Centre for Medieval Studies Lecture Series

Úlfar Bragason

Sturla Þórðarson — minni og frásögn

Thursday, January 13, 2022, at 16.30
Lögberg 101

Úlfar Bragason

Margt hefur verið rætt og ritað um uppruna Íslendinga sagna síðustu hundrað árin eða svo og sýnst sitt hverjum. Færra hefur verið skrifað um hvernig samtíðarsögur urðu til. Samt ætti að vera auðveldara að átta sig á því þar sem þær voru líklega flestar ritaðar á innan við hundrað árum frá því atburðir þeirra áttu eða eiga að hafa átt sér stað.

Íslendinga saga er hryggjarstykkið í Sturlungusamsteypunni þótt fræðimenn hafi greint á um hversu langt sagan nær og hvaða hluta samsteypunnar megi telja til hennar. Í greinargerð samsteypuritstjórans með verki sínu segir að Sturla skáld Þórðarson hafi sagt fyrir Íslendinga sögur (flt). Um heimildir Sturlu að frásögn sinni segir ritstjórinn: „hafði hann þar til vísindi af fróðum mönnum, þeim er voru á öndverðum dögum hans, en sumt eptir bréfum þeim er þeir rituðu er þeim voru samtíða er sögurnar eru frá. Marga hluti mátti hann sjálfr sjá, þá er á hans dögum gerðust til stórtíðinda.“ Nú vitum við ekki hvers vegna ritstjórinn talar um Íslendinga sögur í fleirtölu þótt ef til vill megi fara nærri um það. Við vitum heldur ekki hvað fólst í notkun hans á orðinu „bréf“ í sambandi við heimildir Sturlu. Þar fyrir utan getum við aðeins nálgast minningar Sturlu og heimildarmanna hans í frásögninni sjálfri.

Í fyrirlestrinum verður fjallað um heimildir Íslendinga sögu og hvað megi marka af greinargerð samsteypuritstjórans hvernig samtíðarsögur urðu til. Hverjir gætu hafa verið heimildarmenn Sturlu? Hverju mundu þeir eftir eða hvers konar frásagnir hefur sagan eftir þeim? Hverju er sleppt eða gleymt? Hvernig voru þessar frásagnir varðveittar og hversu traustar eru þær?

Úlfar Bragason er rannsóknarprófessor emeritus við Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum. Rannsóknir Úlfars hafa beinst að íslenskum miðaldabókmenntum, einkum samtíðarsögum, og flutningum Íslendinga til Vesturheims á 19. öld. Hann er höfundur bókarinnar Reykjaholt Revisited: Representing Snorri in Sturla Þórðarson’s Íslendinga saga sem kemur út um þessar mundir hjá Árnastofnun.

The talk will be delivered in Icelandic. All are welcome to attend. Maximum seating capacity 23; 1 meter social distancing; masks mandatory.

Streymi: https://eu01web.zoom.us/j/67914534131