Strengleikar

Arngrímur Vídalín

Skal ek fásk við blámann yðvarn

Merking orðsins blámaður og birtingarmyndir blámanna frá upphafi ritaldar og fram á 19. öld

Fimmtudaginn 13. nóvember 2014 kl. 16.30
Árnagarði 422

Arngrímur Vídalín
Arngrímur Vídalín

Blámenn koma víða fyrir í íslenskum miðaldaheimildum og í ýmsu samhengi. Sumar sagnir af blámönnum eiga sameiginleg minni þó að árhundruð skilji að meðan aðrar nefna þá aðeins sem óskilgreindan hóp fólks. Enn önnur tilfelli standa ein sér og mörg þeirra eru fengin úr evrópskum lærdómsritum, svo sem úr Orðsifjum heilags Ísidórs frá Sevilla.

Jafnan hefur verið gengið að því sem vísu að orðið blámaður merki alltaf það sama: svartan mann eða Afríkumann. Þegar nánar er að gætt er veruleikinn flóknari og reynist orðið blámaður um margt deila merkingu með orðinu tröll, þótt hið síðarnefnda sé óræðara og blámenn þó nokkuð afmarkaðri persónur en tröll. Þrátt fyrir nokkuð lífseiga kreddu verða blámenn fyrri alda þó hvorki skilgreindir út frá húðlit né afmarkaðir við tiltekinn heimshluta svo vel sé; það gerist á síðari öldum. Þvert á móti sýna dæmin að blámenn eru illskilgreinanleg stærð í íslenskum miðaldabókmenntum.

Í fyrirlestrinum verður drepið á ýmis dæmi um blámenn í miðaldasögum, alfræðiritum og þjóðsögum og leitast við að varpa nokkru ljósi á margbreytileika þeirra og ólíka merkingu orðsins eftir samhengi, með samanburði við evrópskar heimildir þar sem við á.

Arngrímur Vídalín er cand.mag. í norrænum fræðum frá Árósaháskóla. Hann leggur nú stund á doktorsnám í íslenskum bókmenntum fyrri alda. Rannsóknarverkefninu er ætlað að skýra lærðar hugmyndir um skrímsli í heimsmynd Íslendinga frá upphafi ritaldar fram að siðskiptum.

Fyrirlesturinn verður fluttur á íslensku en ensk þýðing á glærum verður aðgengileg.
The lecture will be delivered in Icelandic, but an English rendering of the slides will be made available.