Centre for Medieval Studies Lecture Series 2016–2017

Sverrir Jakobsson

Gerendur í pólitísku rými Sturlungaaldar

Thursday November 24, 2016, at 16.30
Lögberg 101

Sverrir Jakobsson
Sverrir Jakobsson

Stjórnmálasaga Íslands á 12. og 13. öld er dramatísk og hefur gegnt miklu hlutverki í sögulegu minni þjóðarinnar. Í aðdraganda lýðveldisstofnunar var algengt að vitnað væri í Sturlungu í þingræðum og mikill áhugi var á þeim kringumstæðum sem leiddu til endaloks sjálfstæðis Íslendinga á 13. öld. Undanfarna áratugi hefur almennur áhugi á þessu tímabili farið minnkandi. Orðræða þjóðfrelsisbaráttunnar er úr sögunni en í stað hennar hefur ekki myndast ný söguskoðun. Samtímis hefur þetta tímabil fengið mikla athygli erlendra fræðimanna þannig að Íslandssaga miðalda er orðin alþjóðleg fræðigrein. Gjá virðist ríkja á milli fræðilegrar orðræðu og almennrar söguskoðunar.

Hér er ætlunin að ræða þessa sögu með nýjum hætti með áherslu á pólitíska gerendur. Valdabarátta höfðingja byggðist á klókindum, hörku og forsjálum ákvörðunum í hjónabandsmálum. Ástir og ættartengsl blönduðust inn í pólitíska refskák og blóðsúthellingar. Að lokum stóðu fáir eftir sem sigurvegarar við nýjar aðstæður. Þetta er spennandi atburðarás og oft ekki síður æsileg heldur en í skáldsögum.

Rætt verður hvernig hægt er að meta pólitíska þróun á þessu tímabili í ljósi eftir- eða síð-þjóðernishyggju (post-nationalism). Meðal þess sem verður til umræðu er hvernig íslenskt samfélag þróaðist frá upptöku tíundar 1096 sem leiddi af sér nýja hugsun um vald. Reynt verður að rýna í upphaf og þróun valdasamrunans og hvernig átök höfðingja við kirkjuna í upphafi 13. aldar tengdust honum. Sérstaklega verður litið á átök Sturlungaaldar og þá m.a. fjallað um hvernig varðveittar heimildir sýna þau í vissu sjónarhorni þar sem framgangur sumra einstaklinga og fjölskyldna verður fegraður. Einnig verður rýnt í hvernig konur hafa verið skrifaðar út úr þessari sögu og bent á hvernig þær voru virkir þátttakendur í pólitísku plotti og átökum.

Sverrir Jakobsson er prófessor í miðaldasögu við Háskóla. Hann hefur rannsakað og ritað um heimsmynd Íslendinga á miðöldum, samskipti Íslendinga við konungsvald, orðræðu um rými og vald og átakasögu Sturlungaaldar, auk ótal annarra efna.

The talk will be delivered in Icelandic. All are welcome to attend.