Klausturmenning á Íslandi og Norðurlöndum á miðöldum

Fyrirlestraröð Miðaldastofu 2013–2014

Miðaldastofa gengst í vetur fyrir röð fyrirlestra um klausturmenningu á Íslandi og Norðurlöndum á miðöldum. Á Íslandi störfuðu níu klaustur fyrir siðaskipti (og stofnað var til nokkurra til viðbótar sem störfuðu skamma hríð), bæði af reglu Benedikts og Ágústínusar. Tvö þeirra voru nunnuklaustur en hin munkaklaustur. Þessar stofnanir voru miðstöðvar trúariðkunar en gegndu jafnframt ýmsum öðrum hlutverkum í samfélaginu, sem fræðasetur, miðstöðvar bókagerðar og sjúkrastofnanir, svo eitthvað sé nefnt. Þá voru klaustrin gátt ýmissa erlendra strauma inn í íslenskt samfélag, enda voru þau hluti af stærri klausturhreyfingu og áttu sér fyrirmyndir erlendis.

Fyrirlestrarnir fara fram í stofu 311 í Árnagarði í Háskóla Íslands og hefjast kl. 16.30 nema annað sé sérstaklega tekið fram. Fyrirlestrarnir eru að jafnaði á bilinu 35-40 mínútur og á eftir gefst kostur á umræðum.

Dagskrá fyrirlestraraðarinnar á pdf.

Allir eru velkomnir á meðan húsrúm leyfir.

— o —

3. október 2013

Albína Hulda Pálsdóttir

Vitnisburður dýrabeina um lífið í íslenskum klaustrum

Albína Hulda Pálsdóttir 1
Albína Hulda Pálsdóttir

Dýrabein hafa verið greind úr uppgröftrum á klaustrum á Skriðuklaustri, Kirkjubæjarklaustri og Viðey. En hvað geta dýrabein sagt okkur um lífið í klaustrunum, efnahag þeirra og trúariðkun? Er einhver munur á dýrabeinasöfnunum frá þessum þremur ólíku klaustrum? Er eitthvað sambærilegt við dýrabeinasöfn frá klaustrum í Evrópu frá sama tíma? Hvernig eru dýrabeinasöfn úr klaustrum ólík þeim sem finnast við uppgröft á hefðbundnum bæjum? Ýmislegt bendir til þess að sérhæft handverk t.d. hornútskurður, handritagerð og hannyrðir hafi farið fram í klaustrunum og þess má einnig sjá merki í dýrabeinasöfnunum. Öll nýttu klaustrin sér auðlindir hafsins í einhverjum mæli en fiskibein, bein úr selum, hvölum og sjófuglum fundust í uppgröftunum þremur. Teknar verða saman helstu niðurstöður dýrabeinagreininga úr íslenskum klaustrunum og hvað þær geta sagt okkur um daglegt líf klausturbúa.

Albína Hulda Pálsdóttir starfar sem dýrabeinafornleifafræðingur við Auðlindadeild Landbúnaðarháskóla Íslands og vinnur að rannsóknum á uppruna íslenskra búfjárstofna með aðferðum dýrabeinafornleifafræði og fornDNA.

— o —

17. október 2013

Sverrir Jakobsson

Frá Helgafellsklaustri til Stapaumboðs: Góss í íslensku og breiðfirsku samhengi

Sverrir Jakobsson

Flestar rannsóknir á eignarhaldi og stéttaskiptingu á Íslandi hafa beinst að því að skoða landið í heild og draga af því almennar niðurstöður. Með því glatast hins vegar vitund um héraðsbundinn mun. Hins vegar er ástæða til að rannsaka betur ólík form eignarhalds og atvinnuhátta á milli landsvæða. Einnig gefa staðbundnar rannsóknir möguleika á að fylgjast betur með þróun í einstökum héruðum þó að heimildir skorti um önnur héruð á sama tíma. Við Breiðafjörð var gósseign í vexti á 14. öld og í heimildum sést glögglega að einstaklingar og staðir á borð við Helgafellsklaustur leituðust við að koma sér upp safni jarðeigna á afmörkuðum svæði. Gósseign Helgafellsklausturs myndaðist þannig tiltölulega hratt á fáeinum áratugum skömmu eftir miðja 14. öld. Á 15. öld varð svo enn meiri samþjöppun jarðeigna og höfðingjar áttu þá miklar jarðeignir í mörgum héruðum. Til varð stétt landeigenda sem hafði iðulega allt landið undir og ríkti sú efnahagsskipan án mikilla breytinga fram á 18. öld. Mikil staðbundin jarðeign Helgafellsklausturs er hins vegar leif frá þróun 14. aldar þar sem eignir klaustursins voru mjög samþjappaðar á Snæfellsnesi. Á 16. öld urðu þessar eignir að Stapaumboði en höfðingjar gátu nýtt sér forræði yfir því til að öðlast sterka héraðsbundna stöðu við Breiðafjörðinn. Í fyrirlestrinum verður rætt hvaða máli eignir Helgafellsklausturs skiptu fyrir gang siðaskiptanna við Breiðafjörð og hvort tilvist Stapaumboðs á síðari öldum hafi mótast af þessum uppruna.

