Landnám Íslands

Sveinbjörn Rafnsson

Að trúa Landnámu

Fimmtudaginn 22. janúar 2015 kl. 16.30
Odda 101

Sveinbjorn Rafnsson
Sveinbjörn Rafnsson

Viðhorfin til Landnámabókar hafa verið breytileg í aldanna rás á Íslandi. Samkvæmt gömlum eftirmála hennar og texta greinir hún frá upphafi þjóðarinnar. Það upphaf er tekið gott og gilt í flestum Íslendinga sögum. Þó getur Landnámabók ekki verið skrifuð fyrr en fyrsta lagi nær 200 árum síðar en hún telur landnám hafa farið fram á Íslandi. Það er því ljóst af Landnámabók sjálfri að hún fjallar um landnám eins og riturum hennar fannst hentast að hafa það á ritunartíma hennar. Hún skiptir því litlu eða engu máli um hið eiginlega sögulega landnám manna á Íslandi. En hún skiptir stundum miklu máli til að varpa ljósi á söguleg viðhorf manna á ýmsum tímum Íslandsögunnar og þar getur hún varðað líf og menningu, pólitík og jafnvel sálarlíf (t.d. sjálfsvitund) fólksins í landinu. Eitt er að skoða sérstaklega hvaða viðhorf koma fram í þeim texta Landnámu sem telja má upphaflegan, það er viðhorf höfunda hennar. Það verður ekki gert hér; það hefur fyrirlesari reynt fyrr annars staðar. Annað er að skoða að nokkru áhrif hennar á 19. og 20. öld, en þá urðu fornsögurnar, þar sem Landnáma var lögð til grundvallar, mikilvægur aflvaki í þjóðernissinnaðri sjálfstæðisbaráttu Íslendinga. Þær stöppuðu stálinu í fólk, gáfu því ákveðna sjálfsvitund, gagnvart nágrannaríkjum og þjóðum. Skáldin ortu lofsöngva og kvæði um landnámsmenn sem ættgöfugar hetjur frelsisins. Landnámutrú fékk blæ almennra trúarbragða, næstum opinbera pólitíska viðurkenningu. Af þessu eimir enn í samtíðinni og verður fjallað nánar um það og leiðir til að skapa nútímalegri og skynsamlegri viðhorf gagnvart Landnámabók.

Sveinbjörn Rafnsson er doktor í sagnfræði frá háskólanum í Lundi. Hann er prófessor emeritus frá Háskóla Íslands þar sem hann kenndi um árabil. Rannsóknir hans hafa að talsverðu leyti verið í íslenskri miðaldasögu, meðal annars um Landnámabók, íslenskar fornsögur og forn lög.

— o —

Marion Lerner

Pólitísk goðsögn í framkvæmd

Íslensk ferðafélög og landnám í upphafi 20. aldar

Fimmtudaginn 22. janúar 2015 kl. 16.30
Odda 101

Marion Lerner
Marion Lerner

Á þriðja og fjórða áratug 20. aldar stofnuðu Íslendingar ferðafélög á borð við Ferðafélag Íslands, Fjallamenn og Bandalag íslenskra farfugla. Í þessu samhengi ræddu þeir ýtarlega um gagn og nauðsyn félagsskapar af þessu tagi, um markmið þess, sérstöðu íslenska samfélagsins, fyrirmyndir í útlöndum o.s.frv. Við skoðun gagna sem liggja fyrir kom í ljós að áberandi oft var hér talað um „landnám“, jafnframt um „nýtt landnám“ eða um „landnám inn á við“. Minnið um landnám var augljóslega afar virkt og gegndi ákveðnu hlutverki. Í erindinu verður fjallað um landnám sem pólitíska goðsögn sem stofnendur ferðafélaga túlkuðu á mismunandi vegu og léðu þannig einnig mismunandi merkingu. Jafnframt má sjá kynslóðamun í þessari túlkun.

Marion Lerner er menningar- og þýðingafræðingur. Hún er lektor við Íslensku- og menningardeild á Hugvísindasviði Háskóla Íslands. Rannsóknir hennar lúta einkum að ferðamenningu 19. og 20. aldar, ferðabókmenntum í víðum skilningi og þýðingum þeim tengdum. Einnig er hún þýðandi úr íslensku yfir á þýsku. Í doktorsritgerð sinni túlkaði hún stofnun ferðafélaga á Íslandi út frá kenningum um menningarlegt minni.