Fyrirlestrar Miðaldastofu

Guðrún Sveinbjarnardóttir

Reykholt í Borgarfirði: vitnisburður fornleifanna

Fimmtudaginn 21. mars 2019 kl. 16.30
Lögbergi 101

Guðrún Sveinbjarnardóttir

Reykholt í Borgarfirði er óneitanlega best þekkt fyrir búsetu Snorra Sturlusonar þar á fyrri hluta 13. aldar en þetta stórbýli og kirkjustaður á sér mun lengri sögu. Elstu minjar sem fundist hafa þar í jörðu hafa verið tímasettar til um 1000 en elsta varðveitt samtímaritheimild um staðinn er máldagi kirkjunnar sem er nú tímasettur til um 1150. Atburðum sem áttu sér stað í Reykholti á 13. öld er lýst í Sturlunga sögu sem er nánast samtímaheimild og talin vera áreiðanleg sem slík. Fornleifarannsóknirnar sem fóru fram á staðnum um árabil frá því seint á 20. öld lauk árið 2007. Þær hafa varpað ljósi á búsetu þar frá um 1000 og fram á 19. öld. Í fyrirlestrinum verður farið yfir það helsta sem kom í ljós og þróun búsetunnar sett í víðara samhengi.

Núverandi vitneskja bendir ekki til þess að Reykholt hafi verið fyrsta býlið sem var byggt í dalnum en það hafði, samkvæmt ritheimildum, tekið forystu þar ekki síðar en um 1200. Rætt verður hvað gæti lengið hér að baki. Á þeim tíma sem Snorri bjó í Reykholti verða miklar breytingar á húsakosti og farið er út í miklar mannvirkjaframkvæmdir sem hafa útheimt bæði fé og mannskap. Í Sturlungu eru mörg þessara mannvirkja nefnd og gefið í skyn að Snorri hafi mjög svo haft umsjón með öllum framkvæmdum á staðnum. Rætt verður að hvaða marki unnt sé að heimfæra þessar framkvæmdir upp á hann út frá þeim heimildum sem tiltækar eru, hverjar líkurnar séu á því að áhrifa gæti í þeim erlendis frá og hvernig þessi mannvirki samlagast vitneskju okkar um húsakost annars staða í landinu á sama tíma. Að lokum verður gerð tilraun til þess að finna mannvirkjunum sem eru nefnd í Sturlungu stað í fornleifunum sem voru grafnar upp.

Guðrún Sveinbjarnardóttir hefur setið í rannsóknarstöðum við Birmingham-háskóla, University College London og Þjóðminjasafn. Hún stjórnaði fornleifarannsóknum í Reykholti, og er höfundur bókanna Reykholt: Archaeological Investigations at a High-status Farm in Western Iceland (2012) og Reykholt: The Church Excavations (2016). Á þessu ári er væntanleg bókin Reykholt í ljósi fornleifanna um rannsóknirnar.

Fyrirlesturinn verður fluttur á íslensku og er öllum opinn.

—o—