Fyrirlestrar Miðaldastofu

Ásgeir Jónsson

Efnahagsmál á landnámsöld

Fimmtudaginn 9. desember 2021 kl. 16.30 — FRESTAÐ
Lögbergi 101

Ásgeir Jónsson

Landnámabók geymir fjölskyldusögur 430 landnámsmanna, bæði karla og kvenna. Sumar eru sorglegar, aðrar ævintýralegar en allar fullar af von um nýtt líf. Hér er gerð tilraun til að fella þessar mörgu litlu sögur saman í eina stóra sögu í samhengi við aðrar heimildir, líkt og írska, skoska og enska annála. Og erlendar sagnfræðirannsóknir. Þrátt fyrir ýkjur og missagnir mynda landnámssögurnar einn frásagnarkjarna sem er í góðu samhengi við hagsögu evrópskra miðalda.

Nýútkomin bók Ásgeirs Eyjan hans Ingólfs er skrifuð sem fjölskyldusaga Ingólfs landnámsmanns í Reykjavík sem er með öðrum þræði saga Íslands. Ingólfur átti stóra fjölskyldu sem bjó bæði í Noregi og á Suðureyjum. Flest ættmenni hans á Írlandshafi höfðu tekið kristni og samlagast keltnesku samfélagi. En ófriður kippti undan þeim fótunum. Þau héldu til Íslands og námu um þriðjung ræktanlegs lands. Þessi frændgarður lagði síðan grunn að þinghaldi, stofnun Alþings, skipulagi goðorða og svo biskupsstól í Skálholti. Efnahagsáhersla bókarinnar er tvíþætt:

Í fyrsta lagi er fjallað um efnahagslegan drifkraft landnámsins í tengslum við breytingar í alþjóðaverslun á tímum víkingaferðanna. Flestir landnámsmenn voru upprunnir af Norðurveginum – hinni 1000 km strandlengju norðvestur Noregs sem um aldir var hlið meginlands Evrópu til heimskautasvæðanna. Úthafssiglingar Norðmanna til Bretlandseyja komu utanríkisverslun Norðurlanda í uppnám og komu af stað verslunarstríði sem hefur verið kennd við Harald hárfagra. Þá er hugað að tengslum Íslands við stærsta þrælamarkað í Evrópu í Dyflinni.

Í öðru lagi fjallað um hagræna þróun og stofnanauppbyggingu í nýju landi. Ljóst er að upphafleg lýsing eignarréttar á landi, hafði gríðarleg áhrif á dreifingu eigna og síðar skulda í hinu nýja ríki. Landnámssættirnar virðast þó hafa kosið fremur að selja land en leigja það áfram og þá frekar lána fyrir kaupunum. Kannski stafaði það af því hve peningalán báru háa vexti, veðtaka var auðveld samkvæmt lögum og framfylgd eignarréttar var skýr. Þannig skilaði landnámsöldin héruðum er voru skipuð sjálfseignarbændum en ekki leiguliðum. Þessi fjölmenna stétt sjálfseignarbænda varð síðan grundvöllur að goðorðum þar sem þingmönnum var raunverulega frjálst að velja sér goða til að fylgja án þess að vera háðir neinum leigudrottni.

Ásgeir Jónsson lauk BS- próf í hagfræði frá Háskóla Íslands 1990 þar sem BS-ritgerð hans fjallaði um hagkerfi Íslands á tímum frjálsrar alþjóðaverslunar árunum 1400-1600. Hann lauk síðan doktorsprófi í peningahagfræði og hagsögu frá Indiana University árið 2001 þar sem yfirskrift doktorsritgerðar hans var Short-term Stabilization in Small Open Economies. Ásgeir hóf störf á Hagfræðistofnun árið 2001, varð lektor við Hagfræðideild Háskóla Íslands árið 2004 og síðar dósent. Hann var deildarforseti Hagfræðideildar Háskóla Íslands 2015-2019, umsjónarmaður námslínu í meistaranámi í fjármálahagfræði og fjármálafræði frá 2006. Ásgeir hefur á ferli sínum ritað fjölda fræðilegra greina og bóka um peningamál, hagsögu og efnahagsmál. Hann er nú í leyfi frá Háskóla Íslands og sinnir starfi seðlabankastjóra.

Fyrirlesturinn verður fluttur á íslensku og er öllum opin á meðan húsrúm leyfir; hámark 50 manns; grímuskylda.