Sverrir Jakobsson er lektor í miðaldasögu við Háskóla Íslands. Hann hefur m.a. rannsakað heimsmynd og íslenskt þjóðerni, friðarviðleitni kirkjunnar og valdamiðstöðvar, m.a. í Breiðafirði.

— o —

31. október 2013

Elizabeth Walgenbach

Clerical Immunities in Icelandic Context

Johanna Olafsdottir
Elizabeth Walgenbach

This talk focuses on medieval cloisters in Iceland, and the clerics in them, from the perspective of legal history. I will concentrate on two interrelated issues: the legal protections against violence enjoyed by all clerics under canon law and the related protection of sanctuary within churches. In theory, by the high middle ages all clerics enjoyed legal protections from violence under canon law. One incurred automatic excommunication for assaulting a cleric. Moreover, all churches in the Christian west, again at least in theory, in addition to being spaces where bloodshed was strictly prohibited, provided sanctuary for accused criminals to seek refuge from secular justice and its punishments.

My lecture will examine some of the ways that we can see these rules being expressed (and flouted) in specific cases in Iceland, especially in the context of Icelandic monastic foundations. It will also provide an assessment of the evidence for the practice of sanctuary in Icelandic monasteries and churches in the medieval period. I will concentrate on the thirteenth and fourteenth centuries, connecting this evidence with more general trends and developments in canon law.

Elizabeth Walgenbach er doktorsnemi í sagnfræði við Yale-háskóla. Doktorsverkefni hennar fjallar um bannfæringu og útlegð á Íslandi og rannsóknir hennar lúta einkum að kristinrétti á Norðurlöndum.

— o —

14. nóvember 2013

Guðlaugur Rúnar Guðmundsson

Skólastarf í íslenskum klaustrum

Gudlaugur Runar Gudmundsson
Guðlaugur Rúnar Guðmundsson

Sigur kristindóms í Evrópu leiddi til mikilla þáttaskila. Kirkjan tók að sér uppeldis- og skólamál. Klausturskólar, dómskólar og síðar háskólar risu upp til styrktar kristnum heimi. Tengsl hins lenda manns í Noregi, Gissurar hvíta, máttu sín mikils og honum tókst að senda Ísleif son sinn í klausturskólann í Herford (Herfurðu) í Saxlandi þar sem væntanlegir höfðingjar hins nýja siðar lærðu fræðin. Ísleifur Gissurarson og Rúðólfur (Hróðólfur) biskup eru komnir til landsins árið 1030, m.a. með karlungaletrið og septem artes liberales skólakerfið.  Rúðólfur stofnar klaustur í Bæ í Borgarfirði og starfar þar um 20 ár (1030–1049) og Ísleifur sest að í Skálholti. Ísleifur var vígður biskup 1056. Þá er hann þegar búinn að undirbúa fyrstu kynslóð presta í landinu.

Upphaf skólastarfs á Íslandi má rekja til fyrirkomulags ytri skóla (schola exterior) klaustursins í Herford. Þar lærðu brautryðjendurnir, Ísleifur og Gissur fræðin og þær aðferðir sem kaþólska kirkjan tók upp til að festa sig í sessi og ætlaðar voru þeim höfðingasonum sem áttu að taka við eftir sigur kristninnar. Rætur skólastarfsins í íslensku klaustrunum má að mestu rekja til Þýskalands þótt ensk áhrif væru áberandi á fyrstu árum elleftu aldar. Menntun yfirstéttarinnar á Íslandi á 11. öld og allt fram að siðskiptum tengist beint klaustrum og dómskólum Evrópu.

