heimsmynd sem það byggðist á og dæmi tekin úr íslenskum ritum, m.a. Hrafns sögu Sveinbjarnarsonar og Ólafs sögu helga.

Árni Einarsson er dýravistfræðingur, forstöðumaður Náttúrurannsóknastöðvarinnar við Mývatn og gestaprófessor við Líf- og umhverfisvísindadeild Háskóla Íslands. Hann lauk doktorsprófi frá Aberdeenháskóla í Skotlandi 1975 með rannsóknum á árlegu landnámi fugla á varpstöðvum. Árni hefur unnið að ýmsum rannsóknum á vistfræði Mývatns. Einnig hefur hann stundað rannsóknir á sviði fornvistfræði og tengdum greinum, m.a. á fornaldargarðlögum og öðrum minjum í Þingeyjarsýslum og túlkun fornrita.

—o—

Kristín Bjarnadóttir

Ritgerðin Algorismus

Texti um indóarabíska talnaritun í Hauksbók

Fimmtudaginn 7. janúar 2016 kl. 16.30
Öskju 132

Kristín Bjarnadóttir
Kristín Bjarnadóttir

Fornan texta, Algorismus, er að finna í nokkrum íslenskum handritum. Textinn fjallar um indóarabíska talnaritun. Kunnast handritanna er Hauksbók. Talið er að sá hluti Hauksbókar sem Algorismus er í hafi verið ritaður á tímabilinu 1302–1310. Algorismus er þýðing á latnesku skólaljóði, Carmen de Algorismo, eftir Alexander de Villa Dei, franskan námsefnishöfund sem uppi var um 1200.

Í Algorismus er gerð grein fyrir talnaritun með sætiskerfi þar sem grunntalan er tíu og er sú list eignuð Indverjum. Þar er umfjöllun um jafnar tölur og oddatölur og alls sjö reikniaðgerðir. Þótt meginmál Algorismuss sé næsta orðrétt þýðing á Carmen de Algorismo er nokkuð um að bætt hafi verið talnadæmum til skýringar inn í íslenska textann, sérstaklega framan af, og einstaka hlutar Carmen hafa rýrnað í þýðingunni. Lokakafla Algorismuss er ekki að finna í fyrirmyndinni. Þar eru hugleiðingar um tölugildi jarðar og elds, loft og vatns og hlutföllin á milli þeirra. Talið er að þessi kafli sé eini vitnisburðurinn um þekkingu á Tímaíos eftir Platon á Norðurlöndum.

Ræddar verða reikniaðferðir þær sem settar eru fram í Algorismus. Á meðal þeirra er dráttur teningsrótar. Hann er ekki að finna í latneskum þýðingum á arabískum ritum og er teningsrót talin hafa komið fyrst fram á latínu í Carmen de Algorismo. Enn fremur verða raktar þær rannsóknir sem gerðar hafa verið á uppruna texta Algorismuss og rædd tilgáta um að ritið hafi verið þýtt og skráð í Viðeyjarklaustri um eða fyrir miðja 13. öld.

Kristín Bjarnadóttir er prófessor emeritus í stærðfræðimenntun við Menntavísindasvið Háskóla Íslands. Hún lauk BA-prófi í eðlisfræði og stærðfræði frá Háskóla Íslands árið 1968, MSc-prófi frá Háskólanum í Oregon árið 1983 og PhD-prófi í stærðfræðimenntun á sviði sögu stærðfræðimenntunar við Háskólann í Hróarskeldu árið 2006.  Kristín hefur kennt stærðfræði og eðlisfræði á unglingastigi grunnskóla og við Fjölbrautaskólann í Garðabæ og stærðfræði og kennslufræði stærðfræði við Menntavísindasvið.

