Cloisters and Culture in Iceland and the North 
in the Middle Ages

Guðvarður Már Gunnlaugsson

Voru scriptoria í íslenskum klaustrum?

Fimmtudaginn 8. maí 2014 kl. 16.30
Lögbergi 101

GMG
Guðvarður Már Gunnlaugsson

Menn hafa lengi gert ráð fyrir að bækur hafi verið skrifaðar í íslenskum klaustrum og að þau hafi verið fræðasetur jafnt sem miðstöðvar bókagerðar. Sem dæmi má nefna að Ólafur Halldórsson taldi að allmargar bækur frá þriðja fjórðungi 14. aldar hefðu verið skrifaðar í Ágústínusarklaustrinu á Helgafelli (Helgafellsbækur fornar, 1966). Erlendis var algengt að handrit væru skrifuð í klaustrum svo að það kæmi ekki á óvart að sú hafi einnig verið raunin hérlendis. Í erlendum klaustrum voru allvíða sérstakar skrifarastofur, svokallaðar scriptoria, og spyrja má hvort svo hafi einnig verið hér. Til að svara því verður fyrst að skilgreina orðið scriptorium og í því samhengi er vert að velta því fyrir sér hvort orðið skrifstofa, sem kemur tvívegis fyrir í texta frá miðöldum, hafi verið bein þýðing á scriptorium. Í fyrirlestrinum verður gerð grein fyrir fjölda þeirra handrita sem talin eru skrifuð í íslenskum klaustrum með nokkurri vissu, auk þess sem litið verður á heimildir þar sem þess er beinlínis getið að klausturfólk hafi skrifað handrit.

Guðvarður Már Gunnlaugsson er handritafræðingur og rannsóknardósent við Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum. Rannsóknir hans lúta einkum að íslenskum handritum, aldri þeirra og uppruna, þróun skrifleturs á Íslandi og greiningu rithanda.