Fyrirlestrar Miðaldastofu

Helgi Þorláksson

Frúin í Hamborg

Um upptök þýskrar verslunar á Íslandi á 15. öld og blómaskeið hennar á 16. öld

Fimmtudaginn 1. febrúar 2018 kl. 16.30
Lögbergi 101

Helgi Þorláksson

Haustið 2017 kom út ritverkið Líftaug landsins, um sögu íslenskrar utanlandsverslunar, í tveimur bindum, og tekur til tímans 900-2010. Þar ritar Helgi Þorláksson um utanlandsverslun Íslands frá um 900 til um 1600. Í fyrirlestri sínum hjá Miðaldastofu fjallar hann um það hvernig þýsk verslun á síðmiðöldum tengdist Íslandi og Íslendingum. Ensk verslun á Ensku öldinni, 15. öld, er nokkuð þekkt en þekking á þýskri Íslandsverslun á umræddum tíma hefur verið takmörkuð. Í ritverkinu er reynt að bæta nokkuð úr því. Íslensk skreið barst fyrst að marki til meginlands Evrópu um og upp úr 1500 og í forystu um flutningana voru kaupmenn frá Hamborg. Þegar mest var komu þeir á um 20 skipum árlega til landsins og þýskir kaupmenn í heild á allt að 30 skipum, sumum stórum, með fjölmenni í áhöfn, allt að 60 manns. Enskir kaupmenn létu í minni pokann fyrir hinum þýsku eftir grimmileg átök. Víða um Ísland fór fólk í fyrsta sinn að venjast árvissum aðflutningum margbreytilegrar vöru og þá dró úr svonefndri sjálfsþurft. Sagt verður frá samskiptum þýskra kaupmanna og landsmanna og fjallað nokkuð um margvísleg áhrif hinnar þýsku verslunar. Athygli verður beint að veru þýskra kaupmanna í Hafnarfirði, höfuðstað Hamborgara á Íslandi, og umsvifum á Suðurnesjum og eins að athöfnum hinna þýsku á Snæfellsnesi, einkum í Kumbaravogi (hjá Bjarnarhöfn) og Nesvogi (núna í Stykkishólmi). Hamborg skipti Íslendinga höfuðmáli og varð dyr þeirra til umheimsins. Þaðan bárust margvíslega áhrif, svo sem lútherskar trúarhugmyndir. Danakonungur hafði áhyggjur af veldi þýskra kaupmanna á Íslandi og duldist ekki ágóði þeirra af versluninni. Hann hugsaði sér að auka tekjur sínar af þessari verslun, koma böndum á þýsku kaupmenina og jafnframt að tryggja dönskum kaupmönnum nokkurn hluta af ágóðanum. Þetta leiddi til átaka og af þeim er mikil saga. Eftir að dönsk stjórnvöld komu á verslunareinokun á Íslandi árið 1602 voru eftirmæli þýskrar verslunar m.a. svona: „Þá Hamborgarar héldu landið/hörð var ekki tíðin grandið“. Íslendingar söknuðu þýskra kaupmanna og meira vöruúrvals og hagstæðari kjara en danskir kaupmenn buðu.

Helgi Þorláksson er dr. phil frá Háskóla Íslands og fv. prófessor í sagnfræði við skólann. Hann hefur fengist við sögu landsins fram til 1700, einkum þó sögu tímans 1100 til 1400.

Fyrirlesturinn verður fluttur á íslensku og er öllum opinn.