Fyrirlestrar Miðaldastofu

Albína Hulda Pálsdóttir

Kyngreining á hrossum úr kumlum með forn-DNA

Hestar lagðir í kuml á Íslandi á víkingaöld

Fimmtudaginn 14. febrúar 2019 kl. 16.30
Lögbergi 101

Albína Hulda Pálsdóttir

Hestar voru algengasta haugfé sem lagt var í kuml á Íslandi á víkingaöld. Beinagrindur hrossa er hægt að kyngreina á formi mjaðmagrindar og því hvort vígtennur eru til staðar. Vígtennur koma upp við 4-5 ára aldur í karldýrum en þó hafa rannsóknir sýnt að allt að þriðjungur hryssa getur haft vígtennur þó þær séu yfirleitt mun minni en í karldýrunum. Beinagreining hefur sýnt að öll hross sem hægt er að kyngreina úr íslenskum kumlum er úr karlkyns hestum en þar sem stór hluti þessara kumla fannst fyrir mörgum áratugum síðan við framkvæmdir eru beinagrindurnar oft of illa varðveittar til þess að hægt sé að kyngreina þær með vissu.

Í þessari rannsókn notum við forn-DNA-greiningu til að kyngreina 22 hross frá víkingaöld. 19 hross voru úr kumlum en þrjú bein úr hellum og býlum voru einnig greind. Rannsóknir okkar leiddu í ljós að af 19 hrossum úr kumlum sem greind voru reyndist aðeins vera ein hryssa en öll sýnin sem komu úr helli og býli reyndust vera hryssur.

Í greininni er einnig sýnt fram á að hægt er að kyngreina dýr jafnvel þó afar lítið sé varðveitt af DNA í hverju sýni og því má nota aðferðafræðina í greininni til að kyngreina fornleifafræðileg bein á mun stærri skala og fyrir minna fé en áður var talið.

Fjallað verður um niðurstöður í nýútkominni grein Heidi M. Nistelberger, Albínu Huldu Pálsdóttur, Bastiaan Star, Rúnars Leifssonar, Agötu T. Gondek, Ludovic Orlando, James H. Barrett, Jóns Hallsteins Hallssonar og Sanne Boessenkool „Sexing Viking Age horses from burial and non-burial sites in Iceland using ancient DNA,“ Journal of Archaeological Science 101 (2019), 115–122. https://doi.org/10.1016/j.jas.2018.11.007.

Albína Hulda Pálsdóttir er dýrabeinafornleifafræðingur og starfar við Landbúnaðarháskóla Íslands. Hún er doktorsnemi við Óslóarháskóla en doktorsverkefni hennar heitir „Hestar og sauðfé víkinganna: Fornerfðafræði húsdýra í Norður-Atlantshafi“. Hún hefur greint dýrabeinasöfn frá Íslandi, Írlandi, Grænlandi og Færeyjum. Leiðbeinendur Albínu eru dr. Sanne Boessenkool við Óslóarháskóla, dr. Jón Hallsteinn Hallsson við Landbúnaðarháskóla Íslands og dr. Juha Kantanen hjá LUKE í Finnlandi. Verkefnið er styrkt af rannsóknasjóði Rannís á styrk nr. 162783051

Fyrirlesturinn verður fluttur á íslensku og er öllum opinn.