Strengleikar

Þórgunnur Snædal

Þúsund ár á 35 mínútum

Um sögu og þróun rúnaletursins á Íslandi 900–1900

Fimmtudaginn 16. október 2014 kl. 16.30
Árnagarði 201

Þórgunnur Snædal
Þórgunnur Snædal

Fyrirlesturinn fjallar um 1000 ára sögu rúnaletursins á Íslandi. Enginn vafi leikur á um að rúnir voru í notkun frá upphafi landnáms, enda sennilega í daglegri notkun í Noregi á þessum tíma. Í Noregi lagðist rúnanotkun að mestu af á 16. öld en hér á landi héldu menn áfram að nota rúnir eða afbrigði af rúnaletrinu langt fram á 19. öld og safna og skrifa upp ýmsan fróðleik um rúnir. Í þessu 1000 ára ferli þróaðist og breyttist rúnaletrið að sjálfsögðu og einnig hvenær og hvernig þær voru ristar eða höggnar, á kefli, stein, málm og annað. Á fyrstu öldum Íslandsbyggðar er algengast að finna rúnaristur á gripum, en um 1300 er farið að höggva rúnir á legsteina, líklega að norskri fyrirmynd. Elstu þekktu skrif um rúnir hér á landi eru frá því um 1500, en þegar líða tekur á aldirnar verða þau stöðugt algengari, yfir 100 handrit þess efnis, þau yngstu frá því um 1900, eru varðveitt í handritadeild Landsbókasafns og víðar. Þegar kemur fram á 16. öld verða ristur á gripum algengari og tölvert safn af lárum, trafakeflum, prjónastokkum, að ógleymdum Grundarstólnum frá 1551, er varðveitt í Þjóðminjasafni og víðar.

Þórgunnur Snædal nam norræn fræði við Stokkhólmsháskóla og lauk doktorsprófi 2002 frá Uppsalaháskóla. Þórgunnur starfaði í nærri 37 ár við Riksantikvarieämbetet í Svíþjóð þar sem hún hafði umsjón með hinum fjölmörgu sænsku rúnaristum. Í mörg ár hefur hún rannsakað notkun rúna á Íslandi og birt greinar um þær, m.a. í Árbók Hins íslenzka fornleifafélags.