Fyrirlestrar Miðaldastofu

Ingunn Ásdísardóttir

Ein saga eða tvær? Fyrra og síðara dæmi Óðins í nýju ljósi

Fimmtudaginn 10. október 2019 kl. 16.30
Lögbergi 101

Ingunn Ásdísardóttir

Í erindinu setur Ingunn fram nýja túlkun á þeim vísum Hávamála sem nefndar hafa verið Fyrra og Síðara dæmi Óðins, þ.e. vísur 104–110 (heimsókn Óðins til Suttungs jötuns) og vísur 138–141/2 (sjálfsfórn Óðins); byggir hún á því í fyrsta lagi að þessi kvæðisbrot eigi saman og í öðru lagi að þau séu staðsett í kvæðinu í öfugri röð. Með þessari túlkun verður annars vegar til samhangandi og skiljanlegur söguþráður og hins vegar koma fram náin tengsl við ákveðin tilvik eða kringumstæður í nokkrum öðrum eddukvæðum, einkum að því er varðar hlutverk jötunkonunnar.

Samkvæmt viðtekinni heimildarýni skyldu menn ekki hringla í heimildunum eins og þær birtast í handritinu, þ.e. hvorki breyta vísnaröð í kvæðum né leiðrétta texta. Viðurkennt er aftur á móti að sum goðakvæða eddukvæðanna eru að öllum líkindum samsafn tveggja eða fleiri kvæða eða stakra vísna og að upprunakvæðið/kvæðin sé/u óþekkt. Þetta á, til dæmis, við um Hávamál sem talið er vera ósamstætt samsafn nokkurra kvæða eða kvæðahluta. Hér er litið svo á að í þessum tilfellum geti nálgun heimildarýninnar hugsanlega verið of ströng og í erindi verða færð rök fyrir því út frá ofannefndum vísum í Hávamálum.

Ingunn Ásdísardóttir, bókmennta- og þjóðfræðingur varði doktorsritgerð sína í norrænni trú vorið 2018 en þar fjallar hún um jötna hins norræna goðaheims og setur fram nýstárlegar kenningar um þá, sem ganga gegn viðteknum hugmyndum um að jötnar séu alfarið andstæðingar goðanna í Ásgarði. Ingunn er sjálfstætt starfandi fræðimaður í ReykjavíkurAkademíunni.

Fyrirlesturinn verður fluttur á íslensku og er öllum opinn.