Strengleikar

Þórir Jónsson Hraundal

Norrænir menn í arabískum miðaldaheimildum

Fimmtudaginn 16. janúar 2014 kl. 16.30
Árnagarði 423

Thorir Jonsson Hraundal mynd
Þórir Jónsson Hraundal

Á níundu og tíundu öld héldu norrænir menn í margvíslegum erindum langt inn í austanverða Evrópu þar sem samtímaheimildir vísa yfirleitt til þeirra sem „Rús“. Í gegnum tíðina hafa sagnfræðingar einna helst beint sjónum sínum að samneyti þeirra og samruna við þær slavnesku þjóðir sem fyrir voru og þátt norrænna manna í uppbyggingu Rús-ríkisins á níundu öld með höfuðból í Kænugarði (Kiev). Þessi efnistök eiga ekki síst upptök sín í mikilvægri slavneskri heimild frá öndverðri tólftu öld, hinni svokölluðu Sögu liðinna ára (Povest Vremennikh Let) sem fyrir ýmsar sakir hefur notið forgangs í þessari sagnaritun.

Margt virðist þó benda til að ákveðinn flokkur samtímaheimilda frá níundu og tíundu öld hafi ekki notið athygli sem skyldi. Í rannsókn minni á arabískum heimildum frá þessum tíma, aðallega landalýsingum og sagnfræðilegum textum, reyni ég að sýna fram á að sú mynd sem þær draga upp af Rús er talsvert önnur en í Sögu liðinna ára. Í fyrsta lagi eru þeir sagðir halda sig á mun austlægari slóðum, við syðri hluta Volgu og við Kaspíahaf. Í öðru lagi virðast Rús í arabísku heimildunum hvorki hafa áhuga á kristnitöku né stofnun ríkis, en þetta hafa jafnan verið tvö meginþemu í sagnaritun um Rús. Í þriðja lagi leggja arabískar heimildir talsverða áherslu á samband Rús við hinar sterku túrkísku þjóðir þess tíma, svo sem Khazara og Volgu-Búlgara, sem réðu yfir stóru svæði í austanverðri Evrópu og léku lykilhlutverk í umfangsmikilli verslun sem náði allt frá norðanverðri Evrópu til Miðjarðarhafs.

Niðurstöður rannsóknar minnar benda fyrst og fremst til þess að endurskoða þurfi efnistök og samhengi sagnaritunar um norræna menn í austurvegi og taka mið af hinu flókna menningarlega og pólitíska landslagi eins og það var þar á þeim tíma. Sjónum er enn fremur beint sérstaklega að hlutverki verslunar og viðskipta í menningartengslum og mögulegum áhrifum þeirra eins og lesa má úr arabískum samtímaheimildum.

Þórir Jónsson Hraundal lauk nýlega doktorsprófi í miðaldafræðum við Björgvinjarháskóla. Rannsóknir hans lúta einkum að frásögnum í arabískum miðaldaheimildum um ferðir norrænna manna í austanverðri Evrópu.