—o—

21. janúar 2016

Kristján Árnason

Önnur málfræðiritgerðin, Snorri og Ólafur hvítaskáld

Kristján Árnason
Kristján Árnason

Sturlungaöldin var tími afreka í íslenskri málfræði og skáldskaparfræði, þótt ekki beri mikið á því í sagnfræðilegum frásögnum þess tíma. Þrjú lykilrit, önnur málfræðiritgerðin, sú þriðja og að sjálfsögðu Snorra-Edda eru talin frá 13. öld. Eldri verk voru meðal annars Háttalykill og fyrsta málfræðiritgerðin. Að vissu leyti var „tungumálavandi“ Íslendinga gagnvart latínumenningu svipaður og sá sem Dante fæst við á Ítalíu í bók sinni Um kveðskap á þjóðtungu (De vulgari eloquentia), nema hvað norræn skáldmenning stóð hér á gömlum merg. Glöggt má greina, bæði hjá Snorra og Ólafi hvítaskáldi, að viðamikill lærdómur hefur safnast fyrir um kveðskaparform (hætti) og skáldamál. Lýsingar Háttatals á bragformum sýna að norrænir menn nálgast efnið með allt öðrum aðferðum og hugtökum en latínumenn og Grikkir og skáldamálið vísar mjög til norræns goðsagnaefnis. Ólafur bætir við erlendum lærdómi, en er íhaldssamur hvað varðar rímvenjur (vill ógjarna ríma gamalt kringt ǿ á móti ókringdu æ). Og bæði hjá Snorra og Ólafi gætir nokkurs metnaðar fyrir hönd hins þjóðlega menningararfs. Önnur málfræðiritgerðin er dálítið sér á parti og má kalla „hreina“ málfræði, jafnvel heimspeki, sem sækir innblástur í tónfræði og tónlist án beinna erlendra eða innlendra fyrirmynda.

Í heild má segja að það sæti furðu hve ólík þessi þrjú rit eru og hversu margvísleg sjónarmið koma þar fram. Í fyrirlestrinum mun ég stikla á stóru um greiningaraðferðir og hugmyndafræði ritanna og reyna að skilja milli þess sem rekja má til norræns arfs, erlendra áhrifa, eða til höfundanna sjálfra sem skapandi hugsuða.

Kristján Árnason er prófessor í íslenskri málfræði við Háskóla Íslands. Hann hefur fengist við rannsóknir á hljóðafari íslensku og færeysku í sögulegu og félagslegu ljósi. Einnig hefur hann sinnt bragfræði og skáldskaparfræði fornmálsins og fjallað um málstýringu og málrækt.

—o—

21. janúar 2016

Jón Axel Harðarson

Dónat og Priscían á Íslandi

Þriðja málfræðiritgerðin

Jon Axel Hardarson 02
Jón Axel Harðarson

Þriðja málfræðiritgerðin svokallaða er málfræði og mælskufræði sem byggist að mestu á ritum hinna kunnu málfræðinga Dónats og Priscíans en þeir eru afar mikilvægir í tengslum við varðveizlu og miðlun klassískrar menntunar allt frá fornöld til nýaldar og verðskulda heitið „skólameistarar Evrópu“. Í fyrirlestrinum verður athugað hvernig höfundurinn, Ólafur hvítaskáld Þórðarson (uppi frá um 1210 til 1259), vinnur úr hinum erlendu fræðum og heimfærir á innlent efni. Greinilegt er að sumt í texta Ólafs er ekki tekið beint upp úr áðurnefndum ritum heldur byggist fremur á einhverjum hinna fjölmörgu skýringarrita við texta Dónats og Priscíans sem til voru á miðöldum. Þá hefur Ólafur bætt ýmsu við frá eigin brjósti. Reynt verður að varpa ljósi á hvaða menntamenn erlendir eða menntasetur hafi helzt haft áhrif á Ólaf og reyndar fleiri íslenzka málfræðinga á 12. og 13. öld. Enn fremur verður ritið borið saman við skáldskaparfræði Snorra Sturlusonar, föðurbróður Ólafs. Í því sambandi verður m.a. vikið að hugmyndum þeirra frænda um upphaf norræns kveðskapar.

Jón Axel Harðarson, prófessor í íslenzkri málfræði við Háskóla Íslands, er með doktorspróf í indóevrópskri samanburðarmálfræði (með latínu og norræn fræði sem aukagreinar) frá Albert-Ludwigs-háskóla í Freiburg. Hann hefur verið fastráðinn kennari í íslenzkri málfræði við Háskóla Íslands frá 1999. Rannsóknir hans lúta einkum að sögulegum málvísindum og íslenzkri, germanskri og indóevrópskri málfræði.

