Cloisters and Culture in Iceland and the North 
in the Middle Ages

Haraldur Bernharðsson

Norsk máláhrif og kirkja og klaustur á Íslandi

Fimmtudaginn 28. nóvember 2013 kl. 16.30
Árnagarði 423

Haraldur Bernharðsson
Haraldur Bernharðsson

Á síðari hluta þrettándu aldar og á fjórtándu öld má sjá aukin norsk áhrif á stafsetningu og málfar í íslenskum handritum. Þessi áhrif haldast í hendur við aukin norsk áhrif á menningu og stjórnarfar hér á landi og verður að teljast líklegt að kirkja og klaustur hafi átt drjúgan þátt í þeim, meðal annars í gegnum norska biskupa og reglubræður hér á landi. Margt er óljóst um hve djúpt þessi norsku áhrif ristu. Margir þættir virðast hafa horfið furðuhratt á öndverðri fimmtándu öld en aðrir entust lengur. Norsk áhrif á skrift og stafsetningu hafa þó greinilega verið bæði útbreiddari og endingarbetri en norsk máláhrif, enda hafa kirkja og klaustur verið áhrifamiklar stofnarnir í kennslu og bókagerð. Hafi norsk skriftar- og ritvenja verið í hávegum höfð þar hefur hún haft mótandi áhrif á allan þorra þeirra er lærðu skrift og bókagerð á þrettándu og fjórtándu öld. Áhrif kirkju og klaustra á tungumálið hafa aftur á móti fyrst og fremst verið bundin við orðaforða en áhrif á kerfislega þætti í máli landsmanna hafa verið takmörkuð. Norsk máleinkenni í íslenskum handritum frá þrettándu og fjórtándu öld eru sjaldnast mjög regluleg og birtast jafnan við hlið samsvarandi íslenskra einkenna. Líklegt má því teljast að þessi norsku máleinkenni hafi haft takmarkaða fótfestu í mæltu máli og fyrst og fremst verið ritmálsviðmið sem skrifararnir leituðust við að fylgja.

Haraldur Bernharðsson er málfræðingur og dósent við Íslensku- og menningardeild Háskóla Íslands. Rannsóknir hans lúta einkum að íslenskri málsögu, meðal annars breytileika í íslensku máli á 14. öld.