Fyrirlestrar Miðaldastofu 2020-2021

Haraldur Hreinsson

Afhelgun bókaþjóðar

Þáttur íslenskra miðaldabókmennta í afhelgunarferli nútímans

Fimmtudaginn 3. september 2020 kl. 16.30
Lögbergi 101

Haraldur Hreinsson

Á síðustu öldum hefur íslenskt samfélag, eins og önnur samfélög Vestur-Evrópu, gengið í gegnum breytingar sem kenndar hafa verið við afhelgun (secularisation). Er þar átt við hnignun í trúarlífi einstaklinga, minnkandi áhrif trúarstofnana á menningu og samfélag og aðgreiningu hins trúarlega (bæði trúarstofnana og -hugmynda) frá öðrum sviðum samfélagsins. Kenningar um afhelgun hafa á síðustu áratugum verið teknar til gagngerrar endurskoðunar. Nú þykir t.a.m. sannreynt að sú þróun sem hefur átt sér stað í Vestur-Evrópu getur ekki þjónað sem spálíkan fyrir samfélagsbreytingar annars staðar eins og áður var gengið út frá. Viðtekið er að afhelgun á sér stað með mismunandi hætti í ólíku félags- og menningarlegu samhengi. Á slíkum forsendum ræða sumir sérfræðingar (Burchardt, Wohlrab-Sahr, Kleine o.fl.) um fjölfeldni afhelgunarinnar (multiple secularities) alveg eins og aðrir (Eisenstadt, Jóhann Páll Árnason, Wittrock o.fl.) hafa rætt um fjölfeldni nútímans (multiple modernities).

Fyrri rannsóknir hafa sýnt að afhelgun á Íslandi á margt sameiginlegt með öðrum löndum í Norðvestur-Evrópu. Í ljósi kenninga um fjölfeldni afhelgunarinnar er engu að síður nauðsynlegt að huga að ýmsum sérkennum úr sögu og menningu íslensks samfélags sem kunna að hafa haft áhrif á birtingarmynd hennar. Eitt slíkt sérkenni er hinar íslensku miðaldabókmenntir, sú menning sem þær urðu til í og vægi hvors tveggja fyrir íslenska sjálfsmynd. Í fyrirlestrinum verður kynnt yfirstandandi rannsókn sem snýr að mikilvægi íslenskra miðaldabókmennta fyrir mótun afhelgunar á Íslandi. Kenningar- og aðferðafræðilega byggir rannsóknin á forsendum sögulegrar orðræðugreiningar en tekin verða til greiningar skrif mennta- og menningarelítu (intelligentsiu) um efnið sem fulltrúa ráðandi viðhorfa hverju sinni. Tímabil rannsóknarinnar er langdrægt og nær aftur á 16. öld en í fyrirlestrinum verður umræðan einskorðuð við fyrri hluta 20. aldar og dæmi tekin úr ritum Björns M. Ólsen, Helga Pjeturss, Sigurðar Nordal, Einars Ól. Sveinssonar, Ásgeirs Ásgeirssonar, Gunnars Gunnarssonar og Halldórs Laxness.

Á grundvelli skrifa ofangreindra höfunda verður fjallað um hvernig íslenskar miðaldabókmenntir — einkum Íslendingasögur – og íslensk menning á hámiðöldum voru útskýrð með tilliti til bæði aðgreiningar og samspils hins trúarlega og hins veraldlega. Fengist verður við þá spurningu hvort og þá hvernig greint er á milli sviðs bókmennta og menningar annars vegar og kirkju og kristni hins vegar. Einnig verður fjallað um samspil hugtakanna „kristni“, „heiðni“ og „hins veraldlega“ eins og þau eru sett fram í þeirri orðræðu sem til skoðunar er. Þessar afmörkuðu rannsóknarspurningar eru allar mikilvægar fyrir þá félagssögulegu spurningu sem liggur rannsókninni til grundvallar, þ.e. um þátt menningararfleifðar íslenskra hámiðalda í afhelgunarferli nútímans.

Haraldur Hreinsson hefur lokið prófum í guðfræði frá Háskóla Íslands og Harvard-háskóla. Hann lauk doktorsnámi í sagnfræði við háskólann í Münster 2019 og starfar nú við rannsóknir á sviði trúarbragðasögu við háskólann í Leipzig og sem aðjúnkt við menntavísindasvið Háskóla Íslands.

Fyrirlesturinn verður fluttur á íslensku og er öllum opinn.

—o—