—o—

4. febrúar 2016

Guðrún Þórhallsdóttir

Bragur og breytingar

Kolbeinn og himnasmiðurinn

Guðrún Þórhallsdóttir
Guðrún Þórhallsdóttir

Í fyrirlestrinum verður fjallað um gildi kveðskapar sem heimildar um íslenskt mál að fornu og málbreytingar á fyrstu öldum ritaldar á Íslandi. Tekið verður dæmi af skáldinu Kolbeini Tumasyni og kveðskap hans, ekki síst sálminum Heyr, himna smiður, kvæði sem sker sig úr bæði efnisins vegna og bragarháttarins. Þessi elsti sálmur Norðurlanda er ef til vill sá forníslenski texti sem oftast er fluttur um þessar mundir, eftir að lag Þorkels Sigurbjörnssonar varð þekkt og vinsælt, en segja má að lag Þorkels miðist fremur við framburð nútímamáls en brageyra Kolbeins.

Guðrún Þórhallsdóttir er dósent í íslenskri málfræði við Hugvísindasvið Háskóla Íslands. Hún lauk doktorsprófi í almennum málvísindum frá Cornell-háskóla árið 1993 með indóevrópska og germanska samanburðarmálfræði sem sérgrein. Aðalrannsóknarsvið hennar er hljóðsaga og beygingarsaga íslensku og forsaga íslenskrar tungu.

—o—

4. febrúar 2016

Robert Kristof Paulsen

Sturlungaöld — málþróunaröld

Robert Paulsen 2
Robert Kristof Paulsen

The age of the Sturlungs was a time of social turmoil and political change. But not only Icelandic society took a path that would be followed for centuries to come: Also on the linguistic level, routes were taken that shape the Icelandic language to the present day.

Many of the specifically Icelandic sound changes—from the unrounding of front vowels to the lenition of stops after unstressed vowels—took place or were initiated in the course of the 13th century. Even though these innovations often only become fully apparent in manuscript sources from a somewhat later time in the 14th century, we can assume their earlier presence for the spoken language due to conservative orthography lagging behind the spoken idiom.

In my presentation, I will discuss these phonological developments and show how they continue earlier trends and trigger later ones. Even though the sound changes in 13th-century Icelandic are expressions of trends found in other Old Norse dialects as well, the course they took in Iceland is unique. It is these linguistic innovations of the Sturlungaöld that made Icelandic Old Norse truly Icelandic—as similar as the two might be.

With the Sturlungaöld being a period of social and political conflict, one must ask the question whether the fast-forward phonological development is connected to this. To put it differently: does social instability trigger sound change?

Robert Kristof Paulsen has a master’s degree in Indo-European studies and North-Germanic philology from the University of Freiburg (Breisgau). He is currently a Ph.D. candidate at the University of Bergen. His main research interests are Old Norse historical linguistics (with a focus on graphematics and phonology) as well as Old Norse digital philology.

—o—

18. febrúar 2016

Ármann Jakobsson

Ferð án fyrirheits

Upphaf Íslendingasagnaritunar og endalok þjóðveldisins

Ármann Jakobsson
Ármann Jakobsson

Það hefur verið haft fyrir satt undanfarna áratugi að Sturlungaöldin sé jafnframt sagnaritunaröld og sem kunnugt er lýsti Sigurður Nordal þróun Íslendingasagna­ritunar í fimm þrepum þar sem 13. öldin var í aðalhlutverki en aðeins ódæmi­gerðar sögur ritaðar eftir 1300. En hversu öruggar eru þær niðurstöður og hvaða máli skiptir fyrir hugmyndir okkar um Íslendingasögur hvort drjúgur hluti þeirra var ritaður í þjóðveldi eða í konungsríki? Í erindinu verður farið yfir þessa umræðu frá Sigurði Nordal til okkar daga og sjónum sérstaklega beint að elstu Íslendingasögunum og hugmyndum um uppruna þeirra.
Ármann Jakobsson lauk doktorsprófi í íslenskum bókmenntum frá Háskóla Íslands árið 2003. Hann er nú prófessor í íslenskum bókmenntum fyrri alda við Háskóla Íslands. Meðal nýlegra bóka eftir hann eru Nine Saga Studies: The Critical Interpretation of the Icelandic Sagas (2013), Íslendingaþættir: saga hugmyndar (2014) og A Sense of Belonging: Morkinskinna and the Icelandic Identity c. 1220 (2014).

