Fyrirlestrar Miðaldastofu

Jón Karl Helgason, Sigurður Ingibergur Björnsson og Steingrímur Kárason

Kálfskinn og kósínus-delta

Spurt og svarað um stílmælingar á íslenskum miðaldafrásögnum

Fimmtudaginn 11. janúar 2018 kl. 16.30
Lögbergi 101

Jón Karl Helgason
Sigurður Ingibergur Björnsson
Steingrímur Kárason

Á liðnum áratugum hafa bókmenntafræðingar og stærðfræðingar nýtt sér tölvutækni og stærðfræðilegar aðferðir til að bera kennsl á persónuleg stíleinkenni ólíkra höfunda. Meðal þeirra aðferða sem hafa skilað marktækum niðurstöðum er stílmæling þar sem beitt er svonefndum deltamælingum og er kósínus-delta aðferðin afkastamikil útfærsla. Deltamælingar byggja á þeirri forsendu að hlutfallsleg tíðni algengustu orða í tilteknum texta myndi óumdeilanlegt „fingrafar“ viðkomandi höfundar. Hugmyndin er, með öðrum orðum, sú að hvert og eitt okkar hafi ekki aðeins persónulegan orðaforða heldur sé virkni þessa orðaforða líka persónubundin. Fyrirlesarar beittu þessari aðferð við rannsóknir sem kynntar voru í greininni „Fingraför fornsagnahöfunda“ í hausthefti Skírnis 2017. Í fyrirlestrinum munu þeir ræða vítt og breitt um hverjir séu helstu kostir og ókostir þessarar aðferðar þegar miðaldahandrit eru annars vegar.

Jón Karl Helgason er doktor í samanburðarbókmenntum frá University of Massachusetts og prófessor í íslensku sem öðru máli við Háskóla Íslands. Hann hefur m.a. fengist við rannsóknir á viðtökum íslenskra fornbókmennta. Sigurður Ingibergur Björnsson er MBA frá Heriot-Watt University og starfar við hugbúnaðarþróun tengda málvísindum. Steingrímur Kárason er doktor í vélaverkfræði frá Massachusetts Institute of Technology og er sjálfstætt starfandi ráðgjafi.

Fyrirlesturinn verður fluttur á íslensku og er öllum opinn.