Klausturmenning á Íslandi og Norðurlöndum á miðöldum

14. nóvember 2013

Guðlaugur Rúnar Guðmundsson

Skólastarf í íslenskum klaustrum

Gudlaugur Runar Gudmundsson
Guðlaugur Rúnar Guðmundsson

Sigur kristindóms í Evrópu leiddi til mikilla þáttaskila. Kirkjan tók að sér uppeldis- og skólamál. Klausturskólar, dómskólar og síðar háskólar risu upp til styrktar kristnum heimi. Tengsl hins lenda manns í Noregi, Gissurar hvíta, máttu sín mikils og honum tókst að senda Ísleif son sinn í klausturskólann í Herford (Herfurðu) í Saxlandi þar sem væntanlegir höfðingjar hins nýja siðar lærðu fræðin. Ísleifur Gissurarson og Rúðólfur (Hróðólfur) biskup eru komnir til landsins árið 1030, m.a. með karlungaletrið og septem artes liberales skólakerfið.  Rúðólfur stofnar klaustur í Bæ í Borgarfirði og starfar þar um 20 ár (1030–1049) og Ísleifur sest að í Skálholti. Ísleifur var vígður biskup 1056. Þá er hann þegar búinn að undirbúa fyrstu kynslóð presta í landinu.

Upphaf skólastarfs á Íslandi má rekja til fyrirkomulags ytri skóla (schola exterior) klaustursins í Herford. Þar lærðu brautryðjendurnir, Ísleifur og Gissur fræðin og þær aðferðir sem kaþólska kirkjan tók upp til að festa sig í sessi og ætlaðar voru þeim höfðingasonum sem áttu að taka við eftir sigur kristninnar. Rætur skólastarfsins í íslensku klaustrunum má að mestu rekja til Þýskalands þótt ensk áhrif væru áberandi á fyrstu árum elleftu aldar. Menntun yfirstéttarinnar á Íslandi á 11. öld og allt fram að siðskiptum tengist beint klaustrum og dómskólum Evrópu.

Karl mikli keisari hins heilaga rómverska ríkis hafði mælt svo fyrir um 789 að í hverju biskupsdæmi og í hverju klaustri skyldu kenndir Davíðssálmar, nótnalestur, söngur, reikningslist og málfræði. Skólastarfið innan íslensku klaustranna áttu einna drýgstan þátt í þeirri menningarbyltingu sem hófst á Íslandi á 11. öld og þar vegur kennslan og iðkun fræðanna, bæði í ytri og innri skólum klaustranna, einna þyngst.

Guðlaugur Rúnar Guðmundsson er sjálfstætt starfandi sagnfræðingur. Rannsóknir hans lúta einkum að skólasögu fyrri alda á Íslandi og nafnfræði höfuðborgarsvæðisins.