Centre for Medieval Studies Lectures

Arngrímur Vídalín

Trójumenn á Thule

Goðsögulegar rætur Íslendinga

Thursday, February 21, 2019, at 16.30
Lögberg 101

Arngrímur Vídalín

Íslenskar bókmenntir fyrri alda snúast að töluverðu leyti um sjálfsmyndarsköpun. Þær fjalla um forfeður Íslendinga, landnámsmenn, kappa og höfðingja, en ekki síður fjalla þær um uppruna Íslendinga allt aftur í fornöld. Þó nokkrir textar á forníslensku halda fram uppruna norræns samfélags í Tróju, oft með því að æsir undir stjórn Óðins hafi í raun verið brottfluttir Trójumenn í Skandinavíu, stundum með því að gefa í skyn að norrænu og grísk-rómversku guðirnir hafi verið hinir einu og sömu.

Klassíska arfleifðin sem Íslendingar gerðu að sinni virðist vera sprottin úr þeirri hefð Karlunga að réttlæta völd sín með goðsagnakenndri (heiðinni) ættfræði þrátt fyrir að þeir væru strangkristnir. Ný goðafræðileg hefð varð til þar sem leifar eldri trúarbragða eru nýttar og goð þeirra manngerð innan grundvallarskilnings kristilegrar heimsmyndar. Þessa nýju hefð ber ekki að kljúfa í heiðnar eða kristnar einingar heldur þarf að skilja þá heildarmynd hennar sem birtist okkur í heimildunum: sem smíði sjálfsmyndar og sögu þar sem grískir leiðtogar voru tilbeðnir sem guðir að grískri fyrirmynd og gátu síðan af sér ættir norrænu konunganna sem síðar tóku við hinum rétta kristna sið. Í þessum söguskilningi felst sú pólitíska afleiðing að Íslendingar eru álitnir fólk með göfugan uppruna og mikilfenglega menningararfleifð; með ættir konunga sem rekja má um goðsagnakennd heimsveldi til fyrsta mannsins: Adams, sem skapaður var af Guði sjálfum.

Þó að þetta efni varði sjálfan grundvöll íslenskrar sagnaritunar er það lítt rannsakað enn sem komið er. Í þessum fyrirlestri verður bókmenntafræðilegri og hugmyndasögulegri nálgun beitt til að skoða hvernig íslenskir miðaldamenn sköpuðu hugmynd um íslenskt sjálf og sögu með því að tileinka sér klassíska arfleifð og gera að sinni eigin.

Arngrímur Vídalín er doktor í íslenskum bókmenntum frá Háskóla Íslands. Hann hefur einkum beint sjónum að áhrifum evrópskra lærdómsrita á íslenskar miðaldabókmenntir, þ.m.t. á hugmyndir Íslendinga um skrímsl. Hann er nú sjálfstætt starfandi fræðimaður í ReykjavíkurAkademíunni og kennir íslensku við Keili háskólabrú.

The talk will be delivered in Icelandic. All are welcome to attend.

—o—