Fyrirlestrar Miðaldastofu

Sverrir Tómasson

Ormsbók og riddaramennt Skarðverja

Fimmtudaginn 4. október 2018 kl. 16.30
Lögbergi 101

Sverrir Tómasson

Orðið riddaramennt er haft um margvíslega menntun riddara hér á landi undir lok 14. aldar og á 15. öld. Menntin snýst ekki aðeins um burtreiðar, turniment, heldur líka um klæðaburð, borðsiði, siðfágun, mataræði og ástir. Samkvæmt elstu norrænu riddarabókmentunum skyldi riddarinn, sem yfirleitt var karlmaður, hafa til að bera ákveðnar dygðir sem oftast má rekja til siðfræði Cicerós. Þetta eru þó mjög kristilegar dygðir, riddarinn skyldi elska föður sinn og móður, sýna staðfestu og hóf og gera það eitt sem gott þykir. Riddarinn skyldi vera fagur álitum, ríkur, áburðarmaður og metnaðargjarn. Guðs riddari var sá sem gerði það eitt sem guði var þóknanlegt; hann var hluti af himneskri hirðsveit. Riddari gat sá einn orðið sem var aðalsmaður af ætt og sökum sinnislags var líka aðalsmaður. Um hann gilti að fagur riddari var bonus corporis og sýndi líka bona fortuna, en í öllu atferli sínu birtist stöðugt togstreita milli ástar og hugrekkis eða drengskapar. Skarðverjar voru allflestir riddarar, sumir svo gamlir í þeim búningi, að þeir höfðu verið dubbaðir upp í þá tign á dögum Hákonar háleggs á öndverðri 14. öld. En hvaða skyldur gengu þeir undir þegar þeir gerðust hirðmenn Noregskonungs — með öðrum orðum hvernig var riddaramennt þeirra háttað?

Sverrir Tómasson er prófessor emeritus við Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum. Eftir hann liggja fjölmörg fræðirit og útgáfur, þ. á m. doktorsritgerðin, Formálar íslenskra sagnaritara á miðöldum (1988), Nikulás sögur erkibyskups, Helgastaðabók 1982 og Pipraðir páfuglar 2017. Sverrir hefur gefið út Íslendinga sögur I-III 1987, Sturlunga sögu I-III 1988, Bósa sögu og Herrauðs 1996 og Heilagra karla sögur 2007. Hann vinnur nú að riti um íslenskar rómönsur og útgáfu á öllum gerðum af Nikulás sögu erkibyskups.

Fyrirlesturinn verður fluttur á íslensku og er öllum opinn.