Fyrirlestrar Miðaldastofu

Orri Vésteinsson

Ójöfnuður og atbeini á Íslandi á miðöldum

Fimmtudaginn 28. mars 2019 kl. 16.30
Lögbergi 101

Orri Vésteinsson

Þó að fræðimenn hafi gert sér ólíkar hugmyndir um almenna hagsæld á Íslandi á miðöldum er yfirleitt gert ráð fyrir að fátækt hafi verið útbreidd. Til þess bendir löggjöf um ómaga og þurfamenn, sem og lýsingar fornrita á förufólki og fjárvana bændum. Örbirgð er hins vegar ekki fyrirferðarmikil í lýsingum sagnanna — hvort sem það stafar af því að lífskjör hafi almennt verið betri á miðöldum en seinna varð eða að sögurnar beini sjónum einfaldlega ekki að hinum verst settu í samfélaginu. Það kemur meira á óvart að vitnisburður fornleifa um lífskjör er ekki ótvíræður. Greinilegur munur er á stærð híbýla, sem virðist endurspegla efnahag og félagslega stöðu, en gripasöfn sýna ekki sambærilegan mun á kaupgetu heimilanna. Þvert á móti virðist fólk sem bjó í minnstu skálunum hafa haft jafngóðan aðgang að góðmálmum og öðrum innfluttum efnum eins og fólk sem bjó í þeim stærstu.

Þetta lítur út eins og þverstæða og til að skýra hvernig í málinu liggur verður sjónum beint að kaupmætti silfurs og „sæmilegra“ gripa. Í Íslendingasögum ber talsvert á því að það sem mætti kalla venjulegt fólk eigi silfur og góða gripi. Það kemur ágætlega heim við fornleifafundi sem sýna að á víkingaöld var miklu meira af silfri í umferð — á Íslandi eins og Norðurlöndum almennt — heldur en eftir 1100. Lýsingar fornrita á því hvað alþýða manna gat gert við silfur benda til að það hafi verið fátt annað en að greiða bætur, aðallega manngjöld. Kaupmáttur silfurs fólst í því að það færði fólki atbeina — og verða færð rök fyrir því að slíkur atbeini hafi einkum getað nýst fólki af lægri stéttum til að verjast yfirgangi sem það hefði ekki annars getað gert. Silfur virkaði ekki sem almennur gjaldmiðill nema fyrir stóreignafólk.

Í kapítalískum samfélögum er auður sjálfstætt hreyfiafl og viðhald stéttamunar gengur út á að koma í veg fyrir að lægri stéttir geti eignast mikinn auð. Í annars konar samfélögum er auður líka fyrst og fremst í höndum þeirra sem völdin hafa en þeim er ekki ógnað þó fólk af lægri stigum ráði fyrir verðmætum hlutum — notkunarsvið þeirra er einfaldlega svo takmarkað að það raskar engum hlutföllum þó almúgafólk eigi góðan grip eða lítinn silfursjóð. Þetta veldur því að verðmæti dreifast öðruvísi eftir samfélagsstigum og þau hafa ekki sömu merkingu og okkur er tamt að ætla. Í erindinu verða færð rök fyrir því að þó að verðmæti hafi getað fært venjulegu fólki takmarkaðan atbeina þá sé það ekki til marks um jöfnuð heldur einmitt einkenni á samfélagsgerð sem byggðist á gríðarlegum ójöfnuði. Verðfall silfurs á 12. og 13. öld gefur í þessu samhengi tilefni til að velta upp sambandi auðmagns og samþjöppunar valds á þeim tíma.

Orri Vésteinsson er prófessor í fornleifafræði við Háskóla Íslands. Hann er fæddur 1967 og lærði sagnfræði við Háskóla Íslands og fornleifafræði og sagnfræði við University College London þaðan sem hann lauk doktorsprófi 1996. Hann hefur kennt fornleifafræði við Háskóla Íslands frá 2002. Rannsóknir hans snúa meðal annars að íslenskri samfélagsgerð á miðöldum, landnámi, byggðaskipan og mótun samfélagsstofnana.

Fyrirlesturinn verður fluttur á íslensku og er öllum opinn.

—o—