—o—

18. febrúar 2016

Aðalheiður Guðmundsdóttir

Um sagnamenningu, miðlun og frumskeið fornaldarsagna

Aðalheiður Guðmundsdóttir
Aðalheiður Guðmundsdóttir

Í fyrirlestrinum verður varðveisla fornaldarsagnaefnis á munnlegu stigi skoðuð og gerð verður grein fyrir elstu heimildum um sagnaskemmtun þar sem fornaldarsögur eða skyldar sögur ber á góma. Áhersla verður þó einkum lögð á frásögn Þorgils sögu og Hafliða af þeim Hrólfi frá Skálmarnesi og Ingimundi presti Einarssyni, en báðir skemmtu þeir með sögum og kvæðum í hinu fræga Reykjahólabrúðkaupi árið 1119. Í tengslum við þetta verður rætt um hugtakið „söguminni“, sem í samhengi þess efniviðar sem hér um ræðir má segja að feli í sér tvennt: sögulegar minningar og „sameiginlegt“ minni, sem ber þá vott um almenna þekkingu á efniviði sagnanna og sameiginlegri heimsmynd þeirra.

Í framhaldinu verður rætt um eðli fornaldarsagnaefnis og hlutverk þess í samfélaginu. Að sumu leyti einkennist það af endurliti og er þar með eins konar arfur sem rekja má til fyrstu alda Íslandsbyggðar. Með tímanum verður efniviðurinn svo að skriflegum sögum, bókmenntum, sem færa fólkinu minningar úr fortíðinni og um fortíðina, og tengingar aftur í tímann. Á sama tíma tilheyra sögurnar þó einnig sjálfsmyndarsköpun hins unga samfélags, og birtingarmyndir þeirra á hverjum tíma fyrir sig eru því ekki eingöngu háðar fortíðinni heldur ekki síður hlutverki þeirra í samtímanum.

Að lokum verður litið til skráningar sagnanna og á hvern hátt sagnaritarar fornaldarsagna skera sig frá þeim sagnariturum sem leituðust við að skrá sögulegan fróðleik eða „sagnfræði“. Hvorir tveggju voru lærðir menn en viðhorf þeirra til sagnaefnisins og hinna baklægu munnmælasagna var engu að síður með ólíku sniði.

Aðalheiður Guðmundsdóttir er dósent í íslenskum bókmenntum fyrri alda við Háskóla Íslands. Í rannsóknum sínum hefur hún einkum fengist við miðaldabókmenntir með áherslu á fornaldarsögur Norðurlanda og tengingu þeirra við samevrópska sagnamenningu, munnlega hefð, rímur og fornminjar. Hún var áður dósent í þjóðfræði við sama háskóla.

—o—

3. mars 2016

Torfi H. Tulinius

Áföll, minningar og skáldskapur

Um samband ofbeldis og sagnaritunar á Sturlungaöld

Torfi H Tulinius 2
Torfi H. Tulinius

Í erindi mínu mun ég leitast við að varpa ljósi á það hvernig stormasöm samtíð höfunda Íslendingasagna hafði áhrif á sagnaritun þeirra. Fræðileg hugtök verða sótt til minnis- og áfallafræða, ekki síst þeirra sem vinna úr arfleifð Freuds. Dæmin verða meðal annars tekin úr Brennu-Njáls sögu og Íslendingasögu Sturlu Þórðarsonar.

 

Torfi H. Tulinius er prófessor í íslenskum miðaldafræðum við Íslensku- og menningardeild Háskóla Íslands. Í rannsóknum sínum hefur Torfi fengist við franskar miðalda- og nútímabókmenntir, en einkum þó við íslenskar miðaldabókmenntir, sem hann leitast við að skilja út frá því samfélagi sem ól þær af sér og með aðstoð ýmiss konar fræðikenninga. Hann hefur ritað tvær bækur um efnið, aðra um fornaldarsögur Norðurlanda (The Matter of the North. The Rise of Literary Fiction in Thirteenty Century Iceland, 2002) og hina um Egils sögu (Skáldið í skriftinni. Snorri Sturluson og Egils saga, 2004).

