Fyrirlestrar Miðaldastofu

Viðar Pálsson

Der König ist tot, es lebe der König!

Konungur í tvennum líkama og á faraldsfæti

Fimmtudaginn 18. október 2018 kl. 16.30
Lögbergi 101

Viðar Pálsson

Á hámiðöldum klæddist konungur tvennum líkama og tóku fjárreiður hans mið af því. Í fyrirlestrinum verður fjallað um fjárhagsgrundvöll konungs, hvernig hann gerðist stórjarðeigandi sem þó réði næsta minnstu um meðferð jarðeigna sinna, og hvernig hann át upp skatta sína á ferð um konungdæmið ásamt hirð sinni. Hinn tvöfaldi líkami konungs kom reyndar fram í nánu samhengi við vöxt og viðgang ríkisvalds og varð snar þáttur í þróun sem leiddi til þess að konungur tók að ferðast minna um konungdæmi sitt en áður og innheimta skatta með öðrum hætti. Áberandi þættir þessarar þróunar verða ræddir í fyrirlestrinum, t.d. eignarréttur á há- og síðmiðöldum, upphaf krúnugóss konunga, sem svo var kallað, og hlutverk formlegra valdasambanda sem birtust í merkingarbærum athöfnum, ritúölum, í vitna viðurvist.

Noregskonungar eru í brennidepli en einnig Frankakonungar og Þýskalandskeisari. Reifaðar verða rannsóknir á evrópsku konungsvaldi sem gagnast við lestur á konungasögum og túlkun konungsvalds í Noregi á miðöldum.

Viðar Pálsson er dósent í sagnfræði við Háskóla Íslands. Rannsóknarsvið hans er evrópsk og norræn miðaldasaga, einkum há- og síðmiðalda. Hann er höfundur bókarinnar Language of Power: Feasting and Gift-Giving in Medieval Iceland and Its Sagas (2016), þar sem meðal annars er fjallað um konungsvald.

Fyrirlesturinn verður fluttur á íslensku og er öllum opinn.