Landnám Íslands

Landnám Íslands

Úr fyrirlestraröð Miðaldastofu Háskóla Íslands 2014-2015

ÚTGÁFUHÓF

Fagnið með okkur útgáfu bókarinnar
fimmtudaginn 5. desember kl. 16.00
í ljósmyndasal Þjóðminjasafns Íslands
Allir velkomnir!

Út er komið hjá Miðaldastofu Háskóla Íslands og Háskólaútgáfunni greinasafnið Landnám Íslands: úr fyrirlestraröð Miðaldastofu Háskóla Íslands 2014-2015. Landnámið er spennandi rannsóknarefni enda gefst þar einstakt tækifæri til að afla vitneskju um hvernig samfélag manna verður til í ósnortnu landi. Rannsóknarsaga landnámsins er löng. Framan af voru ritheimildir á borð við Landnámabók, Íslendingabók Ara fróða og Íslendingasögur í öndvegi en á undanförnum áratugum hafa rannsóknir á fornleifum skipað æ stærri sess og notið stuðnings af rannsóknum á gjóskulögum og mannabeinum og af geislakolsmælingum. Þá hafa mikilsverðar upplýsingar fengist úr rannsóknum í erfðafræði og vistfræði og öðrum greinum. Á þessari bók birtast fjórtán greinar byggðar á fyrirlestrunum þar sem innlendir og erlendir fræðimenn segja frá rannsóknum sínum á landnámi Íslands frá ólíkum hliðum og sjónarhóli ólíkra fræðigreina, svo sem sagnfræði, siglingafræði, vistfræði, málsögu, menningarfræði og bókmenntafræði.

Efni

 • Gunnar Karlsson: Ágrip af landnámsrannsóknarsögu
 • Þorsteinn Vilhjálmsson: Landnám, skip og siglingar
 • Árni Einarsson: Garðlög fornaldar og vistfræði landnáms
 • Kristján Árnason: Tunga nemur land
 • Pernille Hermann: The Landnám: Narratives of New Beginnings, the Weather and Myths
 • Elisabeth Ida Ward: The Embodied Practice of Emplacement in Landnám
 • Sveinbjörn Rafnsson: Að trúa Landnámu
 • Auður Ingvarsdóttir: Forn fræði og ættartölur: Hugmyndir um samsetningu og innihald Landnámabókar
 • Helgi Þorláksson: Fimmtíu ár forgefins? Um undirtektir við fræðilegri gagnrýni á heimildargildi Landnámu
 • Torfi H. Tulinius: Skrásetning og stjórnun lands og lýðs: Um Landnámuritun og goðamenningu
 • Ármann Jakobsson: Þörfin fyrir sanna sögu: Hvaða máli skiptir sannleiksgildi fornrita á borð við Landnámabók fyrir tuttugustu aldar fræðastarf?
 • Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir: Misfarir eða missagnir? Staðfræði tveggja fornra frásagna
 • Marion Lerner: Pólitísk goðsögn, rými og staðir: Íslensk ferðafélög og landnám þeirra á fyrri hluta tuttugustu aldar
 • Helgi Þorláksson: Endursýn landnáms að leiðarlokum