Fyrirlestrar Miðaldastofu

Þórdís Edda Jóhannesdóttir

Sagnaskemmtun á sextándu öld

Handritið AM 510 4to í bókmenntasögulegu samhengi

Fimmtudaginn 8. mars 2018 kl. 16.30
Lögbergi 101

Þórdís Edda Jóhannesdóttir

AM 510 4to er sagnahandrit frá miðri 16. öld og eitt fárra íslenskra skinnhandrita sem vitað er hverjir skrifuðu. Uppruni þess er rakinn til prestsins Ara Jónssonar í Súgandafirði og sona hans, Tómasar og Jóns. Fleiri handrit hafa varðveist sem má rekja til þeirra, meðal annars rímnahandritið AM 604 4to. AM 510 geymir átta sögur en þær eru: Víglundar saga, Bósa saga, Jarlmanns saga og Hermanns, Þorsteins þáttur bæjarmagns, Jómsvíkinga saga, Finnboga saga ramma, Drauma-Jóns saga og Friðþjófs saga frækna. Samsetning handritsins er ekki óvenjuleg fyrir sagnahandrit frá síðmiðöldum en rannsóknir á uppskriftum og miðlun sagna frá þessum tíma eru enn nokkuð skammt á veg komnar. Þegar sögur hafa varðveist í eldri handritum en frá síðmiðöldum beinist athyglin jafnan þangað og yngri uppskriftir njóta síður hylli. Af þessum sökum er þekking á bókmenntaumhverfi þrettándu og fjórtándu aldar meiri en fimmtándu og sextándu aldar. Ef handrit eins og AM 510 4to er kannað í heild í því tilliti að varpa ljósi á umhverfi skrifara og njótendur sagnanna getur það aukið skilning á bókmenntamenningu sextándu aldar.

Sögunum í AM 510 4to mætti öllum lýsa sem skemmtisögum fremur en sögum með sagnfræðilegt heimildargildi. Sumar þeirra eiga það einnig sameiginlegt að storka hefðbundinni flokkun íslenskra miðaldabókmennta, það er að segja, þær falla illa að flokkum eins og Íslendingasögum, fornaldarsögum, riddarasögum o.s.frv. Í erindinu verður sjónum beint að því hvernig handrit sem varðveitir einmitt þessar sögur getur gefið innsýn í heim sagnaskemmtunar á sextándu öld og mögulega aukið þekkingu okkar á bókmenntasögu síðmiðalda og áhuga sextándu aldar manna á fornsögum. Handritið geymir auk þess athyglisverðar spássíugreinar sem geta brugðið enn frekari birtu á hugðarefni og áhugamál skrifaranna.

Þórdís Edda Jóhannesdóttir er nýdoktor á handritasviði Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum og stundakennari við Háskóla Íslands. Hún lauk doktorsprófi í íslenskum bókmenntum við Háskóla Íslands 2016. Rannsóknir hennar beinast einkum að íslenskum miðaldabókmenntum, viðtökum þeirra og bókmenntasögulegu samhengi.

Fyrirlesturinn verður fluttur á íslensku og er öllum opinn.