Fyrirlestrar Miðaldastofu

Brynja Þorgeirsdóttir

Tilfinningaorð í Njáls sögu og Egils sögu

Gerð orðasafns og greining

Fimmtudaginn 18. nóvember 2021 kl. 16.30
Lögbergi 101

Brynja Þorgeirsdóttir

Íslendingasögur eru alræmdar fyrir stíl sem virðist fáorður um tilfinningar og hefur frásagnarmáta þeirra stundum verið lýst sem tilfinningalega köldum. Vissulega er persónum sagnanna og atburðum jafnan lýst utan frá og tilfinningaleg líðan persónanna er oft aðeins gefin í skyn með gjörðum þeirra og látbragði, líkamlegum viðbrögðum og óbeinum frásagnartæknilegum aðferðum.

Samt sem áður er vissulega að finna orð yfir tilfinningar í Íslendingasögunum. Hins vegar hefur lítt verið rannsakað hvaða hlutverki þessi orð gegna við miðlun tilfinninga í sögunum: hvaða orð eru notuð, af hverjum, í hvaða samhengi og hvaða gjörðir og atburðir fylgja. Þó að fræðimenn hafi haldið því fram að orðaforði sagnanna um tilfinningar sé fátæklegur (Kirsten Wolf 2014; William Miller 1992) hafa tilfinningaorð sagnanna ekki verið rannsökuð heildstætt.

Í þessari framsögu mun ég leggja fram safn þeirra tilfinningaorða sem finna má í tveimur af lengstu Íslendingasögunum, Egils sögu og Njáls sögu, og ræða gildi þeirra og virkni í verkunum tveimur. Ég mun ræða aðferð mína við söfnun orðanna úr textunum og álitamál við hana, svo sem hvernig mögulegt er að nálgast skilgreiningu á því hvað telst tilfinningaorð og þær gildrur sem geta falist í menningarlegri hlutdrægni við val á orðum. Orðasöfnunin fól einnig í sér skráningu á mælanda orðsins, sjónarhorni, kyni, félagslegri stöðu, aðstæðum og þeim gjörðum sem fylgja í textanum. Með þessari aðferð afhjúpuðust frásagnarmynstur og formúlur fyrir miðlun tilfinninga í textanum, svo sem hvernig mismunandi tilfinningar og ólík orð fylgja kyni, stöðu og tilteknum persónum. Þannig er tilfinningum kvenna frekar en karla lýst með orðum sem vísa til stjórnleysis. Enn fremur var hægt að bera kennsl á nokkur athyglisverð frávik, svo sem hvernig ýtt er undir konunglega drætti í persónu Gunnars á Hlíðarenda með orðavali um tilfinningar hans.

Niðurstöðurnar sýna að þvert á það sem haldið hefur verið fram er breiðan orðaforða um tilfinningar að finna í Egils sögu og Njáls sögu. Orðunum er beitt kerfisbundið, nákvæmlega og markvisst við persónusköpun og í þágu listrænna séreinkenna verkanna.

Brynja Þorgeirsdóttir lauk doktorsprófi í norrænum fornbókmenntum frá háskólanum í Cambridge vorið 2020. Doktorsritgerð hennar fjallar um tilfinningatjáningu í Njáls sögu og Egils sögu. Hún starfar nú við Cambridge háskóla við kennslu og rannsóknir á sambandi lauss máls og bundins í Íslendingasögum, í samstarfsverkefninu The Íslendingasögur as Prosimetrum.

Fyrirlesturinn verður fluttur á íslensku með stuðningsefni á ensku og er öllum opinn (á meðan húsrúm leyfir; hámark 50 manns; grímuskylda).

Streymi: https://eu01web.zoom.us/j/62199315953

Glærur Brynju.

—o—