Strengleikar

Lísabet Guðmundsdóttir

Lækjargata hin eldri

Leifar af skála frá 10. eða 11. öld

Fimmtudaginn 22. október 2015 kl. 16.30
Öskju 132

Lísabet Guðmundsdóttir
Lísabet Guðmundsdóttir

Síðastliðið vor hófst fornleifauppgröftur á lóð Lækjargötu 10–12 vegna fyrirhugaðra framkvæmda. Í fyrirlestrinum verður fjallað um fornleifarannsóknina í sumar og helstu niðurstöður kynntar. Þess ber þó að geta að úrvinnsla er skammt á veg komin.

Lóðin ásamt svæðinu í kring var áður hluti af Austurvelli sem var tún Víkurbænda. Austurvöllur var lengi votlendur og því óhentugur til bygginga. Þar var þó Dómkirkjunni valinn staður árið 1787. Suðaustan við Dómkirkjuna reisti Einar Valdason tómthúsmaður torfbæinn Kirkjuból sem síðar var nefnur Lækjarkot. Lækjarkot var rifið árið 1887 og var þá byggt timburhús á lóðinni, Lækjargata 10a. Við fornleifarannsókn komu báðar þessar byggingar í ljós en minjarnar höfðu raskast verulega við ýmiss konar framkvæmdir í gegnum tíðina. Undir 18. og 19. aldar minjunum voru ummerki um eldra mannvirki. Varðveitt lengd mannvirkisins var 22 m en skorið hefur verið á bygginguna að sunnan- og norðanverðu. Breidd var um 4–5 m að innanmáli. Torfveggir voru strenghlaðnir og var landnámsgjóska í strengjum. Í norðurenda var mikill langeldur, 5,2 m á lengd. Í mannvirkinu voru að minnsta kosti fjögur rými og hefur mismunandi starfsemi átt sér stað í hverju rými fyrir sig. Starfsemin hefur svo tekið breytingum í gegnum tíð og tíma og byggingin þá löguð að því. Talsvert af gripum fannst við rannsóknina og má þá helst nefna snældusnúða, sörvistölur, brýni og ýmsa járngripi. Út frá gripasamsetningu og afstöðu gjóskulaga er talið að byggingin sé frá 10. eða 11. öld.

Lísabet Guðmundsdóttir er með MA-gráðu í fornleifafræði frá Háskóla Íslands. Hún starfar sem fornleifafræðingur hjá Fornleifastofnun Íslands. Hennar meginrannsóknarsvið er viðargreining og viðarnýting til forna.