Cloisters and Culture in Iceland and the North 
in the Middle Ages

Gottskálk Jensson

Íslenskar klausturreglur og libertas ecclesie á ofanverðri 12. öld

Fimmtudaginn 6. febrúar 2014 kl. 16.30
Árnagarði 311

Gottskalk Jensson
Gottskálk Jensson

Á ofanverðri 12. öld tóku Benediktsmunkar og Ágústínusarmunkar á Íslandi þátt í hugmyndafræðilegum deilum sem geisuðu víða í Evrópu. Í þeim átökum stóð annars vegar Rómakirkja með páfann í fararbroddi og hins vegar keisarinn, einkum Friðrik rauðskeggur (1152–1190), ásamt ýmsum smærri kóngum álfunnar. Deilurnar snerust um hver réði kjöri og löggildingu embættismanna, veraldlegra sem andlegra, en á þessu sviði hafði Rómakirkja sérlegu hlutverki að gegna. Kristin kenning réttlætti allt miðstjórnarvald í álfunni og prelátar vígðu embættismenn við hátíðlegar athafnir. Var látið svo heita sem hinn ungi Noregskonungur Magnús Erlingsson (vígður 1164) fengi Noreg að léni frá kirkjudýrlingnum Ólafi helga (d. 1030), sem titlaður var rex perpetuus Norwegie. Lítið er vitað um dýrkun Ólafs á 11. öld en Eysteinn Erlendsson erkibiskup í Niðarósi, sem hafði sterk tengsl við Ágústínusarkanoka í París, lét skipulega efla átrúnað á hann og skrifa á latínu Passio et miracula beati Olaui. Ólafi var vígð ný dómkirkja við erkistólinn og hann var notaður sem tákn fyrir yfirráð kirkjunnar yfir konungsvaldinu í Noregi. Hinn Parísarmenntaði Þorlákur Þórhallsson var augljós fulltrúi kirkjuvaldsins á Íslandi. Hann stofn­aði kanokasetur í Þykkvabæ í Veri 1168, hið fyrsta undir reglu Ágústínusar. Annað slíkt munklífi var stofnað í Flatey á Breiðafirði 1172 en flutti að Helgafelli rúmum áratug síðar. Fyrir komu Ágústínusarkanoka til Íslands höfðu verið í landinu Benediktsklaustur, hið merkasta á Þing­eyrum (stofnað 1133). Benediktsmunkunum hefur litist illa á valdabrölt Ágústín­usarkanoka. Um 1173 voru báðir ábótarnir í hinum nýju kanoka­setrum, Þorlákur og Ögmundur Pálsson, í vali til biskups í Skálholti, og 1178 var Þorlákur vígður í embættið. Jafnvel sem Skálholtsbiskup klædd­ist Þorlákur kanokabúnaði. Framgangur kirkjuvaldsins og hugmynda­fræði Parísarkanokanna virtist óstöðvandi enda voru þeir studdir ein­arð­lega af páfa og sátu í helstu kirkjuembættum í Noregi og á Íslandi. En 1177 gerðist það óvænt í Noregi að fram kom nýtt konungsefni, presturinn Sverrir frá Kirkjubæ í Færeyjum. Gerði hann tilkall til valda sem laun­son­ur Sigurðar munns og varð foringi Birkibeina. Árið 1184 hafði hann sigrað og drepið Magnús konung og Eysteinn erkibiskup var kominn í útlegð til Englands. Veraldlegir höfðingjar á Íslandi, sem nátengdir voru norsku konungsvaldi, veittu nú Sverri lið og leituðu til íslenskra Benediktsmunka á Þingeyrum til að réttlæta nýja skipan mála í Noregi í nokkrum rit­verk­um, Sverris sögu á norrænu og tveimur latneskum historíum um öðruvísi og eldri fornkonung en Ólaf helga, konung sem hafði biskup sér við hlið en lét hann ekki ráða yfir sér. Þetta var Ólafur Tryggason, apostolus Norwagiensium.

Gottskálk Jensson er bókmenntafræðingur og Marie Curie prófessor við Kaupmannahafnarháskóla. Hann fæst við rannsóknir á sviði latneskrar bókmenntasögu.