Fyrirlestrar Miðaldastofu 2016–2017

Hjalti Snær Ægisson

Lollardar og brauðslíking herrans

Kruðerí úr kirkjusögu 15. aldar

Fimmtudaginn 2. febrúar 2017 kl. 16.30
Odda 101

Hjalti Snær Ægisson

Lollardar voru trúarhópur í Englandi á 15. öld sem átti upphaf sitt í fylgismönnum John Wyclif (1320–1384). Meginmarkmið lollarda var að stuðla að umbótum innan kirkjunnar og hefur Wyclif lengi verið túlkaður sem einn af táknrænum forverum Lúthers í hefðbundinni söguskoðun. Kenningar og viðhorf lollarda lúta einkum að framkvæmd messunnar og kirkjulegra sakramenta. Framlag þeirra til alþýðufræðslu í Englandi er jafnframt mikilvægt og ensk biblíuþýðing Wyclifs hlaut töluverða útbreiðslu. Ótvíræð tengsl hreyfingarinnar við bændauppreisnina 1381 áttu eftir að reynast afdrifarík og enska kirkjan afgreiddi hugmyndir lollarda sem villutrú.

Síðustu þrjá áratugi hefur orðið mikil vakning í rannsóknum á lollördum, menningarsköpun þeirra og trúarviðhorfum. Allmargir fræðimenn í hinum enskumælandi heimi hafa tekið þátt í frjórri og lifandi umræðu um upphaf og eðli lollardanna, tengslin við Wyclif og áhrif og útbreiðslu þeirra skoðana sem þeir aðhylltust. Afstaða veraldlegra og kirkjulegra yfirvalda í Englandi til lollarda hafa verið könnuð í þaula, framhaldslíf kennisetninga þeirra á meginlandi Evrópu og hugsanleg áhrif á siðbreytingu 16. aldarinnar. Stiklað verður á stóru um þessa fræðilegu umræðu og gerð grein fyrir helstu álitaefnum sem verið hafa í forgrunni.

Loks verður fjallað um hugsanlega snertifleti lollarda við íslenska kirkjusögu. Engar beinar heimildir hafa varðveist um lollarda á íslensku en ekki er óhugsandi að meðvitundin um þá hafi skilað sér í þeim ritheimildum sem rekja má til Englands. Ísland hafði umtalsverð tengsl við England á 15. öld, jafnt á sviði verslunar og kirkju, og sátu enskir biskupar á báðum biskupsstólunum um árabil. Horft verður sérstaklega til Jóns Vilhjálmssonar Craxton sem sat á Hólum 1426–1435 og reynt að geta í nokkrar af eyðunum sem finna má í sögu hans með hliðsjón af umbótastarfi lollarda.

Hjalti Snær Ægisson er doktorsnemi í almennri bókmenntafræði við Háskóla Íslands. Hann vinnur að rannsókn á norrænum ævintýrum og tengslum þeirra við prédikunarhefð 13. aldar.

Fyrirlesturinn verður fluttur á íslensku og er öllum opinn.