Fyrirlestrar Miðaldastofu

Arngrímur Vídalín

Narfeyrarbók: Síðasta alfræðirit miðalda á Íslandi

Fimmtudaginn 12. september 2019 kl. 16.30
Lögbergi 101

Arngrímur Vídalín

Handritið AM 194 8vo hefur nokkra sérstöðu meðal íslenskra handrita. Ekki aðeins hafa skrifarar þess merkt sér handritið, þeir Ólafur Ormsson og Brynjólfur Steinraðarson, heldur er ritunartíma handritsins og einnig getið, árið 1387, og ritunarstaður: Geirríðareyri, nú Narfeyri, á Snæfellsnesi. Óvanalegt er að svo nákvæmar upplýsingar liggi fyrir um uppruna handrita.

Einnig er greinilegt að skrifarar AM 194 8vo hafa haft aðgang að hinum ýmsu ritum við gerð bókarinnar. Þetta má ekki síst merkja á því að fyrirmyndir ýmissa kafla bókarinnar eru til varðveittar í öðrum handritum, til að mynda í Hauksbók. Einkum er handritið þó þekkt fyrir að geyma leiðarlýsingu frá Íslandi til Jórsala, sem eignuð er Nikulási ábóta.

Sú leiðarlýsing er raunar hluti af talsvert stærri landafræðiritgerð, sem rammar inn efni bókarinnar að miklu leyti. Söguskoðun bókarinnar er kristileg, að í upphafi hafi Guð skapað heiminn og að mannkynið hafi átt sinn sess í paradís, en glatað honum. Síðan byggðist hver heimsálfa upp af sínum syni Nóa: Jafet varð ættfaðir Evrópumanna, Sem varð ættfaðir Asíumanna, og hinn fordæmdi Ham varð ættfaðir Afríkumanna. Á þessum grundvelli byggist svo landafræði AM 194 8vo og þau fræði sem fylgja í kjölfarið: kafli um skrímslislegar þjóðir, kafli um orma og dreka, kafli um steinafræði, kafli um læknisfræði, og svo mætti lengi telja. AM 194 8vo er í senn trúarrit og vísindarit, hugmyndafræði þess mjög í anda evrópskra lærdómsrita hámiðalda.

Handritið gaf Kristian Kålund út að mestu árið 1908, en skildi undan upphaf handritsins sakir þess að samsvarandi hluti úr öðru handriti, GKS 1812 4to, hafði áður verið gefinn út af Ludvig Larsson. Engin heildarútgáfa er því til af AM 194 8vo, og útgáfa Kålunds er komin nokkuð til ára sinna.

Í þessum fyrirlestri verður fjallað um nauðsyn nýrrar fræðilegrar útgáfu á AM 194 8vo sem fyrirlesari vinnur nú að. Útgáfan verður tvímála, á frummálinu og á ensku, enda hefur verið mikil þörf á þýðingum á minna þekktum íslenskum miðaldaritum.

Arngrímur Vídalín er doktor í íslenskum bókmenntum og aðjunkt í sömu grein við Menntavísindasvið Háskóla Íslands. Rannsóknir hans liggja á sviði bókmenntafræði og hugmyndasögu og nú vinnur hann að fræðilegri útgáfu á handritinu AM 194 8vo auk handbókar um Grettis sögu.

Fyrirlesturinn verður fluttur á íslensku og er öllum opinn.