Strengleikar

Haukur Þorgeirsson

„En er haustaði …“

Stílfræðileg líkindi Egils sögu og Heimskringlu

Fimmtudaginn 9. apríl 2015 kl. 16.30
Oddi 101

Haukur Þorgeirsson
Haukur Þorgeirsson

Fræðimaðurinn Peter Hallberg gerði ítarlegan stílfræðilegan samanburð á fjölmörgum forníslenskum bókmenntaverkum. Ein niðurstaða hans var að mjög náin líkindi væru með Heimskringlu og Egils sögu og taldi hann allar líkur til að sami höfundur hafi samið bæði verkin.

Margir hafa tekið undir niðurstöður Hallbergs en gagnrýnisraddir hafa einnig komið fram, ekki síst síðustu ár. Jonna Louis-Jensen hefur fært rök gegn kenningum Hallbergs um Snorra Sturluson og rökstyður hún meðal annars að Heimskringla sé ekki öll verk eins höfundar. Sigurjón Páll Ísaksson hefur einnig tekið höfundarverk Snorra til endurskoðunar. Hann túlkar samband Heimskringlu við Ólafs sögu hina sérstöku á annan hátt en viðteknast hefur verið. Einnig hefur Sigurjón gert því skóna að Snorri eigi hlut í fleiri konungasögum. Þriðji fræðimaðurinn sem sett hefur fram róttækar hugmyndir um samband konungasagnanna er Alan J. Berger. Hann hefur rökstutt að Heimskringla sé stytt útgáfa af texta líkum þeim sem varðveittur er í handritunum Huldu og Hrokkinskinnu.

Í erindinu bregst Haukur við þessum nýju hugmyndum og metur röksemdirnar. Hann kynnir einnig eigin rannsóknir á stílfræðilegum einkennum textanna sem um ræðir. Tölvutæknin auðveldar mjög samanburð af því tagi sem Hallberg fékkst við en þær niðurstöður sem þannig fást verða aldrei traustari en hin textafræðilega undirstaða. Jafnframt er því nauðsynlegt að athuga gaumgæfilega handritageymd þeirra texta sem skoðaðir eru.

Haukur Þorgeirsson lauk doktorsprófi í íslenskri málfræði 2013 og gegnir nú starfi rannsóknarlektors við handritasvið Stofnunar Árna Magnússonar. Hann fæst við rannsóknir á málfræði, bragfræði, stílfræði og textafræði.