Karl mikli keisari hins heilaga rómverska ríkis hafði mælt svo fyrir um 789 að í hverju biskupsdæmi og í hverju klaustri skyldu kenndir Davíðssálmar, nótnalestur, söngur, reikningslist og málfræði. Skólastarfið innan íslensku klaustranna áttu einna drýgstan þátt í þeirri menningarbyltingu sem hófst á Íslandi á 11. öld og þar vegur kennslan og iðkun fræðanna, bæði í ytri og innri skólum klaustranna, einna þyngst.

Guðlaugur Rúnar Guðmundsson er sjálfstætt starfandi sagnfræðingur. Rannsóknir hans lúta einkum að skólasögu fyrri alda á Íslandi og nafnfræði höfuðborgarsvæðisins.

— o —

28. nóvember 2013

Haraldur Bernharðsson

Norsk máláhrif og kirkja og klaustur á Íslandi

Haraldur Bernharðsson
Haraldur Bernharðsson

Á síðari hluta þrettándu aldar og á fjórtándu öld má sjá aukin norsk áhrif á stafsetningu og málfar í íslenskum handritum. Þessi áhrif haldast í hendur við aukin norsk áhrif á menningu og stjórnarfar hér á landi og verður að teljast líklegt að kirkja og klaustur hafi átt drjúgan þátt í þeim, meðal annars í gegnum norska biskupa og reglubræður hér á landi. Margt er óljóst um hve djúpt þessi norsku áhrif ristu. Margir þættir virðast hafa horfið furðuhratt á öndverðri fimmtándu öld en aðrir entust lengur. Norsk áhrif á skrift og stafsetningu hafa þó greinilega verið bæði útbreiddari og endingarbetri en norsk máláhrif, enda hafa kirkja og klaustur verið áhrifamiklar stofnarnir í kennslu og bókagerð. Hafi norsk skriftar- og ritvenja verið í hávegum höfð þar hefur hún haft mótandi áhrif á allan þorra þeirra er lærðu skrift og bókagerð á þrettándu og fjórtándu öld. Áhrif kirkju og klaustra á tungumálið hafa aftur á móti fyrst og fremst verið bundin við orðaforða en áhrif á kerfislega þætti í máli landsmanna hafa verið takmörkuð. Norsk máleinkenni í íslenskum handritum frá þrettándu og fjórtándu öld eru sjaldnast mjög regluleg og birtast jafnan við hlið samsvarandi íslenskra einkenna. Líklegt má því teljast að þessi norsku máleinkenni hafi haft takmarkaða fótfestu í mæltu máli og fyrst og fremst verið ritmálsviðmið sem skrifararnir leituðust við að fylgja.

Haraldur Bernharðsson er málfræðingur og dósent við Íslensku- og menningardeild Háskóla Íslands. Rannsóknir hans lúta einkum að íslenskri málsögu, meðal annars breytileika í íslensku máli á 14. öld.

— o —

12. desember 2013

Jón Viðar Sigurðsson

„Atburðr á Finnmǫrk“: Samvinna erkibiskups, biskupa og ábóta á Íslandi

Jon Vidar Sigurdsson
Jón Viðar Sigurðsson

Um 1360 réð prestur einn af Hálogalandi sig á skip með kaupmönnum sem sigldu til Finnmarkar. Þar upplifði hann kraftaverk. Presturinn skrifaði til erkibiskups í Niðarósi og greindi frá þessum atburði. Erkibiskup lét opinbera hann í dómkirkjunni. Einn af klerkum erkibiskups skrifaði síðan niður þessa atburði á latínu og sendi bréf til tveggja bræðra á Möðruvöllum. Þeir fóru með það til Einars Hafliðasonar, officialis við Hólakirkju, sem „sneri í norrænumál“. Í fyrirlestri mínum nota ég þessa frásögn til að fjalla um þýðingar á gögnum erkibiskups og ræða hvort íslensku biskupsstólarnir hafi gegnt hlutverki sem skjalaþýðendur hans.

Jón Viðar Sigurðsson er prófessor í sagnfræði við Oslóarháskóla. Rannsóknir hans lúta einkum að stjórnmála- og kirkjusögu á Íslandi og í Noregi á miðöldum.

