Fyrirlestrar Miðaldastofu

Lára Magnúsardóttir

Heimildavandinn skringilegi um kirkjuvald á síðmiðöldum

Þjóðsaga um skort í allsnægtum

Fimmtudaginn 4. apríl 2019 kl. 16.30
Lögbergi 101

Lára Magnúsardóttir

Árið 1930 skrifaði Einar Arnórsson: „Eftir Járnsíðu áttu biskupar að nefna 12 skynsama, lærða menn til þingreiðar. En eigi er kunnugt hvað a hlutverk þeir áttu að vinna á Alþingi.“ Þetta hefur enn ekki verið skýrt og ef að líkum lætur er staða kirkjunnar innan stjórnkerfisins á lögtöku kristinréttar Árna árið 1275 stærsta ráðgáta íslenskrar stjórnmálasögu. Ástæðan er vafi sem ríkir um gildi — og tilvist — heimilda sem gætu varpað ljósi á málið.

Á árunum 1924-1927 hafði komið út kirkjusaga eftir franska fræðimanninn August­ine Fliche (1884 –1951) — La réforme Grégorienne 1924–1927: Histoire de l’Église depuis les origines jusqu’à nos jours — þar sem umbótastarf almennu kirkj­unnar á 12. öld var rakið í ljósi trúarlegrar vakningar sem talið var hafa frels­að kirkj­una und­an spilltu valdi leikmanna. Sögð var saga af sigri páfa­valds­ins í baráttu við veraldarvald þar sem skýr afstaða var tekin með kirkjunni gegn ásókn leikmanna­valds­­ins til yfir­ráða yfir henni. Árið 1938 kom út lútherskt andsvar hins þýska Gerd Tellenbachs (1903–1999) — Libertas: Kirche und Weltordnung im Zeitalter des Investiturstreits —  við kaþólskum skiln­ingi Fliches. Umbrotatímar 12. aldar voru taldir endurspegla átök um grund­vall­ar­atriði heimssýnar þar sem tekist var á um hlutverk kon­­ungsvaldsins og kirkjunnar sem stjórnvalds. Samúð höfundar lá hjá kon­ungsvaldinu sem talið var hafa staðið í baráttu gegn spilltu kirkjuvaldi. Þessar andstæðu frásagnir lögðu nýjan grunn að tveimur stefnum í kirkjusögu.

Árið 1942 kom út rannsókn Jens Arup Seips á sættargerðinni sem Noregskonungur gerði við Rómakirkju árið 1277 um takmörk veraldlegs og andlegs valds. Seip skoðaði heimildirnar í ljósi aðstæðna heima fyrir í stað þess að tengja þær við gregorsku siðbótina og stjórnmála­þró­un­ í Vestur-Evrópu og í anda Tellenbachs tók hann afstöðu gegn kirkjuvaldi. Seip ályktaði að fulltrúar kirkjunnar hefðu beitt heimamenn brögðum og jafnvel falsað samningsgreinar. Hann taldi ólíklegt að niðurstaða hafi orðið bindandi og spurningar á borð við þá sem Einar Arnórsson bar upp var enn ósvarað. Af þessu leiddi langlífur norsk- íslenskur söguskilningur sem gerir ráð fyrir að óvissuástand hafi ríkt um stjórnskipan og réttarfar um margra alda skeið.

Á síðari áratugum hefur hins vegar borið æ meir á þeirri trú að heimildir um kirkjuvald séu ekki einvörðungu ónothæfar heldur of fáar til þess að hægt sé að greina stöðu þess í stjórnskipun síðmiðalda. Í fyrirlestrinum verður gerð tilraun til að kveða þetta niður.

Lára Magnúsardóttir lærði sagnfræði og almenn málvísindi við Háskóla Íslands og miðaldasagnfræði við Háskólann í Genf. Hún hlaut dr.phil.-gráðu frá Háskóla Íslands árið 2007 fyrir rannsókn á kirkjuvaldi á Íslandi á síðmiðöldum og forsendur rannsókna á heimildum um það. Síðastliðin ár hafa rannsóknir hennar beinst að breytingum á stjórnskipulegri stöðu trúarbragða frá 1275–1875.

Fyrirlesturinn verður fluttur á íslensku og er öllum opinn.

—o—