—o—

3. mars 2016

Jürg Glauser

Sturlunga öld — Sturlunga saga

The memory of space and the space of memory

Jürg Glauser
Jürg Glauser

In chapter 16 of Íslendinga saga, it is told that Snorri Sturluson intends to relocate from Borg to Reykholt because he “felldi mikinn hug til staðarins” (Reykholt). A man with the name of Egill Halldórsson, one of Snorri’s household, has a dream in which Egill Skalla-Grímsson appears and expresses his dislike to this intention of Snorri’s: “þat gerir hann illa”. Egill Skalla-Grímsson, as a draummaðr, then tells in a stanza how he himself in his time had gained land with his own weapons: “skarpr brandr fekk mér landa” (Jón Jóhannesson, Magnús Finnbogason, Kristján Eldjárn, eds.: Sturlunga saga I, 1946, pp. 241-42).

The present lecture proposes to look at instances of such negotations of power, agression, possession of land in the Sturlunga saga-compilation. The aim is to read these stories with the help of recent memory, spatial, and media studies in an attempt to show how power is characterized by its space-consuming, so to speak ‘topophageous’ nature. It can be shown how, as a whole, Sturlunga saga constructs the Iceland of the Age of the Sturlungs as a specific mnemotope, with parallels but also opposed to the different mnemotopes which are depicted in other medieval Icelandic texts such as Íslendingabók, Landnámabók, the Íslendingasögur, or the konungasögur. Thus, the proposed lecture will also investigate a number of Icelandic memory places and situate these in what might be called a memory theory of Sturlunga saga.

Jürg Glauser studied at Zurich, Uppsala, Oslo and Copenhagen and has been professor of Scandinavian Studies at Basel and Zurich since 1994. His main research and teaching areas are the literature of the Scandinavian Middle Ages and the early modern period, Icelandic literature, historiography of literature, mediality and memory studies.

—o—

17. mars 2016

Marion Poilvez

Skógarmaðr minn

Function and dynamics of outlawry in the Age of the Sturlungs

Marion Poilvez
Marion Poilvez

During the saga-age, Icelandic outlaws tend to be depicted as beasts, hunted down to death by farmers and chieftains trying to get rid of the problem which came to their district. The outlaw leads a rather lonely life, looking for food, shelter, at best obtaining temporary help from family members or setting up a small community in the wilderness. Only rarely, they may receive protection from a chieftain. By contrast, outlaws are often mentioned in Sturlunga saga as subject to the authority of powerful chieftains who act as patrons. They appear as less menacing figures, being instead an integral part of existing power structures. They are no more a lingering threat within a district, but a hired force meant to play a role in the territorial struggles of the 13th century.

In this paper I intend to analyze the changes in the depiction of outlawry from the Saga Age to the Sturlung Age. In theory, the structure of the penalty did not change in the second era, though its function within the dynamics of Icelandic society may have. I will question whether this depiction is connected to an actual historical change, or rather to differences of genre, interest and literary style between the Íslendingasögur and Sturlunga saga. Finally, I aim to discuss how outlaws could have participated in the construction of the territorial power and aristocratic aspirations of the Sturlung age chieftains, and to which extent this transformation turned the institution of full outlawry obsolete.

Marion Poilvez studied at the University of Western Brittany (France) and at the University of Iceland. She is currently writing her Ph.D dissertation at the University of Iceland where she investigates the role of outlawry in medieval Icelandic society, its evolution and the literary meaning of stories about fugitives.

—o—

17. mars 2016

Sveinbjörn Rafnsson

Um grið og griðastaði á Sturlungaöld

Sveinbjörn Rafnsson
Sveinbjörn Rafnsson

Ein elsta löggjöf um griðastaði á Íslandi virðist vera um fjörbaugsgarð. Hún er, eins og hún er varðveitt, varla eldri en frá 11. öld enda ber hún glögg merki um áhrif frá Móselögum, eins og bent hefur verið á. Gamall siður virðist jafnframt hafa verið að mæla fyrir griðum og setja grið sem glöggt sést til í Sturlungu. Í átökum höfðingja á Sturlungaöld má sjá dæmi um fjörbaugssektir, en kirkjugrið virðast vera það form griða og griðastaða sem stöðugt sækir á þótt ekki sé kveðið á um þau í Kristinrétti forna. Fjörbaugsgarður hverfur úr íslenskum lögum með lögbókunum á síðari hluta 13. aldar.