— o —

9. janúar 2014

Guðrún Harðardóttir

Hvað segja innsiglin? Myndheimur íslenskra klausturinnsigla

Gudrun Hardardottir
Guðrún Harðardóttir

Innsigli voru mikilvægur þáttur í menningu miðalda og sem slík heimild um sjónmenningu þessa tíma. Ætla má að myndefni innsigla sé að stórum hluta táknrænt og í því felist einhver tjáning á sjálfsmynd eigenda þeirra. Í fyrirlestrinum verður sjónum beint að íslenskum klausturinnsiglum. Skoðað verður hvort áberandi munur sé milli innsigla klausturreglnanna tveggja sem störfuðu á Íslandi, benediktína og ágústína. Einnig hvort myndirnar birta almennar hefðir viðkomandi klausturreglu eða hvort um einhver „séríslensk“ afbrigði sé að ræða. Til að sjá íslensku innsiglin í skýrara ljósi er nauðsynlegt að skoða þau í samhengi hinnar alþjóðlegu miðaldakirkju, einkum innan Niðarósserkibiskupsdæmis, eftir því sem tök eru á.

Guðrún Harðardóttir er sérfræðingur við húsasafn Þjóðminjasafns Íslands. Rannsóknir hennar lúta einkum að kirkjubyggingum miðalda og ýmsum öðrum þáttum byggingararfsins.

— o —

23. janúar 2014

Grégory Cattaneo

Benedictine monasticism and local powers. An examination of two 13th-century charters from Þingeyraklaustur

Grégory Cattaneo 01
Grégory Cattaneo

This paper proposes to analyse how the Icelandic Benedictine house of Þingeyrar in the Northern diocese exerted power over the neighbouring territory from its foundation in the first half of the 12th century to the middle of the 13th century. Of the four Benedictine monasteries founded in Iceland, Þingeyraklaustur is the oldest and the most influential during this period. I will first present briefly the status of Benedictine monasticism in the 12th-13th centuries and its relation to local powers in Western Europe. The study is based on two 13th-century charters preserved in Þingeyrabók (AM 279 a 4to, fols. 8r and 12-13). I will analyse these documents and reposition them—where possible—within the wider context of Benedictine monasticism.

Grégory Cattaneo er doktorsnemi í sagnfræði við Sorbonne-háskóla og Háskóla Íslands. Doktorsverkefni hans fjallar um völd í íslensku samfélagi á miðöldum og rannsóknir hans lúta einkum að hernaðarsögu og lénsveldum.

