Strengleikar

Hildur Gestsdóttir

Fjölskyldan á Hofstöðum

Fornleifafræðileg rannsókn á kirkjugarði

Fimmtudaginn 5. nóvember 2015 kl. 16.30
Öskju 132

Hildur Gestsdóttir
Hildur Gestsdóttir

Sumarið 2015 lauk tíu ára fornleifauppgrefti á kirkjugarðinum á Hofstöðum í Mývatnssveit. Á þeim tíma voru grafnar upp leifar a.m.k. tveggja kirkna auk 170 grafa sem tímasettar eru frá seinni hluta 10. aldar og fram á 13. öld. Í erindinu verður farið yfir sögu rannsóknarinnar og sagt frá fyrstu niðurstöðum. Einnig verður fjallað um næstu skref í rannsókninni en fram undan er mikil úrvinnsla.

Stærsti þátturinn í því verki er rannsókn á mannabeinasafninu, stórsæjar fornmeinafræðilegar rannsóknir, auk ísótópa- og aDNA-greininga, og verður fjallað um möguleikana sem slíkar rannsóknir veita. Í doktorsrannsókn minni — þar sem ég skoðaði slitgigt í fornum beinasöfnum, þar með talið á hluta beinagrindasafnsins frá Hofstöðum — kom í ljós að mjög margir þeirra sem grafnir eru í kirkjugarðinum væru líklega líffræðilega skyldir. Er markmiðið í rannsókninni því meðal annars að svara spurningunni hvernig við getum fjallað um fjölskylduna innan fornleifafræðinnar út frá rannsóknum á fornum mannabeinum, en fram að þessu hefur hugtakið fjölskylda ekki fengið mikla athygli innan fornleifafræðinnar.

Hildur Gestsdóttir er með doktorsgráðu í fornleifafræði frá Háskóla Íslands en hún starfar núna sem verkefnastjóri á Fornleifastofnun Íslands. Sérgrein hennar er mannabeinarannsóknir en síðustu árin hefur helsta rannsóknarverkefni hennar verið uppgröfturinn á kirkjugarðinum á Hofstöðum í Mývatnssveit.