Monthly Archives: November 2015

The Age of the Sturlungs

06 Sturlunga Gudrun og Gudvardur.002

Guðrún Harðardóttir

Stofur á Sturlungaöld

Stofur og notkun þeirra út frá vitnisburði Sturlungu og biskupasagna

Fimmtudaginn 10. desember 2015 kl. 16.30
Öskju 132

Gudrun Hardardottir
Guðrún Harðardóttir

Í frásögnum eins og í Sturlungusafninu og biskupasögum er bakgrunnurinn jafnáhugaverður og framvinda sagnanna. Þar kemur fram mikilvæg innsýn í híbýli og lifnaðarhætti samtímans.

Í þessum fyrirlestri er ætlunin að skoða sérstaklega hvernig stofur birtast í frásögnum Sturlungu og biskupasagna. Vegna eðlis miðilsins eru einkum möguleikar á að skoða notkun þessara rýma en minna er um upplýsingar um byggingarlag. Í sumum tilvikum má þó ráða einhverjar upplýsingar um innréttingar, svo sem í frásögninni um Flugumýrarbrennu. Þar sem eitthvað má ráða af sögunum um byggingarlag verður það dregið fram sérstaklega.

Athugaðar verða mismunandi gerðir stofu, svo sem litlu stofur, biskupsstofur, ábótastofur og almannastofur, svo einhver dæmi séu nefnd. Meginmarkmið fyrirlestursins verður einkum að draga stofugerðirnar fram og kynna fjölbreytnina. Einnig að greina hugsanlegan notkunarmun eftir því um hvers konar stofu er að ræða. Notkun höfðingja á litlu stofum verður skoðuð sérstaklega og kannað verður á hvers konar bæjum slíkar stofur eru nefndar og hvað fer fram í þeim.

Reynt verður eftir föngum að bera þetta íslenska efni saman við það sem þekkt er um stofur í Noregi og notkun þeirra. M.a. verður horft til veislusiða norsku hirðarinnar í því efni. Einnig verða borin saman íslensku og norsku stofuhugtökin.

Guðrún Harðardóttir er sérfræðingur við húsasafn Þjóðminjasafns Íslands. Rannsóknir hennar lúta einkum að kirkjubyggingum miðalda og ýmsum öðrum þáttum byggingararfsins.

—o—

Guðvarður Már Gunnlaugsson

Handrit og skrift á Sturlungaöld

Fimmtudaginn 10. desember 2015 kl. 16.30
Öskju 132

GMG
Guðvarður Már Gunnlaugsson

Fyrsta málfræðiritgerðin er talin vera samin um miðja 12. öld. Höfundur hennar nefnir lög, áttvísi þýðingar helgar og þau hin spaklegu fræði, er Ari Þorgilsson hafi á bækur sett af skynsamlegu viti, sem dæmi um bókmenntir sem voru til á hans dögum.

Í Hungurvöku og Jóns sögu helga eru nefndir nokkrir góðir ritarar svo sem Þorvarður knappur, Klængur biskup og Þorgeir prestur á Hólum. Í Heimskringlu er sagt frá því að Eiríkur Oddsson hafi ritið bók þá er Hryggjarstykki heitir og í Sturlungu segir frá því að Ingimundur Þorgeirsson prestur hafi þurrkað bækur sínar eftir að hafa misst bókakistu sína fyrir borð. Í máldögum eru bækur oft taldar upp meðal eigna kirkna en hver kirkja varð að eiga messubækur.

Í þessum fyrirlestri verður fjallað um heimildir um bókagerð, bréfaskriftir og bókmenntaiðkun á Íslandi frá 11. öld fram til loka Sturlungaaldar. Þessi menningarstarfsemi verður sett í samhengi við varðveitt íslensk handrit frá 12. og 13. öld — jafnt á norrænu sem latínu — fjölda þeirra og hvernig þau skiptast á milli bókmenntagreina. Sérstök áhersla verður lögð á hlutverk kirkjunnar í bókagerð.

Guðvarður Már Gunnlaugsson er handritafræðingur og rannsóknardósent við Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum. Rannsóknir hans lúta einkum að íslenskum handritum, aldri þeirra og uppruna, þróun skrifleturs á Íslandi og greiningu rithanda.