— o —

6. febrúar 2014

Gottskálk Jensson

Íslenskar klausturreglur og libertas ecclesie á ofanverðri 12. öld

Gottskalk Jensson
Gottskálk Jensson

Á ofanverðri 12. öld tóku Benediktsmunkar og Ágústínusarmunkar á Íslandi þátt í hugmyndafræðilegum deilum sem geisuðu víða í Evrópu. Í þeim átökum stóð annars vegar Rómakirkja með páfann í fararbroddi og hins vegar keisarinn, einkum Friðrik rauðskeggur (1152–1190), ásamt ýmsum smærri kóngum álfunnar. Deilurnar snerust um hver réði kjöri og löggildingu embættismanna, veraldlegra sem andlegra, en á þessu sviði hafði Rómakirkja sérlegu hlutverki að gegna. Kristin kenning réttlætti allt miðstjórnarvald í álfunni og prelátar vígðu embættismenn við hátíðlegar athafnir. Var látið svo heita sem hinn ungi Noregskonungur Magnús Erlingsson (vígður 1164) fengi Noreg að léni frá kirkjudýrlingnum Ólafi helga (d. 1030), sem titlaður var rex perpetuus Norwegie. Lítið er vitað um dýrkun Ólafs á 11. öld en Eysteinn Erlendsson erkibiskup í Niðarósi, sem hafði sterk tengsl við Ágústínusarkanoka í París, lét skipulega efla átrúnað á hann og skrifa á latínu Passio et miracula beati Olaui. Ólafi var vígð ný dómkirkja við erkistólinn og hann var notaður sem tákn fyrir yfirráð kirkjunnar yfir konungsvaldinu í Noregi. Hinn Parísarmenntaði Þorlákur Þórhallsson var augljós fulltrúi kirkjuvaldsins á Íslandi. Hann stofn­aði kanokasetur í Þykkvabæ í Veri 1168, hið fyrsta undir reglu Ágústínusar. Annað slíkt munklífi var stofnað í Flatey á Breiðafirði 1172 en flutti að Helgafelli rúmum áratug síðar. Fyrir komu Ágústínusarkanoka til Íslands höfðu verið í landinu Benediktsklaustur, hið merkasta á Þing­eyrum (stofnað 1133). Benediktsmunkunum hefur litist illa á valdabrölt Ágústín­usarkanoka. Um 1173 voru báðir ábótarnir í hinum nýju kanoka­setrum, Þorlákur og Ögmundur Pálsson, í vali til biskups í Skálholti, og 1178 var Þorlákur vígður í embættið. Jafnvel sem Skálholtsbiskup klædd­ist Þorlákur kanokabúnaði. Framgangur kirkjuvaldsins og hugmynda­fræði Parísarkanokanna virtist óstöðvandi enda voru þeir studdir ein­arð­lega af páfa og sátu í helstu kirkjuembættum í Noregi og á Íslandi. En 1177 gerðist það óvænt í Noregi að fram kom nýtt konungsefni, presturinn Sverrir frá Kirkjubæ í Færeyjum. Gerði hann tilkall til valda sem laun­son­ur Sigurðar munns og varð foringi Birkibeina. Árið 1184 hafði hann sigrað og drepið Magnús konung og Eysteinn erkibiskup var kominn í útlegð til Englands. Veraldlegir höfðingjar á Íslandi, sem nátengdir voru norsku konungsvaldi, veittu nú Sverri lið og leituðu til íslenskra Benediktsmunka á Þingeyrum til að réttlæta nýja skipan mála í Noregi í nokkrum rit­verk­um, Sverris sögu á norrænu og tveimur latneskum historíum um öðruvísi og eldri fornkonung en Ólaf helga, konung sem hafði biskup sér við hlið en lét hann ekki ráða yfir sér. Þetta var Ólafur Tryggason, apostolus Norwagiensium.

Gottskálk Jensson er bókmenntafræðingur og Marie Curie prófessor við Kaupmannahafnarháskóla. Hann fæst við rannsóknir á sviði latneskrar bókmenntasögu.

— o —

20. febrúar 2014

Haki Antonsson

The Monastery of Þingeyrar and Early Saga Writing

Haki Antonsson
Haki Antonsson

The proposed paper will examine the earliest writings associated with the Benedictine monastery of Þingeyrar. There, around the turn of the twelfth century, the monks Gunnlaugur Leifsson and Oddur Snorrason composed sagas about King Ólafur Tryggvason and various hagiographic writings in honour of the first Icelandic saints, Bishops Þorlákur Þórhallsson and Jón Ögmundarson, while the abbot of Þingeyrar Þingeyrar, Karl Jónsson, wrote a biography of King Sverrir Sigurðsson of Norway. But arguably the most peculiar of the texts attributed to Þingeyrar monks is the so-called Yngvars saga víðförla that recounts two expeditions to the East spear­headed by Swedish Vikings, Yngvar and his son Sveinn. It will be argued that a key theme in this uncategorizable work, which can with some degree of certainty be attributed to Oddur Snorrason, is the problem of salvation and the role of penance, as well as heartfelt contrition in attaining this goal. A similar theme is noticeably present in what survives of the sagas that Oddr Snorrason and Gunnlaugur Leifsson wrote about King Ólafur Tryggvason. Further, it will be argued that this theme, which is central to some of the earliest surviving sagas, relates to broader social and political developments in Iceland around the year 1200.

Haki Antonsson er sagnfræðingur og dósent í norrænum miðaldafræðum við University College London. Hann fæst einkum við rannsóknir á sögu og bókmenntum Norðurlanda á tólftu og þrettándu öld.

