Landnám Íslands

Gunnar Karlsson

Landnámsrannsóknarsaga

Fimmtudaginn 25. september 2014 kl. 16.30
Odda 101

Gunnar Karlsson
Gunnar Karlsson

Farið verður yfir meginlínur í rannsóknarsögu landnáms á Íslandi síðustu öldina, einkum hvernig ritheimildir og fornleifar hafa verið notaðar að mismiklu leyti. Meðal annars verður rakin sagan af endurteknum tilraunum til að hafna því og afsanna að Ísland sé norræn nýbyggð víkingaaldar. Fornleifar og náttúruleifar hafa smám saman tekið stöðu Íslendingabókar og Landnámabókar sem grunnheimildir um landnámið. Nákvæm tímasetning landnámsöskulagsins, sem birtist árið 1995, gefur nýtt tækifæri til að tímasetja upphaf landnáms. Í tengslum við þetta verður sagt stuttlega frá tilraun til að umreikna jarðvegsþykknun í tímalengd til að geta tímasett upphaf einstakra mannvistarminja út frá landnámslagi. Rannsókn á strontiumhlutfalli í tönnum skilar ómetanlegum en nokkuð vandtúlkuðum fróðleik, einkum um lok landnámstímabilsins. Þó reynist furðumargt eftir sem ekki verður komist að niðurstöðu um án þess að nota ritheimildirnar, og þá er mikilvægt að geta séð hvernig þær standa sig á sviðum þar sem fornleifar geta veitt áreiðanlegri vitneskju. Fornleifar hafa því orðið mikilvægur prófsteinn á áreiðanleika ritheimildanna. Við getum notað þær til að svara spurningum um það hvort höfundar Íslendingabókar og Landnámu bjuggu yfir sönnum fróðleik um landnám Íslands. Í ýmsum grófum dráttum reynist vitnisburður fornleifa býsna svipaður því sem Landnámabók segir, svo sem um að landnemar Íslands hafi verið blanda af norrænu og keltnesku fólki þar sem hið norræna var fleira. Í lokin verður varpað fram nokkrum hugmyndum um brýn rannsóknarefni og freistandi rannsóknartækifæri á þessu sviði.

Gunnar Karlsson, prófessor emeritus, er upphaflega íslenskufræðingur með Íslandssögu sem kjörsvið. Hann var lektor í sagnfræði við Háskóla Íslands 1976–80 og prófessor í sömu grein til starfsloka 2009. Hann hefur skrifað margt um Íslandssögu, meðal annars íslenska miðaldasögu, og vinnur nú að bók um landnám Íslands.

Landnám Íslands — fyrirlestraröð Miðaldastofu; sjá dagskrá á http://midaldastofa.hi.is/landnam-islands/