Sveinbjörn Rafnsson er doktor í sagnfræði frá háskólanum í Lundi. Hann er prófessor emeritus frá Háskóla Íslands þar sem hann kenndi um árabil. Rannsóknir hans hafa að talsverðu leyti verið í íslenskri miðaldasögu, meðal annars um Landnámabók, íslenskar fornsögur og forn lög.

—o—

31. mars 2016

Kolfinna Jónatansdóttir

„Áður veröld steypist“

Um ragnarök Sturlungaaldar

Kolfinna Jónatansdóttir
Kolfinna Jónatansdóttir

Miðaldaheimildir um ragnarök eru fáar. Ítarlegustu frásögnina er að finna í Gylfaginningu, verki sem eignað er einum af höfðingjum Sturlunga. Allt verkið snýst um ragnarök, stöðugt er vísað til þess sem gerist í lok veraldar og í lokaköflunum eru ólíkar heimildir fléttaðar saman í eina heild sem lýsa endalokunum og nýju upphafi. Í 51. kafla segir frá aðdraganda ragnaraka og lokabardaganum milli guða og óvætta og í lok kaflans er vitnað til nokkurra erinda Völuspár sem heimildar. Eitt erindið er þó inni í kaflanum sjálfum, að því er virðist til að leggja áherslu á upphafið að endalokunum.

„En áður [en fimbulvetur hefst] ganga svo aðrir þrír vetur að þá er um alla veröld orustur miklar. Þá drepast bræður fyrir ágirni sakir, og enginn þyrmir föður eða syni í manndrápum eða sifjasliti. Svo segir í Völuspá:

Bræður munu berjast
og að bönum verðast,
munu systrungar
sifjum spilla.
Hart er með höldum,
hórdómur mikill,
skeggöld, skálmöld,
skildir klofnir,
vindöld, vargöld
áður veröld steypist.“

Þetta erindi er í Gylfaginningu sett í annað samhengi en í Völuspá þar sem það birtist í miðri ragnarakalýsingu. Efni þess er mjög lýsandi fyrir atburði Sturlungaaldar og því er áherslan sem lögð er á það í Gylfaginningu áhugaverð, þar sem slíkir atburðir eru upphafið að endalokum heimsins. Enn fremur er áherslan sem lögð er á það í Gylfaginningu og Skáldskaparmálum að jötnar og æsir séu náskyldir, sem og að Óðinn sé alfaðir og faðir allra goða, áhugaverð í ljósi þess að helstu ættir Sturlungaaldar voru náskyldar og ættföður Sturlunga, Hvamm-Sturlu, er líkt við Óðin.

Í þessum fyrirlestri verður annars vegar fjallað um hliðstæður sem sjá má í lýsingu á ragnarökum og þátttakendum þeirra í Gylfaginningu og þeim höfðingjum sem kljást í Sturlungu, sem og dómsdagsímyndum í Sturlungu. Hins vegar verður því velt upp hvort Sturlungaöld og atburðir hennar hafi haft áhrif á þá áherslu sem lögð er á ragnarök og aðdraganda þeirra í Gylfaginningu.

Kolfinna Jónatansdóttir er doktorsnemi í íslenskum miðaldabókmenntum við Háskóla Íslands og hefur einkum fengist við rannsóknir á goðafræði. Doktorsritgerð Kolfinnu fjallar um ragnarök.

—o—

31. mars 2016

Heinrich Beck

Snorri Sturluson’s writings — a narratological re-reading

Heinrich Beck
Heinrich Beck

Early examples of narrative poetry and some kind of theory of this ‘narrative’ are already found in classical times. Plato and Aristotle distinguished three basic kinds of ‘narrator’: (1) the speaker or poet who uses his own voice, (2) one who assumes the voice of another person or persons, and thus speaks in a voice not his own, and (3) one who uses a mixture of his own voice and that of others. We can adopt this classification today by using the terms ‘speaker/narrator’, on the one hand, and the ‘voices’, on the other hand.