— o —

6. mars 2014

Steinunn J. Kristjánsdóttir

Klaustrin á Íslandi kortlögð — ný rannsókn

Steinunn J. Kristjánsdóttir
Steinunn J. Kristjánsdóttir

Kaþólsk trú hefur verið lítt sýnileg í íslensku samfélagi frá því að lúterskri kirkjuskipan var komið á um miðja 16. öld. Í dag eru áþreifanlegar minjar um íslensku miðaldaklaustrin fáar og minni um þau oft afbökuð eða gleymd. Í fyrirlestrinum verður greint frá nýhafinni rannsókn sem miðar að því að kortleggja og skrá minjar, gripi, örnefni, munnmæli og ritaðar heimildar um þau. Vonast er til að hægt verið greina umsvif þeirra hérlendis og áhrif á þróun og skipan stjórnarfars- og samfélagsmála fram að siðaskiptum. Rannsóknin hófst sumarið 2013 með leit að minjum í Hítardal á Mýrum og á Bæ í Borgarfirði. Greint verður frá niðurstöðum úr þessum fyrstu tveimur vettvangsferðum en þær skiluðu meiri árangri en vonir stóðu til í fyrstu.

Steinunn J. Kristjánsdóttir er prófessor í fornleifafræði við Háskóla Íslands og Þjóðminjasafn Íslands. Hún er með doktorspróf í fornleifafræði frá Háskólanum í Gautaborg og hefur undanfarin ár stundað rannsóknir á Skriðuklaustri og klausturmenningu hérlendis en einnig á kristnivæðingunni við upphaf miðalda.

— o —

20. mars 2014

Guðbjörg Kristjánsdóttir

Bókagerð í klaustri: Samstarf teiknara og skrifara

Guðbjörg Kristjánsdóttir
Guðbjörg Kristjánsdóttir

Í Stjórnarhandritinu AM 227 fol. frá miðri fjórtándu öld eru íslenskar þýðingar nokkurra bóka Gamla testamentisins. Handritið er fagurlega lýst. Átta síður eru skreyttar sögu­stöfum og spássíumyndum og efni þeirra er jafnan tengt textanum að einhverju marki. Auk stóru sögustafanna eru flestar síður handritsins skreyttar smærri upphafsstöfum við kaflaskipti. Á þeim má greina hand­bragð þriggja teiknara. Á Stjórnarhandritinu eru tvær skrifarahendur, A og B. A-höndin er þekkt í tólf handritum og handritahlutum og greinilegt að þessi handrit hafa orðið til fyrir samstarf allmargra manna. Verka­skipting af því tagi sem sjá má í handritum með A-hendi Stjórnar bendir til að þau séu upprunnin á ritstofu þar sem bókagerð var umtalsverð. Það sem vitað er um feril með A-hendi Stjórnar bendir til norðlensks uppruna og sterkar líkur benda til að handritið hafi verið skrifað í Þingeyraklaustri. Í fyrirlestrinum verður fjallað um skreytta upphafsstafi í handritum með A-hendi Stjórnar, stafgerð og handbragð einstakra teiknara í því skyni að varpa ljósi á bókagerð á ákveðnu svæði.

Guðbjörg Kristjánsdóttir er listfræðingur frá Sorbonne-háskóla í París. Hún hefur rannsakað bæði íslenska myndlist á 20. öld og íslenska miðaldalist en þar ber hæst rannsóknir hennar á Íslensku teiknibókinni, handriti frá 1350-1500 með myndefni sem listamenn miðalda nýttu sér við myndskreytingar handrita, og hlaut Guðbjörg íslensku bókmenntaverðlaunin 2014 fyrir bók sína um Íslensku teiknibókina. Guðbjörg hefur verið forstöðumaður Gerðarsafns frá stofnun safnsins 1994.

