Fyrirlestrar Miðaldastofu

Sverrir Jakobsson

Hvernig skal Krist kenna?

Nútímasagnaritun um forna sögu

Fimmtudaginn 27. september 2018 kl. 16.30
Lögbergi 101

Sverrir Jakobsson

Jesús Kristur er einn kunnasti, áhrifamesti og umdeildasti einstaklingur í sögu mannkyns. Saga hans hefur verið sögð oft og mörgum sinnum enda er hún undirstaða hugmynda fólks um trú, siðfræði, réttlæti og líf eftir dauðann í mörgum löndum víða um heim. Saga Jesú er mikilvægur hluti af menningu kristinna manna og hefur verið það í tæplega 2000 ár. Samfélag nútímans hvílir hins vegar í æ ríkari mæli á öðrum gildum og hugmyndum en hinum kristnu. Hvernig er hægt að segja þessa fornu sögu með nýjum hætti í upphafi 21. aldar? Er hægt að fjalla um sögu kristni á öðrum forsendum en trúarlegum? Hvernig getur sagnfræðingur nálgast á hlutlausan hátt persónu sem margir líta á sem guð og hefur mótað líf flestra sem kennivald og fyrirmynd?

Hér er ætlunin að ræða hvaða merkingu sagan um Krist hefur frá sjónarmiði almennrar mannkynssögu og hugmyndasögu. Reynt verður að greina þróunarsögu þessarar hugmyndar út frá kenningum um menningarlegt minni, sem fræðimenn á borð við Jan og Aleidu Assmann hafa skilgreint. Hvaða máli skipta þær hugmyndir sem ríkjandi voru innan Rómarveldis þegar sagan um Krist kom fyrst fram? Hvaða áhrif hafði það að sagan um Krist varð til innan samfélags og menningar Gyðinga í Palestínu? Af hverju er myndin af Kristi mismunandi í ólíkum heimildum sem urðu til um hann strax á fyrstu öld? Hvernig þróuðust þær í framhaldinu og af hverju? Að hvaða leyti getur textafræðin varpað ljósi á þróunarsögu hugmyndarinnar um Krist?

Einnig verður rétt hvernig hugmyndir um Krist tóku á sig staðlaða mynd og sum rit um ævi hans hlutu almenna viðurkenningu en öðrum hafnað. Eftir að kristni hlaut opinbera stöðu innan Rómarveldis breyttist eðli trúarinnar og ríkari krafa var gerð um staðlaða trúarjátningu og samræmingu hugmynda um Krist. Hófst þá klofningur kristinna manna í rétttrúaða og villutrúarmenn sem síðan hefur mótað sögu þeirra. Vikið verður að ýmsum vandamálum sem tengjast hugtökunum rétttrúnaður og villutrú og bent á sögulegt afstæði þeirra þar sem hugmyndir sem skiptu gríðarlega miklu máli voru síðar fordæmdar sem villutrú. Tekin verða nokkur dæmi um klofning kristinna manna sem höfðu mikla pólitíska þýðingu á sínum tíma og mótuðu alla sögu samfélaga þeirra í framhaldinu.

Sverrir Jakobsson er prófessor í miðaldasögu við Háskóla Íslands og höfundur bókarinnar Kristur. Saga hugmyndar (2018).

Fyrirlesturinn verður fluttur á íslensku og er öllum opinn.