Fyrirlestrar Miðaldastofu 2016–2017

Sveinbjörn Rafnsson

Um Snorra Eddu og Munkagaman

Nokkur atriði úr menningarsögu íslenskra miðalda

Fimmtudaginn 1. desember 2016 kl. 16.30
Lögbergi 101

Sveinbjörn Rafnsson
Sveinbjörn Rafnsson

Rætt verður um Snorra Eddu sem talin er meðal höfuðrita íslenskrar menningar á miðöldum, texta hennar, hugmyndir um erkirit og gerðir hennar og innskot úr sögum í þeim. Þá verður drepið á byggingu Gylfaginningar og Skáldskaparmála í Eddu og heimildir sem ekki eru beinlínis nefndar í textum þeirra. Áður hefur verið bent á Trójumanna sögu og Elucidarius, en miklar líkur eru til þess að þar sé stuðst við fleiri rit sem tínd verða til, meðal annars Jórsalaferð Karlamagnúsar, Leiðarvísi Nikulásar ábóta, Munkagaman (Joca monachorum) og Þiðreks sögu af Bern.

Forsendur Eddu virðast einnig vera í fornri rím- og stjörnufræði. Rímbegla frá 12. öld er höfuðrit í fornum íslenskum tímatalsreikningi. Fornar þýðingar úr stjörnufræðiritum, sem verið hafa heimildir Rímbeglu, sýna að að dýrahringurinn (zodiacus) og grísk-rómverskar goðsögur hans hafa verið vel kunnar á 12. og 13. öld. Þá eru Trójumanna sögur og grísk-rómverskar goðsögulegar heimildir þeirra órækur vitnisburður um latínulærdóm og goðsögulega þekkingu. Allt sýnir þetta, ásamt Eddu sjálfri, að meðal forsendna hennar eru grísk-rómverskar goðsögur. Í Eddu virðast m.a. vera skopstældar (paródískar) goðsögur af norrænum og suðrænum toga, gerðar undir ægishjálmi kristindóms.

Munkagaman (Joca monachorum) virðist vera ein af mörgum ónefndum heimildum Eddu. Það er safn gátna eða fróðleiks frá ármiðöldum í gátuformi, um heiminn, sköpun hans og náttúru, viðburði í ritningunni og trúarleg og siðferðileg efni. Íslensk gerð Munkagamans, þýdd úr latínu á miðöldum, er til í ungum handritum, sem lítillega verður rætt um.

Sveinbjörn Rafnsson er prófessor emeritus í sagnfræði frá Háskóla Íslands. Hann hefur ritað margt um forna íslenska sögu, m.a. bækur um Landnámu, forna sagnaritun og fornar minjar auk fjölda greina um sama efni, íslenskar miðaldaheimildir og forn lög.

Fyrirlesturinn verður fluttur á íslensku og er öllum opinn.