Landnám Íslands

Helgi Þorláksson

Endursýn landnáms að leiðarlokum

Fimmtudaginn 28. maí 2015 kl. 16.30
Odda 101

Helgi Þorláksson
Helgi Þorláksson

Í lok fyrirlestraraðar um landnám Íslands verður hér litið yfir farinn veg og nokkur álitamál og spurningar reifaðar eftir því sem tími vinnst til:

  • Af hverju nýtur Landnáma svo mikillar tiltrúar? Getur verið að íslensk dómarastétt líti almennt á hana sem trausta heimild um landnámið?
  • Er mögulegt að átta sig á hvernig texti frumgerðar Landnámu, sem til var snemma á 12. öld, muni hafa verið? Eða er engin von til þess?
  • Eru hneigðir í Landnámu, hlutdrægni sem fer í vissar áttir, t.d. að miklu leyti þöggun um keltneska frumbyggja?
  • Er þess að vænta að allur almenningur nái tökum á að nota Landnámu sem leif, þ.e.a.s. sem vitnisburð um ritunartíma gerðanna? Ætti almenningur að fara að venja sig á að líta á Landnámu sem skáldskap og njóta hennar sem bókmennta?
  • Er mögulegt að nýta fornleifar og vitnisburði aðra en Landnámabók, svo sem erfðamengi manna, einkenni húsdýra og almenn náttúruleg rök til að skilja og skýra landnámið?
  • Höfum við næga vitneskju um sjóhæfni skipa á landnámstíma, eigendur þeirra og stjórnendur og siglingatækni til að skilja landnámið? Voru skip almennt illa hæf til úthafssiglinga á landnámstíma? Voru skip sem nýtt voru til úthafssiglinga dýr og í fárra eigu?
  • Hvað ýtti einkum undir landnámsferðir? Bág kjör, mannfjöldi og landþrengsli heima fyrir, í Noregi og á skosku eyjunum, með ófriði og ofbeldi? Var landnám Íslands þá neyðarlausn fyrir flóttamenn? Eða á hinn bóginn: Var aðdráttarafl Íslands svo mikið, með nægum landkostum, að það lokkaði stórbændur og höfðingja?
  • Voru foringjar landnemanna víkingar eða friðsamir bændur?
  • Er þegar öllu er á botninn hvolft, skynsamlegast að bera landnám Íslands saman við Vesturheimsferðir og landnám í Vesturheimi á 19. öld og álykta um framvinduna út frá því?
  • Vitum við í raun svo lítið um landám Íslands að rök fyrir því að landið hafi verið numið á 8. öld eða 7. öld séu jafngild og önnur? Getur verið að við séum einkum komin af Herúlum?

Helgi Þorláksson er prófessor í sagnfræði við Sagnfræði- og heimspekideild Háskóla Íslands.