Sturlungaöld

05 Sturlunga Gudlaugur og Helgi Skuli.002

Guðlaugur Rúnar Guðmundsson

Fræðsla og skólastarf á Íslandi á Sturlungaöld

Fimmtudaginn 26. nóvember 2015 kl. 16.30
Öskju 132

Gudlaugur Runar Gudmundsson
Guðlaugur Rúnar Guðmundsson

Fræðsla á Íslandi fyrir árið þúsund snerist mest um þá þekkingu sem þurfti að vera fyrir hendi til að halda uppi lagaríki. Fræðslustarfið var að mestu munnlegt og gengu embætti, sem lagakunnáttu þurfti til að sinna, oftast í arf til niðja goðanna sem sáu um að viðhalda og stjórna regluveldinu. Með innleiðingu hinnar karólínsku endurreisnar og menningarbyltingar kaþólsku kirkjunnar á Íslandi á 11. öld fékk íslensk höfðingjastétt einstakt tækifæri til að tileinka sér fræðslukerfi sem miðaði að því treysta vald og stöðu þeirra höfðingja sem skyldu taka við af goðunum. Fræðslukerfi kirkjunnar átti sér rætur í hámenningu Rómverja og Grikkja og kippti þeim höfðingjasonum, sem fyrstir urðu þeirrar náðar aðnjótandi að læra til prests, inn í mennta- og fræðsluheim kaþólsku kirkjunnar.

Lénskt furstaveldi miðalda, byggt á kristnum gildum, átti sér blómaskeið á 13. öld í Norður-Evrópu. Svo virðist sem þessi menningarbylting hafi verið í mestum blóma hér á landi á Sturlungaöld þegar valdabarátta höfðingjanna stóð sem hæst. Fjölbreytni var mikil í fræðslu- og skólastarfi á Sturlungaöld. Einkaskólar blómstruðu og flestir þeirra höfðu það hlutverk að búa menn undir prestsnám sem fór aðallega fram í klaustrum og dómskólum. Má einkum nefna einkaskólana í Haukadal, Odda, Reykholti og Stafholti. Sambærilegir skólar í Norður-Evrópu á 13. öld voru nefndir hirðskólar. Vígslustig, tíðasöngur og verkleg fræðsla mótuðu námið í klausturskólunum. Í dómskólunum í Skálholti og á Hólum fór fram hið hefðbundna nám til prests og fræðslukerfi hinn sjö frjálsu lista var ráðandi.

Guðlaugur Rúnar Guðmundsson er sjálfstætt starfandi sagnfræðingur. Rannsóknir hans lúta einkum að skólasögu fyrri alda á Íslandi og nafnfræði höfuðborgarsvæðisins.

—o—

Helgi Skúli Kjartansson

Hver gekk í skóla á Sturlungaöld?

Fimmtudaginn 26. nóvember 2015 kl. 16.30
Öskju 132

Helgi Skuli Kjartansson
Helgi Skúli Kjartansson

Á Sturlungaöld sjálfri segja heimildir fátt um skóla á Íslandi, þó einum bregði fyrir í Stafholti. Meginheimildir um skólasögu miðalda eru biskupasögur, einkum þó um 12. öld og aftur kringum 1300, og má hugsa sér þróunarlínu þar á milli. En varast ber að lesa of mikið í frásagnir þeirra, hvað þá að telja það sjálfgefið að biskupsstólum hafi alla tíð fylgt prestaskóli (sbr meint afmælisár stólskólanna 2006). Hin fjölmenna prestastétt miðalda hefur að miklu leyti aflað sér menntunar í læri hjá starfandi prestum, í eins konar „meistarakerfi“ sem hefur verið miðaldamönnum nærtækt. Skólahald biskupa með launuðum kennurum hefur verið stopult fremur en samfellt, stefnt að því að tryggja biskupi aðgang að fámennum kjarna vel menntaðra klerka. Menntun bókhneigðra pilta — og hugsanlega stúlkna — af vel megandi heimilum hefur líka að takmörkuðu leyti fengið form sem kalla mætti skólahald. Jafnvel eftir siðaskipti, þegar prestaskólahald verður sjálfsagt og varanlegt, má sjá sveiflur í jafnvæginu milli heimamenntunar og skólagöngu sem gefa vísbendingu um gang mála á miðöldum.

Helgi Skúli Kjartansson er cand.mag. í sagnfræði frá Háskóla Íslands, nú prófessor (í hlutastarfi) við Menntavísindasvið Háskóla Íslands og doktorsnemi í íslenskum bókmenntum (fornri bragfræði) við sama skóla. Rannsóknir hans tengjast ýmsum sviðum Íslandssögu og íslenskra fræða, m.a. Grágás og fleiri fornmálstextum.