The Age of the Sturlungs

05 Sturlunga Gudlaugur og Helgi Skuli.002

Guðlaugur Rúnar Guðmundsson

Fræðsla og skólastarf á Íslandi á Sturlungaöld

Fimmtudaginn 26. nóvember 2015 kl. 16.30
Öskju 132

Gudlaugur Runar Gudmundsson
Guðlaugur Rúnar Guðmundsson

Fræðsla á Íslandi fyrir árið þúsund snerist mest um þá þekkingu sem þurfti að vera fyrir hendi til að halda uppi lagaríki. Fræðslustarfið var að mestu munnlegt og gengu embætti, sem lagakunnáttu þurfti til að sinna, oftast í arf til niðja goðanna sem sáu um að viðhalda og stjórna regluveldinu. Með innleiðingu hinnar karólínsku endurreisnar og menningarbyltingar kaþólsku kirkjunnar á Íslandi á 11. öld fékk íslensk höfðingjastétt einstakt tækifæri til að tileinka sér fræðslukerfi sem miðaði að því treysta vald og stöðu þeirra höfðingja sem skyldu taka við af goðunum. Fræðslukerfi kirkjunnar átti sér rætur í hámenningu Rómverja og Grikkja og kippti þeim höfðingjasonum, sem fyrstir urðu þeirrar náðar aðnjótandi að læra til prests, inn í mennta- og fræðsluheim kaþólsku kirkjunnar.

Lénskt furstaveldi miðalda, byggt á kristnum gildum, átti sér blómaskeið á 13. öld í Norður-Evrópu. Svo virðist sem þessi menningarbylting hafi verið í mestum blóma hér á landi á Sturlungaöld þegar valdabarátta höfðingjanna stóð sem hæst. Fjölbreytni var mikil í fræðslu- og skólastarfi á Sturlungaöld. Einkaskólar blómstruðu og flestir þeirra höfðu það hlutverk að búa menn undir prestsnám sem fór aðallega fram í klaustrum og dómskólum. Má einkum nefna einkaskólana í Haukadal, Odda, Reykholti og Stafholti. Sambærilegir skólar í Norður-Evrópu á 13. öld voru nefndir hirðskólar. Vígslustig, tíðasöngur og verkleg fræðsla mótuðu námið í klausturskólunum. Í dómskólunum í Skálholti og á Hólum fór fram hið hefðbundna nám til prests og fræðslukerfi hinn sjö frjálsu lista var ráðandi.

Guðlaugur Rúnar Guðmundsson er sjálfstætt starfandi sagnfræðingur. Rannsóknir hans lúta einkum að skólasögu fyrri alda á Íslandi og nafnfræði höfuðborgarsvæðisins.

—o—

Helgi Skúli Kjartansson

Hver gekk í skóla á Sturlungaöld?

Fimmtudaginn 26. nóvember 2015 kl. 16.30
Öskju 132

Helgi Skuli Kjartansson
Helgi Skúli Kjartansson

Á Sturlungaöld sjálfri segja heimildir fátt um skóla á Íslandi, þó einum bregði fyrir í Stafholti. Meginheimildir um skólasögu miðalda eru biskupasögur, einkum þó um 12. öld og aftur kringum 1300, og má hugsa sér þróunarlínu þar á milli. En varast ber að lesa of mikið í frásagnir þeirra, hvað þá að telja það sjálfgefið að biskupsstólum hafi alla tíð fylgt prestaskóli (sbr meint afmælisár stólskólanna 2006). Hin fjölmenna prestastétt miðalda hefur að miklu leyti aflað sér menntunar í læri hjá starfandi prestum, í eins konar „meistarakerfi“ sem hefur verið miðaldamönnum nærtækt. Skólahald biskupa með launuðum kennurum hefur verið stopult fremur en samfellt, stefnt að því að tryggja biskupi aðgang að fámennum kjarna vel menntaðra klerka. Menntun bókhneigðra pilta — og hugsanlega stúlkna — af vel megandi heimilum hefur líka að takmörkuðu leyti fengið form sem kalla mætti skólahald. Jafnvel eftir siðaskipti, þegar prestaskólahald verður sjálfsagt og varanlegt, má sjá sveiflur í jafnvæginu milli heimamenntunar og skólagöngu sem gefa vísbendingu um gang mála á miðöldum.

Helgi Skúli Kjartansson er cand.mag. í sagnfræði frá Háskóla Íslands, nú prófessor (í hlutastarfi) við Menntavísindasvið Háskóla Íslands og doktorsnemi í íslenskum bókmenntum (fornri bragfræði) við sama skóla. Rannsóknir hans tengjast ýmsum sviðum Íslandssögu og íslenskra fræða, m.a. Grágás og fleiri fornmálstextum.