This distinction allows for a new approach even to the well-known writings of Sturlungaöld’s most famous poet, Snorri Sturluson. Most scholars hold the opinion that Snorri intensively drew upon concepts such as euhemerism, but a narratological assessment of the written texts, with the focus on the categories ‘speaker’ and ‘voice’, hints at a totally different direction. The lecture thus has a twofold purpose: (1) the critical assessment of popular theses regarding Snorri’s intellectual background, and (2) the narratological re-reading of important passages such as the depiction of the Northern conversion (Hákon jarls óhamingja), Odin’s voyage to the Norðurlönd or the transformation of names at the end of Gylfaginning—and further examples which evidence Christianity’s impact on Snorri’s writings from a new perspective.

Heinrich Beck is professor emeritus in German and Scandinavian philology. Since the 1960s, he has published extensively on Old German and Old Norse language, literature, and culture. He has been the editor of the second edition of the Reallexikon der Germanischen Altertumskunde (37 volumes) and around 90 supplement volumes which cover Germanic history from the Iron Age to the Late Middle Ages, including history of research. His 1994 monograph Snorri Sturlusons Sicht der paganen Vorzeit introduced a totally new interpretation of Gylfaginning, and is among the German standard works for students in the field. Beck holds an honorary doctorate from the University of Minnesota, Minneapolis, and was granted the Knight’s Cross of the Icelandic Order of the Falcon in 1988.

—o—

14. apríl 2016

Úlfar Bragason

Hvað ber að gera?

Um Íslendinga sögu

Úlfar Bragason
Úlfar Bragason

Sturlunga er samsteypa eldri texta sem ritstjórinn skeytti saman, felldi úr og bætti við. Íslendinga saga, sem ritstjórinn eignaði Sturlu Þórðarsyni sagnaritara (1214–1284) í greinargerð fyrir verkinu, er lengst textanna sem hann steypti saman. Í greinargerðinni segir ritstjórinn að Sturla hafi reist frásögn sína á vísindum fróðra manna, bréfum samtíðarmanna og eigin reynslu og minni. Lofar hann bæði réttsýni hans og skilning. Í augum ritstjórans er Sturla óbilugt vitni um sameiginlegt minni um atburði samtímans.

Hayden White segir í nýrri bók sinni, The Practical Past (2014):

Recall that since its inception with Herodotus and Thucydides, history had been conceived as a pedagogical and indeed practical discipline par excellence. […] In ancient, modern, and even medieval times, historical discourse was recognized as a branch of rhetoric, itself second only to theology as a site of the ethical question: what is to be done? (12–13)

Í Íslendinga sögu var fest á skinn þekking um liðna tíð sem hafði gengið manna á meðal en öðlaðist nú aftur líf á skrifstofu Sturlu. Vitnisburð sögunnar verður hins vegar að skoða í ljósi þess við hvaða aðstæður hún var skrifuð, hver lét skrifa hana og hvenær. Í fyrirlestrinum verður fjallað um hvernig Sturla Þórðarson sagnaritari svaraði í Íslendinga sögu siðferðilegu spurningunni um hvað bæri að gera.

Úlfar Bragason Ph.D. er rannsóknarprófessor við Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum. Meginrannsóknarsvið hans eru íslenskar miðaldabókmenntir og Vesturheimsferðir Íslendinga.

—o—

14. apríl 2016

Orri Vésteinsson

Hvernig væri Sturlungaöldin án Sturlu Þórðarsonar?

Orri Vésteinsson
Orri Vésteinsson

Ímyndum okkur að Davíð Oddsson sitji nú við og skrifi stjórnmálasögu Íslands 1960-2010 og að fyrir ótrúlega röð atvika muni ekki önnur heimild um þetta tímabil verða tiltæk eftir hundrað ár. Hvers konar mynd hefðu komandi kynslóðir þá af samtíma okkar? Hún myndi ekki aðeins endurspegla eina hlið málanna heldur sýndi hún örugglega aðeins úrval af því sem gerðist og skipti máli. Sturla Þórðarson hefur löngum þótt traustur leiðsögumaður um sögu Sturlungaaldar. Frásögn hans virðist hlutlæg, hún er laus við gildisdóma eða réttlætingar og ekki er bersýnilegt að hann reyni að fegra sinn eigin hlut eða ættmenna sinna og vina. Traustvekjandi vinnubrögð Sturlu hafa valdið því að við höfum einnig gleypt við sýn hans á sögu 13. aldar eins og hún væri sú eina mögulega og sú sem best skýrði allt sem var í gangi á þeirri öld. Það bætir ekki úr skák að sá sem steypti saman Sturlungasögu hefur ekki haft svo ólík viðhorf að hægt sé að átta sig á hvar fólk gæti hafa greint á í túlkun á sögu Sturlungaaldar.