— o —

3. apríl 2014

Gunnar Harðarson

Viktorsklaustrið í París og norrænar miðaldir

gunnar_agust_hardarson618596282_90x120
Gunnar Harðarson

Klaustur heilags Viktors, sem var staðsett rétt utan borgarmúra Parísar, var á 12. öld eitt helsta lærdómssetur síns tíma. Það var stofnað í kjölfar þess að Vilhjálmur af Champeaux, kennari við dómkirkjuskólann í París, beið lægri hlut í rökræðum við heimspekinginn Abélard um eðli almennra hugtaka og dró sig í hlé í gamla klaustursellu. Vilhjálmur var þó ekki lengi í gömlu sellunni, heldur gerðist biskup í Chalons, en klaustrið sem hann stofnaði varð á skömmum tíma víðfrægt fyrir góða lærimeistara og þangað sóttu síðar menn á borð við Pétur Comestor sem skrifaði Historia Scholastica sem var vel þekkt á Íslandi og Pétur Langbarða sem samdi Sentensíubók þá sem lengi vel var lögð til grundvallar guðfræðikennslu í háskólum 13. og 14. aldar. Viktorsklaustrið var kanúkaklaustur og sameinaði lifnaðarhætti klausturbræðra og lærdómsiðkun og laut sérstakri reglu sem Gilduin, fyrsti ábóti þess, samdi. Klaustrið vék sem helsta miðstöð lærdómsiðkunar eftir því sem háskólinn í París efldist en starfaði óslitið fram að frönsku byltingunni. Á miðöldum höfðu bæði Íslendingar og Norðmenn nokkur tengsl við klaustrið: Eiríkur og Þórir erkibiskupar voru reglubræður í klaustrinu og hugsanlegt er að Þorlákur helgi hafi dvalist þar, auk þess sem Helgafellsklaustur er sagt lúta Viktorsreglu á síðmiðöldum. Hvert var aðdráttarafl Viktorsklaustursins, hver er saga þess á 12. öld og hverjir voru helstu meistarar sem kenndu þar? Hvernig var tengslum Norðmanna og Íslendinga við klaustrið háttað og hvaða heimildir eru til um þau tengsl? Í fyrirlestrinum verður reynt að ræða þessar spurningar með það fyrir augum að gera sér heildarmynd af sambandi klaustursins við Noreg og Ísland.

Gunnar Harðarson er prófessor við Sagnfræði- og heimspekideild Háskóla Íslands. Rannsóknir hans lúta einkum að íslenskri heimspekisögu, listheimspeki og miðaldafræðum.

— o —

8. maí 2014

Guðvarður Már Gunnlaugsson

Voru scriptoria í íslenskum klaustrum?

GMG
Guðvarður Már Gunnlaugsson

Menn hafa lengi gert ráð fyrir að bækur hafi verið skrifaðar í íslenskum klaustrum og að þau hafi verið fræðasetur jafnt sem miðstöðvar bókagerðar. Sem dæmi má nefna að Ólafur Halldórsson taldi að allmargar bækur frá þriðja fjórðungi 14. aldar hefðu verið skrifaðar í Ágústínusarklaustrinu á Helgafelli (Helgafellsbækur fornar, 1966). Erlendis var algengt að handrit væru skrifuð í klaustrum svo að það kæmi ekki á óvart að sú hafi einnig verið raunin hérlendis. Í erlendum klaustrum voru allvíða sérstakar skrifarastofur, svokallaðar scriptoria, og spyrja má hvort svo hafi einnig verið hér. Til að svara því verður fyrst að skilgreina orðið scriptorium og í því samhengi er vert að velta því fyrir sér hvort orðið skrifstofa, sem kemur tvívegis fyrir í texta frá miðöldum, hafi verið bein þýðing á scriptorium. Í fyrirlestrinum verður gerð grein fyrir fjölda þeirra handrita sem talin eru skrifuð í íslenskum klaustrum með nokkurri vissu, auk þess sem litið verður á heimildir þar sem þess er beinlínis getið að klausturfólk hafi skrifað handrit.

Guðvarður Már Gunnlaugsson er handritafræðingur og rannsóknardósent við Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum. Rannsóknir hans lúta einkum að íslenskum handritum, aldri þeirra og uppruna, þróun skrifleturs á Íslandi og greiningu rithanda.

— o —

22. maí 2014

Margaret Cormack

Icelandic Monastic Foundations and their Legends

Johanna Olafsdottir
Margaret Cormack

Probably no one today believes that the pagan Hildir fell down dead when he violated the sacred space of Kirkjubær, site of the future convent (Land­námabók ÍF 1 pp. 323-26). Scholars who reject this episode may nonetheless be loth to jettison the idea that papar once lived on the spot. And what about the foundation of Þingeyrar by St. Jón Ögmundarson? Does the motif of measuring out the grounds with his cloak conceal a genuine attempt to found a monastery? My presentation will consider the stories about, and evidence for, foundation of Icelandic religious houses such as Kirkjubær, Þingeyrar, Skriðuklaustur, and Reynisstaður.

Margaret Cormack er prófessor í trúarbragðafræði við  College of Charleston í Suður-Karólínu í Bandaríkjunum. Rannsóknir hennar lúta einkum að íslenskri trúarbragða- og kirkjusögu, þjóðfræði og göldrum fram á 18. öld.