Strengleikar

Alison Finlay

A Thing of Shreds and Patches

The Lacunae in Bjarnar saga Hítdœlakappa

Tuesday November 17, 2015, at 16.30
Oddi 101

Alison Finlay
Alison Finlay

Bjarnar saga Hítdœlakappa is not one of the best known of the Sagas of Icelanders, partly because of its poor state of preservation. It survives only in paper manuscripts of the seventeenth century and later, apart from two leaves from a fourteenth-century manuscript — enough to show that the surviving copies do not closely represent the medieval text. The verses are particularly garbled. More significantly, the beginning of the saga is missing; and there is a further lacuna, probably caused by the loss of a single manuscript leaf.

By good luck, we can substitute for the lost beginning of the saga an extract from it that was incorporated in Bæjarbók, an expanded fourteenth-century version of the Separate Saga of St Óláfr that drew on the saga for material about Icelanders visiting the Norwegian court. The first five chapters of the edited saga use this text, substituted for an unknown number of chapters in the original. There is no way of reconstructing the later lacuna.

This paper deals with the strategies used by editors and copyists to reconstruct the saga as far as possible, and considers what can be known or surmised about what we have lost. Bjarnar saga is one of the so-called poets’ sagas, which share the narrative of a quarrel between poets over the love of a woman. What can be deduced from comparison with the other sagas of this group, and with other Íslendingasögur? What does the substituted beginning of Bjarnar saga tell us about relationship between konungasögur and Íslendingasögur? The construction of the saga is haphazard in many ways: to what extent have the textual problems served as an alibi for this?

The lecture will be delivered in English.

Alison Finlay is Professor of Medieval English and Icelandic Literature at Birkbeck College, University of London. She has written on the poets’ sagas, edited skaldic poetry and translated many texts into English, most recently Heimskringla in collaboration with Anthony Faulkes. She is currently working on a translation of Sturlunga saga.

The Age of the Sturlungs

04 Sturlunga Hjalti og Arni.002

Hjalti Hugason

Guðmundur Arason — áhrifavaldur í aðdraganda Sturlungaaldar

Hjalti Hugason
Hjalti Hugason

Fimmtudaginn 12. nóvember 2015 kl. 16.30
Öskju 132

Guðmundur Arason Hólabiskup var umdeildur kirkjuleiðtogi og hefur löngum verið gagnrýndur í söguritun og sagnfræðirannsóknum. Guðmundur var mikilvægur áhrifavaldur í kirkjunni og samfélaginu við upphaf Sturlungaaldar.

Guðmundur virðist snemma hafa orðið andlegur leiðtogi fjölda fólks og áhrifamaður í kirkjunni víða um land en ekki aðeins í Hólabiskupsdæmi. Hlutverk hans í þessu efni er athyglisvert miðað við veika stöðu hans í upphafi prestsskapar en hann var prestur í rýrum þingum og mætti jafnvel andstöðu biskups. Sem heimilisprestur eins af helstu höfðingjum Norðlendinga styrktist staða hans og varð hann tvímælalaust áhrifamesti trúarleiðtogi landsins þegar fyrir biskupskjör sitt.

Biskupskjör Guðmundar braut í bága við ríkjandi hefð og fljótlega komst hann í mikla andstöðu við helstu stuðningsmenn sína. Stóðu deilur hans og höfðingja út biskupstíð hans. Þetta jók á þá ólgu sem einkenndi Sturlungaöldina og hefur því verið haldið fram að Guðmundur beri öðrum fremur ábyrgð á þeim atburðum sem urðu við lok hennar er landið komst undir erlend yfirráð. Óhætt er því að fullyrða að Guðmundur hafi verið einn af helstu áhrifavöldunum í íslensku samfélagi í aðdraganda og við upphaf Sturlungaldar.

Í fyrirlestrinum verður leitast við að gera grein fyrir helstu áhrifum Guðmundar á samtíð sína og skýra stefnumál hans, atferli og háttarlag. Beitt verður kirkjusögulegri aðferð, sem og persónusögulegri nálgun þar sem tekið er tillit til uppeldis og þroskaferlis Guðmundar. Leitast verður við að sýna fram á að persónuleg, traumatísk reynsla hans kunni að hafa valdið miklu um það „ofstæki“ sem honum hefur verið ætlað.

Hjalti Hugason lauk doktorsprófi í almennri og norrænni kirkjusögu frá Uppsalaháskóla 1983. Doktorsritgerð hans fjallaði um Bessastaðaskóla og íslensku prestastéttina 1805–1846. Hjalti er prófessor í kirkjusögu við Guðfræði- og trúarbragðafræðideild Háskóla Íslands. Hann var ritstjóri Kristni á Íslandi (Rvík 2000) og aðalhöfundur fyrsta bindis um kristnitökuna og upphaf kristni.

