Klausturmenning á Íslandi og Norðurlöndum á miðöldum

Guðbjörg Kristjánsdóttir

Bókagerð í klaustri: Samstarf teiknara og skrifara

Fimmtudaginn 20. mars 2014 kl. 16.30
Árnagarði 311

Guðbjörg Kristjánsdóttir
Guðbjörg Kristjánsdóttir

Í Stjórnarhandritinu AM 227 fol. frá miðri fjórtándu öld eru íslenskar þýðingar nokkurra bóka Gamla testamentisins. Handritið er fagurlega lýst. Átta síður eru skreyttar sögu­stöfum og spássíumyndum og efni þeirra er jafnan tengt textanum að einhverju marki. Auk stóru sögustafanna eru flestar síður handritsins skreyttar smærri upphafsstöfum við kaflaskipti. Á þeim má greina hand­bragð þriggja teiknara. Á Stjórnarhandritinu eru tvær skrifarahendur, A og B. A-höndin er þekkt í tólf handritum og handritahlutum og greinilegt að þessi handrit hafa orðið til fyrir samstarf allmargra manna. Verka­skipting af því tagi sem sjá má í handritum með A-hendi Stjórnar bendir til að þau séu upprunnin á ritstofu þar sem bókagerð var umtalsverð. Það sem vitað er um feril með A-hendi Stjórnar bendir til norðlensks uppruna og sterkar líkur benda til að handritið hafi verið skrifað í Þingeyraklaustri. Í fyrirlestrinum verður fjallað um skreytta upphafsstafi í handritum með A-hendi Stjórnar, stafgerð og handbragð einstakra teiknara í því skyni að varpa ljósi á bókagerð á ákveðnu svæði.

Guðbjörg Kristjánsdóttir er listfræðingur frá Sorbonne-háskóla í París. Hún hefur rannsakað bæði íslenska myndlist á 20. öld og íslenska miðaldalist en þar ber hæst rannsóknir hennar á Íslensku teiknibókinni, handriti frá 1350-1500 með myndefni sem listamenn miðalda nýttu sér við myndskreytingar handrita, og hlaut Guðbjörg íslensku bókmenntaverðlaunin 2014 fyrir bók sína um Íslensku teiknibókina. Guðbjörg hefur verið forstöðumaður Gerðarsafns frá stofnun safnsins 1994.