Fyrirlestrar Miðaldastofu Háskóla Íslands

Steinunn Kristjánsdóttir

Leitin að klaustrunum

Klausturhald á Íslandi í fimm aldir

Miðvikudaginn 6. desember 2017 kl. 16.30
Lögbergi 101

Steinunn Kristjánsdóttir

Árið 2013 var ráðist í umfangsmikla leit að efnismenningu íslensku klaustranna. Meira fannst en nokkurn hafði órað fyrir en leitinni lauk síðla árs 2016. Í fyrirlestrinum verður sagt frá henni og niðurstöðum nýútkominnar bókar um hana. Við leitina kom fram að klaustrin voru öflugustu stofnanir kaþólsku kirkjunnar á Íslandi á miðöldum, næst á eftir biskupsstólunum. Þau urðu alls 14 hérlendis, hið fyrsta stofnað árið 1030 og hið síðasta 1493. Klausturhaldið nær þannig yfir ólík tímaskeið Íslandssögunnar, allt frá bjartsýnisárum til falls kaþólsku kirkjunnar með innleiðingu lúterskunnar við siðaskiptin 1550. Klaustrin hófust í fyrstu til vegs og virðingar en hnignaði samfara langvarandi deilum íslenskra ættarvelda við páfavaldið í Róm, áður en ný gullöld þeirra rann upp um og eftir aldamótin 1300 og stóð í 250 ár. Eftir siðaskiptin um miðja 16. öld urðu eigur klaustranna ein helsta stoðin í veldi Danakonungs en kaþólsk trú var bönnuð til ársins 1874. Klausturhús voru rifin, rústir sukku í jörð og gripir glötuðust. Nýr veruleiki blasti einnig við almenningi þegar klausturspítölum og skólum var lokað og eignarhald klausturjarðanna, sem voru hátt á sjötta hundrað við siðaskiptin, færðist til konungs og umboðsmanna hans sem oft bjuggu í gömlu klausturhúsunum. Valdið færðist um leið til þeirra, einnig vald til þess að refsa fólki með limlestingum eða aftöku en áður gat það bætt fyrir syndir sínar með góðum verkum eða gjöfum í þágu kirkju og samfélags. Það var af sem áður var en svo virðist sem að almúgafólk hafi farið einna verst út úr þeim byltingarkenndu breytingum sem urðu við siðaskiptin er klausturhald lagðist af.

Steinunn Kristjánsdóttir er fædd á Patreksfirði 1965. Hún nam fornleifafræði við Gautaborgarháskóla og lauk þaðan doktorsprófi 2004. Steinunn hefur einkum fengist við rannsóknir á Austurlandi en lengst af á Skriðuklaustri í Fljótsdal. Steinunn er prófessor í fornleifafræði við Háskóla Íslands og Þjóðminjasafn Íslands.

Fyrirlesturinn verður fluttur á íslensku og er öllum opinn.