Landnám Íslands

09 Pall og Helgi Skuli.002

 

 

— o —

Páll Theódórsson

Nákvæm aldursgreining mannvistarleifa frá frumbyggð á Íslandi með nýrri úrvinnslu gjóskusniða

Fimmtudaginn 5. febrúar 2015 kl. 16.30

Odda 101

Páll Theódórsson
Páll Theódórsson

Innan áratugar getur orðið ljóst hvenær búseta hófst í flestum héruðum landsins og hvernig byggð þróaðist þar — ef nýir möguleikar gjóskutímatals Sigurðar Þórarinssonar verða nýttir á komandi árum. Gjóskusnið eru myndir sem sýna dýpt og þykkt gjóskulaga og jarðvegsþykktina milli þeirra í lóðréttum jarðvegssniðum. Gjóskutímatalið byggist hins vegar einungis á hinni sívaxandi þykkt jarðvegsins án gjóskulaganna. Nákvæm aldursgreining fæst einungis með því að fullnýta grunnupplýsingarnar sem felast í öllu sniðinu. Þetta næst með nýrri úrvinnsluaðferð sem byggist á grafiskri tölvuúrvinnslu sniðanna. Þykkt jarðvegslaganna milli hverra tveggja gjóskulaga er mæld á sniðmynd og færð í Excel-töflu. Forritið teiknar síðan graf sem sýnir fyrir hvert þekkt gjóskulag heildarþykkt jarðvegs (án gjósku) milli þess og landnámslagsins. Grafið sýnir allar grunnupplýsingar gjóskusniðsins.

Grafisk úrvinnsla fjölda sniða hefur sýnt að þau eru jafnan mun reglulegri en fram til þessa hefur verið talið; þykknunarhraðinn er oftast stöðugur í 6–10 aldir og eykst sjaldnast í kjölfar landnáms. Óvissan í tímasetningu mannvistarleifa er 6 til 12 ár. Til að sýna þetta hefur verið unnið úr nokkrum gjóskusniðum þar sem nú er mögulegt að ná meiri nákvæmni en áður í aldursgreiningu mannvistarleifa.

Að lokum er rætt um möguleika grafísku aðferðarinnar til að rekja athafnir frumbýlinganna allt frá upphafi landnáms með því að tímasetja mannvistarleifar út frá afstöðu til þekktra gjóskulaga: (1) upphaf búsetu út frá því á hvaða dýpi sótagnir úr reyk frá bæjum frumbýlinganna koma fyrst fram, (2) hvenær gert var til kola út frá dýpt sótagnanna í jarðveginum og (3) einstakar kolagrafir.

Páll Theódórsson er eðlisfræðingur, vísindamaður emeritus við Raunvísindastofnun Háskóla Íslands. Hann hefur þróað mælitæki sem einfaldar aldursgreiningar með kolefni-14 aðferðinni og hefur kannað möguleika gjóskutímatalsins til nákvæmra tímasetninga. Hann hefur með reynslu raunvísindamanns unnið úr margvíslegum skýrslum fornleifafræðinga um frumbyggð á Íslandi og komist að þeirri niðurstöðu að landnám á Íslandi hafi hafist löngu fyrir 870.

— o —

Helgi Skúli Kjartansson

Erfðamengi og atburðarás

Fimmtudaginn 5. febrúar 2015 kl. 16.30

Odda 101

Helgi Skuli Kjartansson
Helgi Skúli Kjartansson

Fyrir nokkrum árum birti erfðafræðingurinn Agnar Helgason röð rannsókna sem varpa nýju ljósi á skyldleika Íslendinga við grannþjóðir og þar með á uppruna þeirra. Um hlutföll norræns uppruna og vestræns eru niðurstöður hans — um eða yfir helmingur norrænn — traustari og trúverðugri en fyrri tilraunir til að reikna það hlutfall, ýmist á grundvelli erfðafræði eða ritheimilda. Þar við bætast óyggjandi niðurstöður um mikla kynjaskekkju, þar sem vestræni uppruninn er miklu frekar í kvenlegg, sá norræni frekar í karllegg. Þótt tölur Agnars þurfi ekki að vera hárnákvæmar eru þær traustari en flest annað sem við vitum um fyrstu aldir Íslandsbyggðar. En hvernig eigum við að laga sögumynd okkar að þeim? Koma þær heim við þá hugmynd að allra fyrstu landnemarnir hafi mest komið frá Noregi? Sýna þær samsetningu landnemahópsins í heild eða ýkja þær hlut þeirra kynsælustu — t.d. norrænna hástéttarkarla? Getur vestræni uppruninn að verulegu leyti komið um ambáttarbörn, og þá e.t.v. stafað að hluta af þrælaverslun eftir lok landnámsins sjálfs? Og hvað á að ráða af því um landnám Íslands að hliðstæðar rannsóknir benda til enn meiri kynjaskekkju í Færeyjum, hins vegar furðu lítillar í norrænum ættum á Hjaltlandi og Orkneyjum?

Helgi Skúli Kjartansson er cand.mag. í sagnfræði frá Háskóla Íslands, nú prófessor (í hlutastarfi) við Menntavísindasvið Háskóla Íslands og doktorsnemi í íslenskum bókmenntum (fornri bragfræði) við sama skóla. Rannsóknir hans tengjast ýmsum sviðum Íslandssögu og íslenskra fræða, m.a. Grágás og fleiri fornmálstextum. Um landnám Íslands hefur hann skrifað greinina „Landnámið eftir landnám“ 1997.

— o —