Í fyrirlestrinum verða kannaðar heimildir sem leyfa mat á sögu 13. aldar óháð sýn Sturlu og Sturlungasögu. Þó að þeir séu ekki óháðir öðrum sagnaritum 13. aldar verður leitað fanga í annálum til að leggja mat á undirliggjandi munstur í stjórnmálaþróun en einnig verður hugað að hagsögulegum vísbendingum sem gætu orðið grundvöllur að sjálfstæðu mati á því sem gekk á.

Orri Vésteinsson er prófessor í fornleifafræði við Sagnfræði- og heimspekideild Háskóla Íslands. Rannsóknir hans lúta einkum að landnámi Íslands og samfélagsþróun við Norður-Atlantshaf á miðöldum.

—o—

28. apríl 2016

Guðrún Nordal

Hvað gerðist í raun og veru á Sturlungaöld?

Frá atburði á kálfskinn — og til nútíma

Guðrún Nordal
Guðrún Nordal

Sturlungaöld dregur nafn sitt af Sturlungum, en sögur þeirra hafa mótað hugmyndir nútímamanna um þrettándu öldina og það fólk sem þá lifði. Þar ber vitaskuld hæst Íslendingasögu og Hákonar sögu Sturlu Þórðarsonar. Nafn Sturlu er ekki ritað aftan við Íslendingasögu í handritum Sturlungu, en skáldskapur hans er þar nafngreindur. Sturla fléttaði margræðum dróttkvæðum kveðskap inn í lausamálið en myndmál vísnanna mátti túlka á fleiri en einn veg — og söguna þar með. Í lærdómi og kveðskap skáldanna birtist hin alþjóðlega vídd enn skýrar en í frásögnum af atburðum á Íslandi, hvort sem um er að ræða samtímaviðburði eða frásagnir af formæðrum og forfeðrum í Íslendingasögum eða af fólki í löngu liðinni fortíð. Karllægt yfirstéttarlegt sjónarhorn Sturlu og samtímamanna hans hefur þrengt sýn okkar á þessa öld umbreytinga og nýsköpunar. Nákvæm staðsetning á sagnaritaranum í tíma, rúmi, samfélagi og ætt gefur okkur hins vegar tækifæri til að kafa dýpra en ella, skoða nákvæmlega samspil þjóðfélagsstöðu og atburða, stöðu karla og kvenna, og tengingar við evrópska ritmenningu og samfélagsbreytingar. Sturlungaöld var ekki aðeins róstursöm á Íslandi heldur víða í Evrópu; miðlægar valdastofnanir, kirkja og krúna, styrktust þá mjög í sessi. Íslendingasaga var sett saman á þrettándu öld, en hún er komin til okkar um hendur ritstjóra handrita í lok fjórtándu aldar. Í fyrirlestrinum verður sett spurningarmerki við texta Íslendingasögu. Spyrja má hvort að Íslendingasaga sé í raun texti frá Sturlungaöld. Hvernig  mótaðist sagan í handritum fjórtándu aldar? Var tekist á um „réttu“ gerðina af sögunni af afkomendum Sturlunga og birta þau átök samfélagslega ólgu á fjórtándu öld? Hvernig breyttist Íslendingasaga í meðferð skrifara sautjándu aldar sem blönduðu saman texta skinnhandritanna tveggja? Og hvernig túlkum við svo þennan flókna textavefnað á 21. öldinni? Vitum við enn eða hvað?

Guðrún Nordal er forstöðumaður Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum og prófessor við Háskóla Íslands. Hún hefur ritað bækur og greinar um Sturlungaöld, samfélag og bókmenntir miðalda. Hún lauk doktorsprófi frá Oxford-háskóla árið 1988. Meðal bóka má nefna Ethics and action in thirteenth-century Iceland (Odense University Press 1998) og Tools of Literacy (University of Toronto Press 2001). Hún er í aðalritstjórn heildarútgáfu dróttkvæða, en þrjú bindi eru komin út hjá Brepols (2007, 2009 og 2012).

—o—

002 Sturlunga old