Sturlungaöld

torfivesteinn

3. mars 2016

Torfi Tulinius

Áföll, minningar og skáldskapur

Um samband ofbeldis og sagnaritunar á Sturlungaöld

Fimmtudaginn 3. mars 2016 kl. 16:30

Askja 132

Torfi H Tulinius 2Í erindi mínu mun ég leitast við að varpa ljósi á það hvernig stormasöm samtíð höfunda Íslendingasagna hafði áhrif á sagnaritun þeirra. Fræðileg hugtök verða sótt til minnis- og áfallafræða, ekki síst þeirra sem vinna úr arfleifð Freuds. Dæmin verða meðal annars tekin úr Brennu-Njáls sögu og Íslendingasögu Sturlu Þórðarsonar.

 

Torfi H. Tulinius er prófessor í íslenskum miðaldafræðum við Íslensku- og menningardeild Háskóla Íslands. Í rannsóknum sínum hefur Torfi fengist við franskar miðalda- og nútímabókmenntir, en einkum þó við íslenskar miðaldabókmenntir, sem hann leitast við að skilja út frá því samfélagi sem ól þær af sér og með aðstoð ýmiss konar fræðikenninga. Hann hefur ritað tvær bækur um efnið, aðra um fornaldarsögur Norðurlanda (The Matter of the North. The Rise of Literary Fiction in Thirteenty Century Iceland, 2002) og hina um Egils sögu (Skáldið í skriftinni. Snorri Sturluson og Egils saga, 2004).

—o—

3. mars 2016

Vésteinn Ólason

Enn um Íslendingasögur og Sturlungaöld

Fimmtudaginn 3. mars 2016 kl. 16:30

Askja 132

vesteinnÍ umræðunni um upphaf og aldur Íslendingasagna er stundum farið nokkuð hratt yfir sögu og ályktanir á köflum byggðar á veikum grunni. Í fyrirlestrinum verður fyrst rætt stuttlega um aðferðafræði sögulegra rannsókna á sviðum þar sönnunum verður ekki við komið. Þá verður vikið að textafræðilegum rökum fyrir því að allmargar sögur hafi verið skrifaðar á 13. öld. Síðan verður fjallað um almennari rök sem beitt hefur verið til að setja fram tilgátu um upphaf og þróun Íslendingasagna og lúta einkum að rótum sagnaritunarinnar í þjóðfélagsgerð og þjóðfélagsaðstæðum. Bent verður á almennar líkur til þess að upphaf og  blómaskeið ritunar Íslendingasagna sé á 13. öld og eigi rætur í þeim breytingum sem þá voru að verða á samfélaginu. Þetta er ekki ný tilgáta, en þeir sem hafna henni þurfa að hrekja forsendur hennar og setja fram aðra betur rökstudda.

 

Vésteinn Ólason er prófessor emeritus við Háskóla Íslands og fyrrverandi forstöðumaður Árnastofnunar. Helstu rannsóknasvið hans eru sagnadansar og íslenskar miðaldabókmenntir, einkum Íslendingasögur og eddukvæði. Meðal rita hans má nefna Samræður við söguöld. Frásagnarlist Íslendingasagna og fortíðamynd, 1998, og Eddukvæði I-II, útg. ásamt Jónasi Kristjánssyni, 2014.