Fyrirlestrar Miðaldastofu 2016–2017

Gottskálk Jensson

Antiquitates Danicae: Vísindi og pólitík í norrænum fræðum í Kaupmannahöfn 1600 til 1900

Fimmtudaginn 17. nóvember 2016 kl. 16.30
Lögbergi 101

gottskalk-jensson-2016
Gottskálk Jensson

Í erindinu hyggst ég svipast um í sögu norrænna fræða í Kaupmannahöfn frá öndverðri 17. öld og fram til einveldiskreppunnar á síðari hluta 18. aldar, og þaðan áfram til gróskunnar miklu í móðurmálsfræðum á gullöld fílólógíu og þjóðlegrar sagnfræði á 19. öld. Fræðigreinin sem um ræðir er ekki ómerkilegri en svo að hún hefur mótað að töluverðu leyti þjóðerni og sjálfsmynd Dana og Íslendinga, og raunar Norðurlandabúa allra. Þegar saga fræðanna í Kaupmannahöfn er skoðuð af fjarlægum sjónarhóli 21. aldar má greina, að ég tel, ákveðnar útlínur og uppákomur, sem sýna að drifkraftur þessara vísinda hefur ekki einvörðungu verið akademísk þekkingarþrá. Síst veigaminni þáttur var smíð sögulegra raka sem rennt gætu stoðum undir menningar- og utanríkispólitík danska konungsríkisins, svo ekki sé minnst á viðleitni fræðimannanna til að styrkja í sessi ákveðin lútersk viðhorf til kristni og konungsvalds. Danska konungsveldið var, sem kunnugt er, leiðandi stjórnmálaafl á Norðurlöndum frá stofnun Kalmarsambandsins á ofanverðri 14. öld og nokkuð fram á 16. öld. Með siðaskiptunum klofnaði sambandið og sænska konungsveldið tók mjög að eflast undir forystu Gustavs Vasa. Þótt stórveldistími Svía stæði aðeins yfir í rúmlega eina öld náðu sænskir að koma sér upp heimasmíðaðri fornöld sem að nokkru leyti byggði á Danasögu Saxa málspaka (u.þ.b. 1200) en yfirbauð hana stórkostlega í smíð glæstrar fornaldar fyrir Svía. Lærðum mönnum í Danmörku þótti skorta mjög á sögulegar heimildir sem undirbyggðu trúverðugleika hinnar nýju sænsku fornaldar. En svipuðum mótbárum hafði raunar verið hreyft gegn sjálfum Saxa málspaka, þar til dönsku fjölfræðingunum Ole Worm og Stephen Stephanius tókst, með aðstoð lærðra presta á Íslandi, að finna nokkrar af frumheimildum Saxa í íslenskum handritum, rúnakvæði á „danskri tungu“, sem þeir prentuðu með rúnaletri (og latneskum þýðingum til hægðarauka). Þessar útgáfur urðu upphafið að nýrri háskólagrein, Antiquitates Danicae, sem síðar fékk heitið norræn fræði. Frá sjónarhóli 21. aldar fólust þessi 17. aldar vísindi í athugunum á ímyndaðri fornmenningu Dana, sýndarheiðnu rúnasamfélagi stríðsmanna sem líktust furðu mikið rétttrúuðum siðbótarmönnum í hollustu sinni gagnvart konungsvaldinu sem meginstoð samfélagsins. Í erindinu mun ég rekja áfram til 19. aldar þróun þessarar fræðigreinar í ljósi umbrotanna í sögu Norðurlanda, sem verða næstu aldirnar, og freista þess að skýra að einhverju marki hið flókna samhengi fræða og pólitíkur.

Gottskálk Jensson er gestaprófessor við Íslensku- og menningardeild Háskóla Íslands og rannsóknardósent á Árnasafni í Kaupmannahöfn. Hann er doktor í klassískum fræðum frá University of Toronto. Undanfarin ár hefur hann einkum rannsakað latínuskrif í íslensku samhengi fyrr á öldum.

Fyrirlesturinn verður fluttur á íslensku og er öllum opinn.