—o—

Árni Hjartarson

Guðmundur góði Arason og brunnar hans

Fimmtudaginn 12. nóvember 2015 kl. 16.30
Öskju 132

Árni Hjartarson
Árni Hjartarson

Guðmundur biskup Arason hefur verið nefndur þjóðardýrlingur Íslendinga. Til eru af honum fleiri kraftaverkasögur en nokkrum öðrum og gildir þá einu hvort um er að ræða fornritin eða þjóðsögur skráðar á seinni öldum. Örnefni tengd honum eru til um allt land jafnt á brunnum, lindum, laugum, lækjum, steinum, vöðum, hlíðum eða hálsum. Fyrirlesturinn fjallar um Gvendarbrunna og aðrar lindir og laugar, læki og vötn sem Guðmundur góði vígði eða á að hafa vígt. Alls er vitað um hátt í 230 Gvendarbrunna á landinu. Landfræðileg dreifing þeirra verður skoðuð og vatnafræðilegir þættir, s.s. uppkomustaðir, rennsli, hiti, nafngiftir o.fl. Einnig verður fjallað um þær kröfur sem menn gerðu til brunna varðandi vatnsgæði, aðkomu og aðra umhverfisþætti. Rætt verður um hvort Guðmundur hafi í raun vígt alla þessa brunna eða hvort þeim hafi haldið áfram að fjölga eftir hans dag. Guðmundur ferðaðist vítt og breitt um landið á langri og stormasamri ævi sinni ýmist sem vinsæll höfðingi og aufúsugestur hvar sem hann fór eða sem hrakningsmaður á flótta undan óvinum sínum og hvergi velkominn. En hvernig sem á stóð var hann ólatur við vatnsvígslur og yfirsöngva. Sýnd verða kort með farleiðum Guðmundar um landið og hvernig Gvendarbrunnar virðast víða varða þær leiðir. Að lokum verður getið um sögur og sagnir sem tengjast brunnunum og átrúnað sem enn helst á lækningamætti vatnsins.

Árni Hjartarson er jarðfræðingur með doktorspróf frá Hafnarháskóla. Hann sinnir kortagerð og rannsóknum á jarðhita og grunnvatni hjá Íslenskum orkurannsóknum. Hann er virkur í hagsmunasamtökum náttúrufræðinga og er formaður Hins íslenska náttúrufræðifélags. Hann hefur ritað bækur og greinar um fræði sín og fléttar oft saman jarðfræðirannsóknum og sagnfræði.

Strengleikar

Hildur Gestsdóttir

Fjölskyldan á Hofstöðum

Fornleifafræðileg rannsókn á kirkjugarði

Fimmtudaginn 5. nóvember 2015 kl. 16.30
Öskju 132

Hildur Gestsdóttir
Hildur Gestsdóttir

Sumarið 2015 lauk tíu ára fornleifauppgrefti á kirkjugarðinum á Hofstöðum í Mývatnssveit. Á þeim tíma voru grafnar upp leifar a.m.k. tveggja kirkna auk 170 grafa sem tímasettar eru frá seinni hluta 10. aldar og fram á 13. öld. Í erindinu verður farið yfir sögu rannsóknarinnar og sagt frá fyrstu niðurstöðum. Einnig verður fjallað um næstu skref í rannsókninni en fram undan er mikil úrvinnsla.

Stærsti þátturinn í því verki er rannsókn á mannabeinasafninu, stórsæjar fornmeinafræðilegar rannsóknir, auk ísótópa- og aDNA-greininga, og verður fjallað um möguleikana sem slíkar rannsóknir veita. Í doktorsrannsókn minni — þar sem ég skoðaði slitgigt í fornum beinasöfnum, þar með talið á hluta beinagrindasafnsins frá Hofstöðum — kom í ljós að mjög margir þeirra sem grafnir eru í kirkjugarðinum væru líklega líffræðilega skyldir. Er markmiðið í rannsókninni því meðal annars að svara spurningunni hvernig við getum fjallað um fjölskylduna innan fornleifafræðinnar út frá rannsóknum á fornum mannabeinum, en fram að þessu hefur hugtakið fjölskylda ekki fengið mikla athygli innan fornleifafræðinnar.

Hildur Gestsdóttir er með doktorsgráðu í fornleifafræði frá Háskóla Íslands en hún starfar núna sem verkefnastjóri á Fornleifastofnun Íslands. Sérgrein hennar er mannabeinarannsóknir en síðustu árin hefur helsta rannsóknarverkefni hennar verið uppgröfturinn á kirkjugarðinum á Hofstöðum í Mývatnssveit.