Landnám Íslands

15 Landnám Sverrir og Torfi.002.002

—o—

Sverrir Jakobsson

Ari fróði og landnám í Breiðafirði

Fimmtudaginn 21. maí 2015 kl. 16.30
Odda 101

Sverrir Jakobsson
Sverrir Jakobsson

Almennt hefur verið talið að Landnáma hafi verið rituð þegar á 12. öld og eitthvað af efni hennar eigi rætur að rekja til þess tíma. Hið sama kann að eiga við um Íslendingasögur, að einhver efnisgrunnur í þeim hafi verið orðinn til áður en þær voru ritaðar í þeirri gerð sem við þekkjum.

Ari fróði mun hafa átt hlutdeild í ritun elstu gerðar Landnámu. Í Laxdælu og Eyrbyggju er vitnað til Ara fróða sem heimildar um Þorstein rauð þegar kemur að falli hans á Katanesi og hins vegar um börn hans. Þorsteinn var forfaðir Ara í beinan karllegg og Ari hefur greinilega ritað eitthvað um hann. Í gegnum Þorstein gat Ari rakið ættir sínar frá Ragnari loðbrók, Upplendingakonungum, Svíakonungum og dularfullum Tyrkjakonungi. Samkvæmt Landnámabók og Eiríks sögu rauða vann Þorsteinn „meir en hálft Skotland“. Hann var sem sagt konungur og í gegnum hann var Ari tengdur öðrum konungum.

Í þessu erindi verður farið yfir vensl helstu forystumanna í Breiðafirði og þá þætti úr sögu þeirra sem hafa að öllum líkindum verið kunnir Ara fróða. Af þessari yfirferð má sjá að náin vensl hafa verið á milli þessara fjölskyldna frá fyrstu tíð og Ari var meira eða minna tengdur þeim öllum. Við vitum hins vegar ekki hvort þessi mynd er í samræmi við „sögulegan veruleika“ 9. og 10. aldar. Hún er veruleikinn eins og sagnaritarar 12. og 13. aldar skynjuðu hann og miðluðu til síðari kynslóða. Þar er hlutur Ara ekki sístur.

Sverrir Jakobsson er prófessor í miðaldasögu við Háskóla Íslands. Hann hefur m.a. rannsakað heimsmynd og íslenskt þjóðerni, friðarviðleitni kirkjunnar og valdamiðstöðvar, m.a. í Breiðafirði.

— o —

Torfi H. Tulinius

Skrásetning og stjórnun lands og lýðs

Um landnámuritun og goðamenningu

Fimmtudaginn 21. maí 2015 kl. 16.30
Odda 101

Torfi Tulinius
Torfi H. Tulinius

Rannsóknir Sveinbjörns Rafnssonar á „sögugerð“ Landnámabókar hafa vakið athygli á því að hún er ekki aðeins safn frásagna af landnámsmönnum heldur myndar hún sjálf heillega frásögn af því hvernig landið byggðist. Telur Sveinbjörn að höfundur sögugerðarinnar hafi endurskipulagt að nokkru leyti fyrri gerðir Landnámu og bætt ýmsu við þær, í þeim tilgangi að semja rit sem væri undan¬fari Kristni sögu. Í ljósi kenninga heimspekingsins Paul Ricoeur um „sjálfsmynd sem afurð frásagna“ („identité narrative“), ætla ég að leitast við að bregða ljósi á hið mikla safn frásagna sem finna má í Landnámabók, en einnig í öðrum fornritum, svo sem Íslendingasögum en líka fleiri ritum. Spurt verður hvers vegna sögur voru sagðar af landnámi, hvaða tilgangi það þjónaði og hvers konar sjálfsmyndarsmíð átti sér stað í þessum frásögnum? Var hugsunin á bak við þessar sögur einsleit eða er hægt að lesa úr þeim mismunandi afstöðu til fortíðar, eignarhalds og valda, afstaða sem e.t.v. fór eftir félagslegum þáttum eins og kyni og þjóðfélagsstöðu? Þessar spurningar verða reifaðar og tilgáta sett fram um að frásagnir af landnámi í fornritum megi lesa sem vitnisburð um átök um skilgreiningu á íslensku samfélagi á miðöldum.

Torfi H. Tulinius er prófessor í íslenskum miðaldafræðum við Íslensku- og menningardeild Háskóla Íslands. Í rannsóknum sínum hefur Torfi fengist við franskar miðalda- og nútímabókmenntir, en einkum þó við íslenskar miðaldabókmenntir, sem hann leitast við að skilja út frá því samfélagi sem ól þær af sér og með aðstoð ýmiss konar fræðikenninga. Hann hefur ritað¬ tvær bækur um efnið, aðra um fornaldarsögur Norðurlanda (The Matter of the North. The Rise of Literary Fiction in Thirteenty Century Iceland, 2002) og hina um Egils sögu (Skáldið í skriftinni. Snorri Sturluson og Egils saga, 2004).