Landnám Íslands

06 Landnám Olina og Gisli.007
—o—

Ólína Þorvarðardóttir

Misfarir eða missagnir?

Um „fjall eitt hátt“ og „melinn hjá Mosvöllum“

Fimmtudaginn 4. desember 2014 kl. 16.30
Odda 101

OlinaDV-2014 copy
Ólína Þorvarðardóttir

Fornsögur okkar geyma tvær frásagnir um staðhætti á Vestfjörðum, sem báðar hafa valdið heilabrotum og jafnvel efasemdum um að fái staðist.

Fyrra dæmið er frásögn Landnámu af því þegar Flóki Vilgerðarson gekk á köldu vori „upp á fjall eitt hátt ok sá norðr yfir fjöllin fjörð fullan af hafísum. Því kölluðu þeir landit Ísland …“ (Ísl.s. I, 27). Ýmsir afa dregið í efa sannleiksgildi frásagnar Landnámu af þessari fjallgöngu Hrafna-Flóka, enda sé ekki hægt að sjá niður í Ísafjarðardjúp af neinu fjalli þeim megin á kjálkanum og tæplega komi til greina að aðrir firðir hafi verið fullir af hafísum.

Síðara dæmið er frásögn Gísla sögu Súrssonar af því þegar menn Gísla fórust á mis við Véstein og menn hans í Önundarfirði við „melinn hjá Mosvöllum“. Hafa ýmsir dregið þessa frásögn í efa og því jafnvel verið fleygt að í Öndundarfirði sé hvergi hægt að farast á mis með þessum hætti.

Í fyrirlestrinum verður gerð grein fyrir vettvangskönnun sem höfundur gerði sumarið 2014 í þeim tilgangi að varpa ljósi á þessar tvær frásagnir og sannleiksgildi þeirra. Höfundur skoðaði tvö fjöll á Vestfjarðahálendinu sem ætla má að Flóki og félagar hafi getað gengið á og snúið af á innan við einum degi. Einnig verður lýst í máli og myndum staðháttum við mynni Bjarnardals í Önundarfirði þar sem ætla má að lið Vésteins og Gísla hafi farið fyrir ofan leiti og neðan.

Þó að fyrirlestrinum sé ekki ætlað að vekja upp gamlar bókfestu- og sagnfestuþrætur, mun hann varpa ljósi á það hversu vel höfundar og/eða skrásetjarar þekktu til staðhátta á sögusviði sagnanna.

Ólína Þorvarðardóttir þjóðfræðingur er með doktorspróf í íslenskum bókmenntum. Hún hefur verið háskólakennari, skólameistari, sérfræðingur hjá stofnun Fræðasetra og virkur fræðimaður um árabil. Eftir hana liggur fjöldi fræðigeina á sviði þjóðfræða og bókmennta. Rannsóknir hennar lúta einkum að sögu galdraofsókna á Íslandi, þjóðsagnahefð og menningarsögu.

— o —

Gísli Sigurðsson

Getur Landnáma líka verið heimild um landnámið?

Fimmtudaginn 4. desember 2014 kl. 16.30
Odda 101

GisliSig copy
Gísli Sigurðsson

Munnlegar og skrifaðar frásagnir, hvort sem þær lýsa samtímapersónum og atburðum eða fortíðinni, mótast af frásagnarlögmálum og aðstæðum þegar sögurnar eru sagðar/ritaðar, hæfileikum, ætlun og hugmyndum sagnamanns/-konu og væntingum áheyrenda/lesenda. Tengsl við veruleikann vefjast því fyrir hinum lærðustu mönnum. Þau eru nógu flókin þegar fengist er við samtímann — svo frásagnir séu ekki heimfærðar upp á raunheima mörgum öldum áður en sögurnar eru sagðar/ritaðar, líkt og með margar 12. og 13. aldar frásagnir sem ritaðar voru á Íslandi um persónur og atburði á 9., 10. og 11. öld. Minni einstaklinga er breytilegt og skapandi, fólk velur úr, man sumt og gleymir öðru af því sem það hefur sjálft upplifað, ekki síður en þegar það miðlar sögum annarra, frá kyni til kyns. Að órannsökuðu máli er ólíklegt að nokkur frásögn hafi „heimildagildi“ um ríkjandi aðstæður 2-300 árum áður. Minningasögur sem afi og amma segja barnabörnum sínum eru heimild um viðbrögð gamla fólksins við samtímanum og hverju það vill koma á framfæri við börnin í nýjum og síbreytilegum heimi. Um leið eru afi og amma treg til að viðurkenna að minningarnar byggist ekki á raunverulegri reynslu, jafnvel atburðum og fólki sem var til og hét ákveðnum nöfnum. Og þau hafa sitthvað til síns máls. Á svipaðan hátt er ekki útilokað að það sem skráð er í Landnámu endurspegli minningar um raunverulegt fólk, ættartengsl og atburði sem það tengdist – en spurningin er hvaða aðferðir dugi til að meta hversu líklegt það geti eða geti ekki verið.

Gísli Sigurðsson er rannsóknarprófessor við Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum. Hann lærði við Háskóla Íslands, í Winnipeg og í Dyflinni. Rannsóknir hans hafa beinst að textum með rætur í munnlegri hefð að fornu og nýju. Hann hefur skrifað um gelísk áhrif á Íslandi, túlkun texta í ljósi munnlegrar hefðar og gefið út eddukvæði og sögur úr Vesturheimi.